Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 9/2008

Föstudaginn, 25. apríl 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 13. febrúar 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra frá E hdl., f.h. A, dagsett 12. febrúar 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem tilkynnt kæranda var með bréfi stofnunarinnar dagsettu 2. janúar 2008.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Samkvæmt greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs dags. 2, janúar 2008 er ljóst að inn í meðaltekjur umbj. míns árin 2006 og 2007 eru ekki teknar greiðslur frá B vegna óvinnufærni af völdum umferðarslyss sem umbj. minn lenti í þann 1. mars 2007. Sama á við um dagpeninga sem umbj. minn fékk vegna óvinnufærni af völdum slyssins hjá D. Samkvæmt meðfylgjandi staðfestingu frá B kemur fram að umbj. minn fékk greitt tímabundið tekjutjón vegna umferðarslyssins á tímabilinu frá 1.3.2007 til 30.9.2007 sem sundurgreinast skv. yfirliti.

Ljóst er af meðfylgjandi greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs að umræddar tekjur eru ekki teknar inn í útreikning greiðslna. Sama á við um dagpeningagreiðslur sem umbj. minn fékk frá D vegna slyssins. Staðgreiðslu er skilað af öllum þeim greiðslum sem frá framangreindum tryggingafélögum koma en tryggingafélögin eru undanskilin því að skila tryggingagjaldi af framangreindum greiðslum sbr. 3. tl. 9. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald. Ljóst er hins vegar af eðli þeirra og tilgangi að þær eiga að bæta viðkomandi launatap vegna óvinnufærni og má því jafna umræddum greiðslum til launa, enda er staðgreiðslu skilað af þeim. Umbj. minn telur afar óréttlátt að hún þurfi að bíða tjón af því varðandi Fæðingarorlofssjóð að umræddar greiðslur séu ekki teknar inn í þær greiðslur sem réttur hennar er byggður á enda staðfest af læknum að hún hafi verið óvinnufær á umræddum tíma. Óskar umbj. minn eftir endurskoðun úrskurðarnefndarinnar á útreikningi greiðslna og kærir þá ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs að taka ekki inn í útreikninginn greiðslur tekjutjóns frá framangreindum tryggingafélögum.

Samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði byggir framangreind ákvörðun um útilokun greiðslna vegna tímabundins tekjutjóns á 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, og lögum nr. 113/1990 um tryggingagjald sbr. 1. mgr. 6. gr. þeirra laga og 3. tl. 9. gr.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn. á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Einungis skal miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 telst stofn til tryggingagjalds allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. [1, tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt]. Ekki skiptir máli í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum, vöruúttekt eða vinnuskiptum. [Til stofns telst enn fremur endurgjald sem ber að reikna manni sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.] Samkvæmt 3. tl. 9. gr. laga nr. 113/1990 eru bætur tryggingafélaga vegna atvinnutjóns af völdum slysa undanþegnar greiðslu tryggingagjalds.

Umbj. minn telur að nota eigi bætur frá framangreindum tryggingafélögum í útreikningi Fæðingarorlofssjóðs. Um sé að ræða greiðslur sem jafna megi til launa og séu berum orðum undanskildar greiðslu tryggingagjalds í lögum nr. 113/1990. Telur umbj. minn greiðslurnar því fullnægja skilgreiningu 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um að um sé að ræða laun og þóknanir skv. lögum um tryggingagjald enda er hvergi tekið fram í lögum nr. 95/2000 að beinlínis þurfi að greiða tryggingagjald af umræddum launum eða þóknun heldur aðeins að um sé að ræða greiðslu sem jafna megi til launa og þóknana skv. 1. mgr. 6. gr. laga um tryggingagjald. Umbj. minn telur augljóst að svo sé og að 3. tl. 9. gr. staðfesti það að til launa skv. 1. mgr. 6, gr. laga 113/1990 teljist greiðslur tryggingafélaga vegna atvinnutjóns af völdum slysa.

