Hoppa yfir valmynd
15. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2008

Fimmtudaginn, 15. maí 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 1. febrúar 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 22. janúar 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 8. janúar 2008 um að synja kæranda um lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Þegar ég sótti um Fæðingarorlof í fyrra ´07 þá sótti ég um auka mánuð vegna þess að ég var sett í veikindaleyfi af mínum heimilislækni 3 mánuðum fyrir fæðingu. Vinnuveitandi minn þáverandi greiddi mér þá daga sem ég átti inni. En þeir ljúka í lok maí 2007 þá var einn mánuður þangað til setts fæðingardags og því bjóst ég við eins og um var rætt á þeim tíma við fæðingarorlofssjóð að ég fengi hann greiddan frá þeim sem 7unda mánuð. En annað kom í ljós í desember 2007 þegar ég fékk skattkortið sent til baka frá þeim en samkvæmt öllu átti ég eftir að fá greitt um mánaðarmót des 07/jan 08.

Annað í þessu máli er það að á þeim tíma sem ég var ófrísk og enn í vinnu er mér sagt upp störfum og er því ekki með starf núna eftir fæðingarorlof. Síðasta greiðsla /laun frá vinnuveitenda eru 31. maí ´07 þegar ég var búin að ljúka öllum veikindadögum sem ég átti af minni hálfu var ég þá búin að segja skilið við fyrirtækið í júní kemur svo peningur inn á reikning hjá mér frá fyrirtækinu og mér tilkynnt að ég hafi átt inni des. uppbót og orlof og að það væri verið að loka fyrirtækinu og því vildi vinnuveitandi greiða mér það sem réttmætt væri mitt og ég þakka fyrir en út af þessu þá er verið að neita mér um sjöunda mánuðinn sem um var samið og þar með átti ég að fara að vinna frá 5 mánaða gamalli dóttur minni. Það sem verið er að gera mér er það að mér er neitað um greiðslu á þeim forsendum að ég hafi verið á launum í júní (segir fæðingarorlofssjóður) sem sagt ég og barnið eigum að líða fyrir það að mér var sagt upp störfum og verið sé að loka fyrirtækinu á þeim tíma þegar ég á að byrja í fæðingarorlofi og það að vinnuveitandi er að ganga frá því sem hann skuldaði mér í júní en ekki 31. maí eins og hann átti að gera þar sem það var minn loka dagur. Hann sendi meira að segja fæðingarorlofssjóði bréf þar sem hann biðst afsökunar á þessu. og það hafi verið hans sök en samt halda þær fram á að það við mig að ég hafi fengið laun fyrir þennan mánuð. Samkvæmt ráðningarsamningnum var ég með orlof á launum en ekki í orlofi lagt inn á orlofsreikning og því varð vinnuveitandi að greiða þar sem hann var að loka.

Þetta allt hefur sett mig í mjög vonda stöðu fjárhagslega þar sem maður gerir ráð fyrir að geta treyst því sem sagt er og ég var ekki tilbúin að fara frá fimm mánaða gömlu barni sem enn er á brjósti á vinnumarkað. Nú er komið á annan mánuð síðan ég byrjaði að reyna að fá botn í þetta og ég hef sent allt sem þær hafa beðið um og það er svo augljóst að það er verið að skerða okkur um þann rétt sem við eigum og því vona ég að þið getið séð það rétta út úr þessu.“

 

Með bréfi, dagsettu 5. febrúar 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 23. febrúar 2008. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að synja kæranda um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður á meðgöngu.

Með umsókn, dags. 23. maí 2007 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 2. júlí 2007.

Auk umsóknar kæranda barst vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 15. maí 2007, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 23. maí 2006 og launaseðlar frá B fyrir febrúar og apríl 2007. Enn fremur lágu fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 14. júní 2007, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt frá 14. júní 2007 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hennar samkvæmt skrám skattyfirvalda tekjuárin 2005 og 2006.

Á umsókn um fæðingarorlof, dags. 23. maí 2007, kemur fram að kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði vegna væntanlegrar fæðingar 2. júlí 2007. Á tilkynningu um fæðingarorlof, dags. 23. maí 2007, kemur fram að kærandi ætli að hefja töku fæðingarorlofs 1. júní 2007 eða mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Var kærandi afgreiddur í samræmi við það, sbr. greiðsluáætlun til kæranda, dags. 14. júní 2007.

Þann 14. desember 2007 barst Fæðingarorlofssjóði læknisvottorð v/lengingar fæðingarorlofs skv. lögum nr. 95/2000 v/sjúkdóms móður, dags. 12. desember 2007 og þann 19. desember 2007 barst starfslokavottorð frá B dags. 13. desember 2007.

Í 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, kemur fram að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma. Í 6. mgr. 17. gr. ffl. kemur fram að umsókn um lengingu fæðingarorlofs skv. 4. mgr. skuli fylgja staðfesting vinnuveitanda. Í þeirri staðfestingu skuli koma fram hvenær launagreiðslur féllu niður.

Samkvæmt læknisvottorði, dags. 12. desember 2007, kemur fram að kærandi hafi látið af störfum þann 1. apríl 2007 vegna veikinda á meðgöngu. Samkvæmt starfslokavottorði frá B dags. 13. desember 2007, lét kærandi hins vegar af störfum tveimur mánuðum síðar eða þann 31. maí 2007.

Þann 21. desember 2007 var kæranda ritað bréf og henni bent á að skv. staðgreiðsluskrá RSK væri hún skráð með laun í júní 2007. Einnig var hún beðin um launaseðil fyrir maí 2007 (átti að vera vegna júní 2007). Launaseðillinn barst 7. janúar 2008 og sýnir hann mánaðarlaun fyrir maí 2007. Vegna þessa var hringt í D framkvæmdastjóra B þann 8. janúar 2008. Í því símtali koma fram að laun vegna júní 2007 væru veikindadagar sem kærandi hefði átt inni og ótekið orlof kæranda.

Í ljósi þessa og í samræmi við 4. og 6. mgr. 17. gr. ffl. var ekki talið að kærandi hafi fallið af launaskrá meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Var kæranda sent synjunarbréf þess efnis, dags. 8. janúar 2008.

Þann 15. janúar 2008 barst bréf frá B dags. 10. janúar 2008, þar sem fram kemur að kærandi hafi látið af störfum 31. maí 2007 og að hún hafi átt inni orlofsdaga sem greiddir hafi verið út í júní. Innsent bréf var ekki talið breyta fyrri ákvörðun þess efnis að kærandi hafi ekki fallið af launaskrá meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag, sbr. 4. og 6. mgr. 17. gr. ffl.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu, sbr. synjunarbréf dags. 8. janúar 2008, þar sem kærandi hefði ekki uppfyllt skilyrði 4. og 6. mgr. 17. gr. ffl. um að hafa fallið af launaskrá meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 27. febrúar 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs að synja umsókn kæranda um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

Í 1. málsl. 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði, sbr. og 7. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. skal rökstyðja þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði læknis. Jafnframt segir þar að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum aðila um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Samkvæmt 6. mgr. 17. gr. skal staðfesting vinnuveitanda fylgja umsókn um lengingu fæðingarorlofs skv. 4. mgr. Í þeirri staðfestingu skal koma fram hvenær launagreiðslur féllu niður.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 2. júlí 2007. Í læknisvottorði vegna lengingar fæðingarorlofs dagsettu 12. desember 2007 kemur fram að kærandi hafi verið með mjög slæma verki í baki á meðgöngu þannig að hún hafi orðið óvinnufær 1. apríl 2007. Hafi hún verið í sjúkraþjálfun frá því í febrúar. Með bréfi vinnuveitanda dagsettu 13. desember 2007 er staðfest að kærandi hafi lokið störfum hjá fyrirtækinu 31. maí 2007. Samkvæmt staðgreiðsluskrá fékk kærandi greitt frá vinnuveitanda X kr. í júní 2007. Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs dagsettu 8. janúar 2008 var kæranda synjað um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði með vísan til símtals við vinnuveitanda hennar um að í júnígreiðslu hafi falist greiðsla vegna veikindadaga og ótekins orlofs. Í kjölfar bréfsins barst yfirlýsing frá vinnuveitanda dagsett 10. janúar 2008 um að kærandi hafi átt inni orlofsdaga sem greiddir hafi verið út í júní en hefðu með réttu átt að afreiknast og greiðast við starfslok. Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs dagsettu 17. janúar 2008 var umsókn kæranda um lengingu synjað að nýju.

Í 8. gr. laga nr. 30/1987 um orlof segir að ljúki ráðningarsamningi launþega og vinnuveitanda skuli vinnuveitandi við lok ráðningartímans greiða launþeganum öll áunnin orlofslaun hans samkvæmt reglunni í 2. mgr. 7. gr. Sama gildir um áunna desemberuppbót launþega.

Skilyrði framlengingar fæðingarorlofs samkvæmt 1. málsl. 4. mgr. 17. gr. ffl. er að þungaðri konu sé nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf. Að mati úrskurðarnefndarinnar er nægilega staðfest að ráðningartíma kæranda hafi lokið þann 31. maí 2007 og að greiðsla vinnuveitanda hennar í júní 2007 hafi verið starfslokagreiðsla, sbr. 8. gr. orlofslaga, en ekki greiðsla vegna launa fyrir hluta júnímánaðar. Samkvæmt því er uppfyllt skilyrði 4. mgr. 17. gr. ffl. um að kærandi hafi lagt niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns þann 2. júlí 2007.

Hin kærða synjun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs byggðist á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 4. mgr. 17. gr. ffl. um að hafa lagt niður launað starf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Samkvæmt framansögðu er þeirri afstöðu stofnunarinnar hafnað.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóð um að synja umsókn A um framlengingu fæðingarorlofs er hafnað.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta