Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Lægri grunnútgjöld og bætt forgangsröðun með nýju verklagi um endurmat útgjalda

Lægri grunnútgjöld, bætt forgangsröðun og gleggri yfirsýn yfir verkefni hins opinbera eru markmiðin með nýju verklagi um reglulegt endurmat útgjalda sem nú er verið að innleiða. Fjármála- og efnahagsráðuneytið stendur að verkefninu í samvinnu við fagráðuneyti. Á þessu ári eru tvö verkefni í vinnslu og snýr annað að endurskipulagningu á starfsemi sýslumannsembætta á landsvísu en hitt að fyrirkomulagi á ríkisstyrkjum til framleiðslu á kvikmyndum og sjónvarpsefni.

Boðað var í fjárlagafrumvarpi ársins 2019 að innleiða ætti hið nýja verklag og um það er fjallað í fjármálaáætlun 2020-2024. Mikilvægt er að skipulag starfsemi ríkisins sé með þeim hætti að hægt sé að bregðast við nýjum aðstæðum og að stuðlað sé að bættri nýtingu fjármuna.

Tveimur verkefnum lokið á árinu

Gert er ráð fyrir að niðurstöður þeirra tveggja verkefna sem hafin eru liggi fyrir síðar á þessu ári. Í verkefninu sem snýr að endurskipulagningu á starfsemi sýslumannsembætta er markmiðið að laga hallarekstur embættanna og stuðla að bættri þjónustu við notendur með því að nýta rafræn samskipti hjá embættunum. Í verkefninu sem snýr að umgjörð um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar er verið að skoða hversu skilvirkt endurgreiðslukerfið er m.t.t. skilgreindra markmiða sem fram koma í lögum nr. 43/1999 um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi og hvort endurskoða þurfi kerfið með hliðsjón af þeim árangri sem náðst hefur.

Bæði verkefnin eru unnin í nánu samstarfi annars vegar dómsmálaráðuneytis og hins vegar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis og eiga þau að skila hagræðingu og bættri nýtingu fjármuna á þessum sviðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta