Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 288/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 288/2024

Fimmtudaginn 22. ágúst 2024

A

gegn

Fjarðabyggð

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. júní 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Fjarðabyggðar, dags. 9. ágúst 2023, 22. september 2023 og 28. september 2023, vegna umsókna hans um fjárhagsaðstoð og húsbúnaðarstyrk.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, móttekinni 6. september 2023, sótti kærandi um styrk vegna húsbúnaðar á grundvelli 20. gr. reglna Fjarðabyggðar um fjárhagsaðstoð. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar, dags. 22. september 2023. Með ákvörðun Fjarðabyggðar, dags. 9. ágúst 2023, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir júlí 2023 hefði verið samþykkt. Þá var kæranda tilkynnt með ákvörðun Fjarðabyggðar, dags. 28. september 2023, að umsókn hans um fjárhagsaðstoð fyrir september 2023 hefði verið samþykkt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. júní 2024. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. júní 2024, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Svar barst ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. júlí 2024, var óskað eftir gögnum frá Fjarðabyggð vegna kærunnar. Umbeðin gögn bárust 15. júlí 2024 og voru þau kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. júlí 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að um sé að ræða nokkrar kærur. Í fyrsta lagi hafi kærandi þann 27. júní 2023 fengið neitun á framfærslu fyrir júlímánuð en hann hafi þá verið tekjulaus sökum bílslyss. Í júní hafi kærandi tekið út orlof og fengið neitun á framfærslu fyrir júlí. Kærandi hafi því verið tekjulaus þann mánuð. Í september hafi kærandi flutt til Reykjavíkur en hafi verið með lögheimili í Fjarðabyggð og sótt um húsbúnaðarstyrk. Kæranda hafi verið neitað um styrkinn þrátt fyrir að vera með gildan leigusamning. Jafnframt hafi sveitarfélagið skorið fjárhagsaðstoð fyrir septembermánuð niður um helming. Kærandi krefjist þess að Fjarðabyggð borgi sér það sem um ræði.

III.  Sjónarmið Fjarðabyggðar

Í svari Fjarðabyggðar, dags. 15. júlí 2024, kemur fram að kærandi hafi haldið heimili fyrir austan áður en hann hafi flutt á höfuðborgarsvæðið. Kærandi hafi því ekki verið að stofna heimili í fyrsta sinn né hafi hann verið að stofna heimili eftir virka endurhæfingu, dvöl á stofnun eða afplánun dóms. Kærandi hafi því ekki fallið undir 20. grein reglna Fjarðabyggðar um fjárhagsaðstoð (húsbúnaðarstyrk) og því hafi umsókninni verið hafnað. Varðandi ákvarðanir um fjárhagsaðstoð frá 9. ágúst 2023 og 28. september 2023 þá hafi þær umsóknir báðar verið samþykktar og full fjárhagsaðstoð greidd í bæði skiptin.

Fjarðabyggð bendi á að samkvæmt reglum þess um fjárhagsaðstoð og svarbréfum vegna umsókna þeirra sem vísað sé til og send hafi verið kæranda komi fram að kæra megi ákvörðun innan þriggja mánaða frá ákvörðun. Nú séu liðnir 10 mánuðir frá ákvörðunum og litið sé svo á að frestur sé liðinn.

IV.  Niðurstaða

Kærðar eru ákvarðanir Fjarðabyggðar, dags. 9. ágúst 2023, 22. september 2023 og 28. september 2023, vegna umsókna kæranda um fjárhagsaðstoð og húsbúnaðarstyrk.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 24. júní 2024 vegna framangreindra ákvarðana Fjarðabyggðar. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að kæranda var í ákvörðun frá 22. september 2023 leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Þá liggur fyrir að með ákvörðunum Fjarðabyggðar, dags. 9. ágúst 2023 og 28. september 2023 var samþykkt að veita kæranda fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2023 og september 2023. Kæranda var veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í málinu. Svar barst ekki.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta