Áhersla verði aukin á norðurslóðamál í starfi Norðlægu víddarinnar
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lagði áherslu á það í ræðu sinni á fundi Norðlægu víddarinnar í Brussel, að Norðurslóðamálin fengju aukna vigt í samstarfinu. Hann sagði norðurslóðir væru sífellt að komast í meira alþjóðlegt sviðsljós og að það yrði að endurspeglast í starfi Norðlægu víddarinnar.
Norðlæga víddin er samstarfsvettvangur Íslands, Rússlands, Noregs og Evrópusambandsins sem fundar annað hvert ár á ráðherrastigi. Fjölmargir utanríkisráðherrar sambandsins tóku þátt í fundinum.
Utanríkisráðherra sagði að áhersla á umhverfismál og mengunarvarnir, lýðheilsu, menningu og siglingar, sem væru viðfangsefni Norðlægu víddarinnar ætti vel við á norðurslóðum og hægt væri að leggja meiri þunga á norðurslóðir án þess að fara inn á starfsvið Norðurskautsráðsins. Hann hvatti til þess að starf Norrænu víddarinnar að norðurslóðamálum, svokallaðaður Arctic Window, yrði eitt af helstu áherslumálum samstarfsins ásamt verkefnum við Eystrasalt og í norð-vestur Rússlandi. Undir þetta tóku síðan margir aðrir fundarmenn.
Össur sagði að fyrir þrjú aðildarríki Norðlægu víddarinnar, Ísland, Noreg og Rússland, myndi framtíðarauður þeirra að miklu leyti koma frá norðurslóðum, gegnum aukin umsvif, olíuvinnslu og siglingar. Össur sagðist tala sem fulltrúi vestursins í norðlægu víddinni og vísaði þar með til aukins áhuga margra á samstarfi við Ísland og Grænland í norðurslóðamálum.
Sameiginleg yfirlýsing aðildarríkja Norðlægu víddarinnar (á ensku)