Þá telur umbj. minn ekki koma skýrt fram að í lögum að 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 feli í sér að við útreikning meðaltals heildarlauna skuli ekki reiknaðir þeir: mánuðir sem foreldri er ekki að störfum í a.m.k. 25% starfshlutfalli. Einnig gæti umrædd regla hvort eð er ekki komið í veg fyrir að við útreikning Fæðingarorlofssjóðs yrði miðað við greiðslur frá B og D frá 1. maí 2007 þar sem umbj. minn vann eftir þá dagsetningu að hluta til, sbr. læknisvottorð þann 10. maí 2007 þar sem fram kemur að umbj. minn er 30% vinnufær frá. þeim tíma. Jafnframt vottorð sama læknis dags. 30.8.2007 þar sem fram kemur að umbj. minn var vinnufær 30% frá 1.5.2007 til 1.6.2007 og frá þeim tíma vinnufær 40% til 15.8.2007 en 50% vinnufær frá þeim tíma. Telur umbj. minn því að a.m.k. hefði átt að taka greiðslur frá framangreindum tryggingafélögum inn í útreikning Fæðingarorlofssjóðs frá 1. maí 2007 til 30.9.2007 enda vann umbj. minn þá meira en 25%.

Jafnframt má benda á ákvæði d. liðar 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 þar sem fram kemur að til þátttöku á vinnumarkaði teljist sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss. Þá má benda á það sem fram kemur í 5. gr. framangreindrar reglugerðar að víð mat á starfshlutfalli starfsmanns skuli þegar um er að ræða starfshlutfall foreldris sem fær greidd sjúkra- eða slysadagpeninga miða við það starfshlutfall sem tekið er mið af við útreikning dagpeninga. Þannig virðist beinlínis gert ráð fyrir því að við útreikning starfshlutfalls eigi að taka mið af greiðslum sem foreldri fær í veikinda- eða slysaleyfi. Telur umbj. minn að á sama hátt eigi að taka mið af greiðslum dagpeninga og greiðslum vegna tímabundins tekjutjóns vegna óvinnufærni þegar meðaltalslaun síðustu tveggja ára fyrir fæðingardag barns eru reiknaðar.

Með vísan til framangreindra ákvæða telur umbj. minn að jafna megi greiðslum á bótum frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss til þeirra launa sem skv. lögum nr. 95/2000 á að miða við enda falla þau undir þá skilgreiningu 1. mgr. 6. gr. laga nr. 113/1990 um að teljast til launa/þóknana sem skattskyld eru. Engu máli skiptir að greiðslurnar eru undanþegnar greiðslu tryggingagjalds enda sé það ekki skilyrði skv. lögum nr. 95/2000 að beinlínis sé greitt tryggingagjald af þeim greiðslum sem nota á heldur aðeins að þau falli undir lög nr. 113/1990 sem þau vissulega gera sbr. framangreint. Þá telur umbj. minn að jafna megi greiðslunum til greiðslna vegna starfs enda eru greiðslur vegna tímabundins tekjutjóns ætlaðar til að koma í greiðslna launa vegna starfs þegar um óvinnufærni er að ræða. Þá er ljóst af lögum nr. 113/1990 að bætur frá tryggingafélögum eru undanskildar greiðslu tryggingagjalds en hvergi er það gert að skilyrði í lögum nr. 95/2000 að beinlínis þurfi að greiða tryggingagjald af greiðslum svo unnt sé að nota þær til viðmiðunar við útreikning réttar til fæðingarorlofs eins og áður segir. Telur umbj. minn að hafi það verið ætlun löggjafans að beinlínis undanskilja greiðslur tryggingafélaga á bótum vegna tímabundins tekjutjóns við útreikning réttar til greiðslna í fæðingarorlofi hefði það þurft að koma skýrt fram í lögunum. Önnur niðurstaða fari í berhögg við skilgreiningu laga nr. 113/1990 um tryggingagjald.“

 

Með bréfi, dagsettu 18. febrúar 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 26. febrúar 2008. Í greinargerðinni segir meðal annars:

„Ágreiningur í þessu máli snýr annars vegar að því hvort bætur frá tryggingafélögum vegna atvinnutjóns af völdum slysa og slysa- og sjúkradagpeningar úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga skuli telja með við útreikning á meðaltali heildarlauna foreldris skv. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 og hins vegar snýr ágreiningurinn að því hvort undanskilja eigi þá mánuði, við útreikning á meðaltali heildarlauna, þegar foreldri hefur verið í minna en 25% starfshlutfalli.

Í 3. mgr. 4. gr. ffl. kemur fram að Fæðingarorlofssjóður, sem annast greiðslur til starfsmanna og sjálfstætt starfandi, skuli fjármagnaður með tryggingagjaldi, sbr. lög um tryggingagjald.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Enn fremur segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Þessu til fyllingar segir í 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 að meðaltal heildarlauna miðist við þann fjölda mánaða á umræddu viðmiðunartímabili sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 3. gr.

Með 4. gr. laga nr. 90/2004 varð breyting á 13. gr. ffl. Óbreytt er að eingöngu skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á vinnumarkaði. Í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi sem varð að lögum nr. 90/2004 segir að þá skuli alltaf miða við almanaksmánuði.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VI. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. telst ennfremur til þátttöku á vinnumarkaði:

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Líkt og kemur fram í 2. mgr. 13. gr. ffl. eru það lög um tryggingagjald sem ákvarða hvaða laun og þóknanir skuli telja með við útreikning á meðaltali heildarlauna foreldris. Í 6. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, sem er jafnframt launahugtak laganna, er skilgreint hvað skuli teljast til gjaldstofns tryggingagjalds. Í 1. mgr. 6. gr. kemur fram að stofn til tryggingagjalds séu allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tl. A–liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í 7. og 8. gr. laga um tryggingagjald er frekari upptalning hvað teljist til gjaldstofns tryggingagjalds skv. 6. gr. laganna og í 9. gr. er upptalning á hvaða greiðslur séu undanþegnar tryggingagjaldi.

Samkvæmt 2. tl. 9. gr. laga um tryggingagjald eru bætur frá Tryggingastofnun ríkisins svo og slysa- og sjúkradagpeningar úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga undanþegnar gjaldstofni tryggingagjalds skv. 1. mgr. 6. gr. laganna. Það sama gildir um bætur tryggingafélaga vegna atvinnutjóns af völdum slysa, sbr. 3. tl. 9. gr. laganna. En að auki falla þessar greiðslur ekki undir 1. tl. A–liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 heldur 2. tl. 7. gr.

Með vísan til alls framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að undanskilja beri greiðslur skv. 2. og 3. tl. 9. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 og að einungis skuli telja með þá mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda þegar hún var starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og skuli þá alltaf miða við almanaksmánuði.

Barn kæranda er fætt þann 3. febrúar 2008 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar árin 2006 og 2007.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hennar á árunum 2006 og 2007 og telur Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Frá mars–júní 2007 var kærandi ekki starfandi á innlendum vinnumarkaði og/eða í minna en 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Ber því að undanskilja þá mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna. Samkvæmt gögnum málsins verður ekki annað séð en kærandi hafi verið starfandi í a.m.k. 25% starfshlutfalli aðra mánuði á árunum 2006–2007. Ber því að hafa þá mánuði með við útreikning á meðaltali heildarlauna hennar í samræmi við 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að bréf til kæranda, dags. 2. janúar 2008, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 7. mars 2008, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði. Ágreiningur er um hvort við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skuli reikna með greiðslum sem kærandi fékk frá B vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss og greiðslum slysadagpeninga frá D.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr laga nr. 90/2004, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu og varanlegt fóstur.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Enn fremur skuli teljast til samfellds starfs eftirtalin tilvik, sbr. a-d-liður 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti, b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slys

Með reglugerð nr. 123/2007 var fellt niður ákvæði 3. málsl. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 þar sem kveðið var á um að auk launa samkvæmt lögum um tryggingagjald teldust til launa þær greiðslur sem komi til samkvæmt a-d liðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Með vísan til 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, sbr. og 1. gr. reglugerðar nr. 123/2007, er það mat úrskurðarnefndarinnar að við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda skuli ekki reiknaðar greiðslur frá vátryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss eða slysadagpeningar þar sem þær greiðslur mynda ekki stofn til tryggingagjalds sbr. 2. og 3. tl. 9. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald.

Barn kæranda er fætt þann 3. febrúar 2008. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði árin 2006 og 2007, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Af staðgreiðsluyfirliti ársins 2007 má ráða að kærandi hafi ekki þegið laun og verið starfandi á vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfshlutfalli mánuðina mars til og með júní 2007. Skal þessum fjórum mánuðum því sleppt við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda á viðmiðunartímabilinu sbr. 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. Ekki liggur fyrir staðfesting á því að kærandi hafi verið utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli í öðrum mánuðum viðmiðunartímabilsins.

Með hliðsjón af framanrituðu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um greiðslur til A úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta