Hoppa yfir valmynd
25. maí 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 102/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 102/2018

Föstudaginn 25. maí 2018

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 13. mars 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 13. september 2017 um að staðfesta útreikning leiðréttingar á sérstökum húsnæðisstuðningi.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddan sérstakan húsnæðisstuðning frá Reykjavíkurborg á árinu 2017 eftir gildistöku reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning en þá féllu úr gildi ákvæði um sérstakar húsaleigubætur í reglum um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur. Um mitt ár 2017 voru gerðar breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, meðal annars á tekjumörkum og hámarksfjárhæð sérstaks húsnæðisstuðnings, en við þær breytingar fékk kærandi hærri greiðslur. Kærandi fór fram á endurskoðun vegna leiðréttingar á útreikningi á sérstökum húsnæðisstuðningi þar sem greiðslur til hennar á árinu 2017 voru lægri en greiðslur sérstakra húsaleigubóta. Beiðni kæranda var tekin fyrir á fundi velferðarráðs 13. september 2017 þar sem staðfest var niðurstaða þjónustumiðstöðvar um útreikning leiðréttingar á sérstökum húsnæðisstuðningi í samræmi við 4. og 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 29. september 2017.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 13. mars 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. mars 2018, var kæranda tilkynnt um að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Skýringar bárust frá kæranda þann 22. og 23. mars 2018.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi óskað eftir endurskoðun á útreikningi sérstaks húsnæðisstuðnings í ágúst/september 2017 þar sem húsaleiga hjá Félagsbústöðum hafi verið orðin of dýr. Sérstakur húsnæðisstuðningur frá Reykjavíkurborg hafi lækkað í febrúar 2017 og aftur í maí/júní 2017 á sama tíma og leigan hafi hækkað. Kærandi vísar til þess að samkvæmt 2. mgr. 18. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning sé heimilt að veita undanþágu frá reglunum ef sérstakar málefnalegar ástæður liggi fyrir. Það sé alveg ljóst að heimild til að veita undanþágu frá reglunum hafi aldrei verið tekin til greina í öllum þeim umsóknum sem hún hafi lagt fram frá því að ný lög hafi tekið gildi. Einnig sé ljóst að heildstætt mat á hennar högum hafi ekki verið framkvæmt, enda hafi hún aldrei verið boðuð í viðtal vegna nýrra laga eins og staðið hafi til. Þá hafi hún óskað nokkrum sinnum eftir viðtali vegna nýrra reglna en án árangurs.

Kærandi vísar til þess að í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga komi fram að grípa skuli til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál. Öll afgreiðsla Reykjavíkurborgar varðandi þá húsaleigu sem hún þurfi að greiða, öll vinnubrögð og allar niðurstöður hafi verið í andstöðu við það og beinlínis valdið henni miklum félagslegum vanda. Þá hafi tölvupóstum hennar ekki verið svarað.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 13. september 2017 um að staðfesta útreikning leiðréttingar á sérstökum húsnæðisstuðningi. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 29. september 2017.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 29. september 2017, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála 13. mars 2018. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 29. september 2017 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Í skýringum kæranda vegna kærufrestsins er meðal annars vísað til slæms heilsufars hennar og lélegra vinnubragða velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru þær ástæður sem kærandi hefur lagt fram vegna kærufrestsins ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta