Mál nr. 4/2008: Úrskurður frá 28. júlí 2008
Ár 2008, mánudaginn 28. júlí, er í Félagsdómi í málinu nr. 4/2008:
Bandalag starfsmanna ríkis og bæja
f.h. Starfsmannafélags Reykjavíkur
og
Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar
í eigin nafni
gegn
Strætó bs.
og
gagnsök
kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 23. þessa mánaðar um frávísunarkröfu stefnda og kröfu stefnenda um frávísun gagnkrafna stefnda, er höfðað 29. júní síðastliðinn.
Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Guðni Á. Haraldsson og Valgeir Pálsson.
Stefnendur eru Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Grettisgötu 89, Reykjavík, f.h. Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, Grettisgötu 89, Reykjavík, og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar í eigin nafni.
Stefndi er Strætó bs., Þönglabakka 4, Reykjavík.
Dómkröfur stefnenda
- Að felld verði úr gildi uppsögn Jóhannesar Gunnarssonar, trúnaðarmanns Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar hjá Strætó bs., úr starfi hjá Strætó bs., sem tilkynnt var með bréfi 23. maí 2008.
- Að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að gegn mótmælum Jóhannesar Gunnarssonar hafi fyrrnefnd uppsögn ekki réttaráhrif og að honum sé óskylt að hlíta uppsögninni.
- Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að Strætó bs. hafi verið óheimilt að segja Jóhannesi Gunnarssyni upp störfum á þeim grunni sem gert var með bréfi til hans 23. maí 2008. Brotið hafi verið gegn gr. 9.9.1 í gildandi kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Strætó bs., 2. og 4. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og 11. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
- Að stefndi verði dæmdur til að greiða sekt í ríkissjóð að fjárhæð 1.000.000 kr. eða lægri fjárhæð samkvæmt ákvörðun Félagsdóms.
- Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum málskostnað.
Dómkröfur stefnda
- Stefndi krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá Félagsdómi og að stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað in solidum að skaðlausu.
- Til vara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda í máli þessu og að stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.
Gagnkröfur stefnda
- Að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar hafi gerst bert að því að brjóta ákvæði laga nr. 80/1938 með því að styðja ólögmætar aðgerðir gegn stefnda á vegum Jóhannesar Gunnarssonar hinn 22. maí 2008.
- Jafnframt verði Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar gert að greiða sekt í ríkissjóð að fjárhæð 1.000.000 kr. vegna brota á framannefndum lögum.
Stefnendur krefjast þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum málskostnað að skaðlausu í þessum þætti málsins. Þá krefjast þeir þess að gagnkröfum stefnda verði vísað frá dómi. Stefndi krefst þess að þeirri kröfu verði hafnað.
I
Í októbermánuði 2007 var Jóhannes Gunnarsson kjörinn 1. fulltrúi 9. starfsdeildar í fulltrúaráði Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og þar með fyrsti trúnaðarmaður félgasins hjá stefnda, Strætó bs. Þriðjudaginn 27. nóvember 2007 var haldinn fulltrúaráðsfundur félagsins að Grettisgötu 89, Reykjavík. Þáði Jóhannes þar, ásamt fleirum, áfengi sem í boði var. Að sögn stefnenda yfirgaf hann fundinn um kl. 17.15 ásamt fjórum samstarfsmönnum sínum og kom hópurinn á starfsstöð stefnda við Hlemm um fimm mínútum síðar. Með bréfi stefnda 29. nóvember 2007 til Jóhannesar, sem bar yfirskriftina „Fyrirhuguð áminning“, var hann sakaður um að hafa verið drukkinn umrætt sinn á fyrrgreindri starfsstöð stefnda og haft þar áfengi um hönd. Segir í bréfinu að hringt hafi verið síðdegis áðurnefndan dag í framkvæmdastjóra stefnda og óskað eftir að yfirmenn fyrirtækisins kæmu á starfsstöð þess á Hlemmtorgi vegna starfsmanna fyrirtækisins sem þar væru staddir drukknir og hefðu áfengi um hönd. Hafi starfsmennirnir komið á starfsstöðina um kl. 17 og verið þar allt þar til rétt áður en framkvæmdastjórinn kom þangað ásamt deildardstjóra akstursdeildar, en það hafi verið skömmu eftir kl. 18.30. Einn þeirra starfsmanna, sem sést hafi drukkinn á starfsstöðinni, ásamt því að hafa haft þar áfengi um hönd, hafi verið umræddur Jóhannes, að sögn að minnsta kosti tveggja vitna. Segir í bréfinu að slík framkoma á starfsstöð fyrirtækis sé með öllu ólíðandi og algerlega ósamrýmanleg starfi Jóhannesar og stöðu. Þar að auki hafi Jóhannes verið á launum hjá fyrirtækinu á umræddum tíma, enda hafi hann átt að vera á vakt frá kl. 6.20 - 10.26 og aftur frá kl. 14.05 til 18.21 og teljist því hafa verið í starfi á umræddum tíma. Með engu móti sé unnt að fallast á að undir félagsstörf, sem ætlast sé til að skerði ekki laun, geti fallið samkvæmi, mannfagnaðir eða önnur slík tilefni, sem sambærileg séu, allra síst ef áfengi er þar haft um hönd, jafnvel þó að svo kunni að vilja til að samkvæmið hafi farið fram í húsakynnum stéttarfélags eða samtaka stéttarfélags. Vegna þessa tilefnis hafi stefndi í hyggju að veita Jóhannesi skriflega áminningu. Var Jóhannesi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og til þess boðaður á fund á skrifstofu framkvæmdastjóra stefnda á tilgreindum tíma 30. nóvember 2007. Í framhaldi af fundinum ákvað Jóhannes, ásamt þremur aðaltrúnaðarmönnum og tveimur varatrúnaðarmönnum, að segja sig frá öllum trúnaðarmannastörfum fyrir Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Er yfirlýsing þeirra þess efnis dagsett 2. desember 2007. Lögmaður Jóhannesar kom á framfæri andmælum við fyrirhugaðri áminningu með bréfi 5. sama mánaðar. Með bréfi stefnda 12. desember 2007 var Jóhannesi veitt skrifleg áminning vegna þess að hann hafi neytt áfengis og verið ölvaður á vinnutíma á starfsstöð stefnda að Hlemmi og að hafa haft áfengi þar um hönd. Með því hafi hann brotið gegn gr. 9.8.1. í kjarasamningi stefnda og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, en brot í starfi á því ákvæði varði skriflegri áminningu. Jóhannes hefur höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn stefnda í máli þessu, sem þingfest var 25. mars síðastliðinn, og krefst þess að áminningin verði felld úr gildi og stefndi dæmdur til greiðslu miskabóta. Í febrúar 2008 drógu umræddir trúnaðarmenn, þar á meðal fyrrgreindur Jóhannes, afsagnir á trúnaðarmannastörfum til baka. Með bréfi stefnda, dagsettu 23. maí 2008, var Jóhannesi sagt upp starfi sínu hjá stefnda. Í bréfinu kemur fram að uppsögnin miðist við næstkomandi mánaðarmót og að hann njóti launa út líðandi mánuð og næstu þrjá almanaksmánuði þar á eftir, það er júní, júlí og ágúst 2008. Þá segir þar að nærveru Jóhannesar sé ekki óskað á eða í starfsstöðvum fyrirtækisins og honum bannað að vera þar nema að því leyti sem starfsstöðvarnar teljist vera fyrir almenning.
II
Stefndi, sem er sóknaraðili í þessum þætti málsins, reisir frávísunarkröfu í fyrsta lagi á því að málið sé vanreifað þar sem stefna fullnægi ekki áskilnaði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. d., e. og f. liði ákvæðisins. Í varakröfu stefnenda (3. tl.) sé blandað saman lagarökum og dómkröfu. Þá sé lýsing málsatvika og málsástæðna í stefnu bæði röng og villandi í verulegum atriðum og algjörlega í andstöðu við e. lið nefnds ákvæðis.
Í öðru lagi byggir stefndi á því að dómkröfur stefnenda samkvæmt 1. - 3. tl. eigi ekki undir dómsvald Félagsdóms. Í stefnu sé hvergi getið til hvaða lagaákvæða eða lagaraka stefnendur vísi til stuðnings dómkröfum sínum. Dómkrafa stefnenda samkvæmt 1. tl. sé að felld verði úr gildi uppsögn Jóhannesar Gunnarssonar, dómkrafa samkvæmt 2. tl. feli í sér viðurkenningarkröfu að mati stefnda, það er að dómurinn viðurkenni að uppsögnin hafi ekki réttaráhrif gagnvart Jóhannesi og honum sjálfum sé óskylt að hlíta henni og dómkrafa samkvæmt 3. tl., varakrafan, að dómurinn viðurkenni að stefnda hafi verið óheimilt að segja Jóhannesi upp á þeim grunni sem gert var. Í stefnu virðist helst byggt á því að reglur stjórnsýsluréttarins, þar með taldar reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eigi við í máli þessu. Hljóti að vera ljóst að úrlausnarefni, sem varða stjórnsýslurétt, heyri ekki undir verkefni Félagsdóms, sbr. 44. gr. laga nr. 80/1938 og/eða 26. gr. laga nr. 94/1986. Dómkrafan samkvæmt 2. tl. lúti að því að dómurinn viðurkenni að uppsögnin hafi ekki réttaráhrif og að Jóhannesi sé ekki skylt að hlíta henni. Fjalli krafan því augljóslega um atriði sem ekki heyri undir skilgreint verkefni dómsins. Uppsögnin sé ákvöð og hafi því réttaráhrif þegar af þeirri ástæðu. Þá feli fyrrgreind dómkrafa stefnenda í raun í sér að að Jóhannes verði dæmdur aftur inn í starf sitt sem sé andstætt meginreglu vinnuréttar. Varakrafa stefnenda sé ekki skýrð á nokkurn hátt og í raun óskiljanleg eins og hún sé reifuð. Byggi hún á sömu málsástæðum og dómkröfur samkvæmt 1. og 2. tl. Gildi því sömu mótbárur og að ofan greinir um að krafan heyri ekki undir skilgreint verksvið Félagsdóms.
Í stefnu sé gengið út frá því að stefnendur reisi kröfur sínar bæði á lögum nr. 80/1938 og lögum nr. 94/1986, en þrátt fyrir þá ætlan stefnenda verði ekki annað séð en að þeir byggi á því að þeir geti valið eftir hentugleikum á hvorum lögunum þeir byggi. Verði því að ætla að stefnendur séu í raun að krefjast þess að Félagsdómur skeri úr um hvor lögin eigi við. Vilji stefnendur, annar eða báðir, gera ágreining um hvor lögin gildi um starfsmenn stefnda geti þeir í öllu falli ekki átt lögvarinn rétt á að krefjast dóms Félagsdóms þar um, enda um lögfræðilegt álitamál að ræða sem ekki geti heyrt undir þröngt verksvið dómsins. Skipti þá raunar engu hvort litið sé til laga nr. 80/1938 eða laga nr. 94/1986, en tekið skuli fram að stefndi hafni því að ágreiningsefni máls þessa eigi eða geti átt undir lög nr. 94/1986. Jafnframt hafni stefndi þeirri málsástæðu stefnenda að um sé að ræða ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans og geti því 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, hvað sem öðru líður, aldrei átt við um sakarefnið, jafnvel þó svo færi að dómurinn teldi að lög nr. 94/1986 ættu við um starfsmenn stefndu, en ekki lög nr. 80/1938, eins og skýrlega greini í lögum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Þá verði heldur ekki séð að stefnendum sé heimilt að vísa til þess að málið sé risið vegna ágreinings um skýringu á 9. gr. kjarasamnings aðila, einkum gr. 9.9.1.
Í þriðja lagi sé á því byggt að vísa beri málinu frá vegna aðildarskorts. Í lögum nr. 80/1938 sé ekki tekið á því hvað gera skuli þegar aðild að máli er ekki með þeim hætti sem lögin mæla fyrir um. Þess séu þó dæmi að Félagsdómur hafi vísað máli frá dóminum vegna þess aðili hafi verið meðlimur í samtökum atvinnurekenda/verkalýðsfélaga, en slík samtök geti ekki verið aðili máls, heldur einstaklingur/fyrirtæki og því sé skilmálum 44. gr. laganna um aðild ekki fylgt.
Í fjórða lagi byggist frávísunarkrafa á sjónarmiðum um litispendens áhrif. Samkvæmt 4. mgr. 94. gr. einkamálalaganna verði, eftir að mál er þingfest, ekki krafist dóms í síðara máli um þær kröfur sem hafðar eru uppi í fyrra málinu. Svo sem fyrr greini hafi Jóhannes Gunnarsson, áður en þetta mál var höfðað, höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stefnda til ógildingar fyrrgreindri áminningu og greiðslu miskabóta þar sem byggt sé í mörgum atriðum á sömu málsástæðum og lagarökum og um ræðir í máli þessu.
Í fimmta og síðasta lagi byggir stefndi á því að vísa beri málinu frá samkvæmt 25. gr. laga nr. 91/1991 þar sem stefnendur séu að sækjast eftir úrlausn Félagsdóms um lögfræðilegt álitaefni um atriði sem þeira eigi ekki lögvarða hagsmuni af að fá úrlausn á.
Að lokum mótmælir stefndi kröfu stefnenda um frávísun gagnkrafna hans þegar af þeirri ástæðu að sérstaka heimild til slíkrar kröfugerðar sé að finna í 53. gr. laga nr. 80/1938.
III
Stefnendur, varnaraðilar í þessum þætti málsins, reisa mótmæli sín við að frávísunarkrafa stefnda nái fram að ganga á því að dómkröfur stefnenda séu skýrar og á því byggðar að umrædd fyrirvaralaus uppsögn Jóhannesar Gunnarssonar sem trúnaðarmanns hafi ekki verið rökstudd. Kjör trúnaðarmanns varði ekki einungis hagsmuni viðkomandi trúnaðarmanns heldur allra félagsmanna stéttarfélags þess sem hann er í forsvari fyrir á vinnustað. Þá sé ekkert fjallað um það í lögum nr. 80/1938 og lögum nr. 94/1986 hvaða kröfur sé hægt að gera fyrir Félagsdómi. Málavaxtalýsing í stefnu sé mjög skýr sem og tilvísun til lagaraka. Samkvæmt 27. gr. laga nr. 94/1986 geti stéttarfélag rekið mál félagsmanna sinna fyrir Félagsdómi og samsvarandi reglu sé að finna í 45. gr. laga nr. 80/1938. Þá séu ekki sömu kröfur hafðar uppi í þessu máli og máli því er rekið sé fyrir héraðsdómi út af áminningu þeirri sem Jóhannes Gunnarsson hafi fengið og áður er getið. Um gagnkröfu stefnda sé það að segja að hún sé algerlega tilefnislaus og virðist byggja á þögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja út af þeim ætluðu ólögmætu aðgerðum sem stefndi vísi til. Vegna þessarar kröfugerðar beri að ákveða stefnendum málskostnað með vísan til ákvæða 131. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Sakarefnið í máli þessu varðar gildi uppsagnar Jóhannesar Gunnarssonar, félagsmanns stefnanda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, úr starfi hjá stefnda, Strætó bs., sbr. uppsagnarbréf stefnda, dagsett 23. maí 2008. Er á því byggt af hálfu stefnenda að fyrrgreindur Jóhannes hafi verið trúnaðarmaður stéttarfélagsins þegar honum var sagt upp starfi. Aðalkröfur stefnenda, sem eru Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fyrir hönd Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og stéttarfélagið sjálft í eigin nafni, eru þess efnis að umrædd uppsögn verði felld úr gildi og að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms „að gegn mótmælum Jóhannesar Gunnarssonar hafi fyrrnefnd uppsögn ekki réttaráhrif og að honum sé óskylt að hlíta uppsögninni“. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að stefnda „hafi verið óheimilt að segja Jóhannesi Gunnarssyni upp störfum á þeim grunni, sem gert var með bréfi til hans 23. maí 2008“. Er í því sambandi vísað til gr. 9.9.1 í gildandi kjarasamningi aðila sem undirritaður var 9. janúar 2006, 2. og 4. mgr. 30. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna og 11. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Eins og þarna kemur fram er af hálfu stefnenda jöfnum höndum á því byggt að sakarefnið eigi undir lög nr. 94/1986 og lög nr. 80/1938. Þá gera stefnendur kröfu um að stefnda verði ákvörðuð sekt, auk þess sem krafist er að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Með því að stefnendur byggja jöfnum höndum á báðum framangreindum lögum setja þeir Félagsdóm í þá sérstöku aðstöðu að þurfa að skera fyrst úr því hvor framangreindra lagabálka eigi við um sakarefni máls þessa.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1986 gilda lögin um alla starfsmenn sem eru félagar í stéttarfélögum er samkvæmt 4. og 5. gr. laganna hafa rétt til að gera kjarasamninga samkvæmt þeim og eru ráðnir hjá ríkinu, ríkisstofnunum, sveitarfélögum eða stofnunum þeirra með föstum tíma-, viku- eða mánaðarlaunum, enda verði starf þeirra talið aðalstarf. Í 1. mgr. 4. gr. laganna segir að stéttarfélög starfsmanna ríkis og sveitarfélaga eða samtök slíkra félaga fari með fyrirsvar félagsmanna sinna um gerð kjarasamninga samkvæmt lögunum og aðrar ákvarðanir í sambandi við þá. Nánar er fjallað um samningsrétt í 2. mgr. lagagreinarinnar. Ljóst er að stefnandi, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, fellur undir 4. gr. laga nr. 94/1986. Stefndi, Strætó bs., er byggðasamlag sjö sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem starfrækt er í þeim tilgangi „að sinna almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu í umboði eigenda sinna“, sbr. stofnsamning, dagsettan 7. maí 2001. Um byggðasamlög er mælt fyrir í VIII. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Að virtum lagagrundvelli og eðli byggðasamlaga verður að telja að þau séu stofnun sveitarfélaga í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1986. Enn fremur þykir bera að skýra 3. gr. laga nr. 94/1986 svo að byggðasamlög geti talist samningsaðilar samkvæmt lögunum, eins og hlutverki þeirra og skipulagi er háttað að lögum. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, verður að telja að um mál þetta gildi alfarið lög nr. 94/1986, en samkvæmt upphafsákvæði 26. gr. laganna dæmir Félagsdómur í málum sem rísa milli samningsaðila um þau atriði er þar greinir.
Í IV. kafla laga nr. 94/1986 er fjallað um verkefni og valdsvið Félagsdóms samkvæmt lögunum. Tekið er fram í 1. mgr. 26. gr. laganna að Félagsdómur dæmi í málum sem rísa á milli samningsaðila, í fyrsta lagi um samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hvaða starfsmanna samningsaðild þeirra nái, í öðru lagi um lögmæti boðaðra eða þegar hafinna vinnustöðvana, í þriðja lagi um ágreining um skilning á kjarasamningi, í fjórða lagi hverjir falli undir 5. - 8. tl. 19. gr. laganna og í fimmta lagi um önnur atriði sem aðilar hafa samið um að leggja fyrir dóminn, enda séu að minnsta kosti þrír af dómendum því meðmæltir. Auk þess dæmir Félagsdómur um ágreining um félagsaðild þeirra sem heyra undir lögin, sbr. 2. mgr. 26. gr. Enn fremur er á valdsviði Félagsdóms að dæma í máli varðandi atriði, sem tilgreind eru í 1. mgr. 26. gr., sem ágreiningur er um milli fjármálaráðherra eða sveitarfélags annars vegar og hins vegar einstakra starfsmanna eða starfshópa svo sem nánar greinir, enda sé um það samkomulag milli aðila og að minnsta kosti þrír af dómendum Félagsdóms séu því meðmæltir, sbr. 3. mgr. 26. gr. Telja verður að verkefni Félagsdóms samkvæmt lögum nr. 94/1986 séu tæmandi talin í 26. gr. laganna. Valdsvið dómsins, sem er sérdómstóll, ber að túlka þröngt.
Áður en vikið verður að því hvort sakarefnið falli efnislega undir valdsvið Félagsdóms þarf að huga að aðild málsins. Í 4. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986 er mælt svo fyrir að stéttarfélög reki mál sín og félagsmanna sinna fyrir Félagsdómi. Samkvæmt því og þar sem mál þetta lýtur alfarið lögum nr. 94/1986, eins og fyrr greinir, verður að telja að stefnandi, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, sé réttur aðili málsins. Samkvæmt þessu er málsóknarrétti Bandalags starfsmanna ríkis og bæja ekki til að dreifa og geta samtökin því ekki talist „actor competens“. Ber því að vísa málinu frá að því er varðar aðild Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.
Víkur þá að því hvort kröfur stefnanda, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, eins og þær eru fram settar, eigi efnislega undir valdsvið Félagsdóms svo sem það er afmarkað í 26. gr. laga nr. 94/1986. Ljóst er af ákvæðinu að aðalkröfur stefnanda, eins og þær eru úr garði gerðar, falla utan valdsviðs dómsins og ber því þegar af þeim sökum að vísa þeim frá Félagsdómi. Varakrafa stefnanda tekur til þess að óheimilt hafi verið að segja umræddum starfsmanni stefnanda upp starfi og að þar með hafi uppsögnin verið brot á tilgreindum ákvæðum gildandi kjarasamnings og ákvæðum 2. og 4. mgr. laga nr. 94/1986. Eins og áður segir er dómsvald réttarins skilgreint í 26. gr. nefndra laga. Heyrir það því ekki undir valdsvið réttarins samkvæmt lögunum að dæma um hvort uppsögn starfsmanns, þar á meðal trúnaðarmanns, teljist vera brot á kjarasamningi eða ákvæðum laganna. Þá bera gögn málsins ekki með sér að ágreiningur, sem krefjist úrlausnar dómsins, hafi risið milli aðila um túlkun á gr. 9.9.1 í fyrrgreindum kjarasamningi milli þeirra.
Af framangreindri niðurstöðu leiðir sjálfkrafa að kröfu stefnenda um að stefnda verði gerð sekt er vísað frá Félagsdómi. Á sama hátt er varakröfu stefnanda vísað frá dómi. Gagnkrafa stefnda er bundin því því að kröfur stefnenda verði teknar til efnismeðferar. Þar sem það skilyrði er ekki uppfyllt ber að vísa þeim kröfum sjálfkrafa frá dómi. Er máli þessu því vísað í heild frá Félagsdómi.
Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnendur til að greiða stefnda sameiginlega 300.000 krónur í málskostnað.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.
Stefnendur, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja f.h. Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar í eigin nafni, greiði stefnda, Strætó bs., sameiginlega 300.000 krónur í málskostnað.
Helgi I. Jónsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Guðni Á. Haraldsson
Valgeir Pálsson