Sýslumannafélagið fundaði með fulltrúum innanríkisráðuneytis
Sýslumannafélag Íslands hélt í dag félagsfund í innanríkisráðuneytinu og sátu hann allir sýslumenn og fulltrúar nokkurra fleiri aðila. Umfjöllunarefni fundarins voru skipulagsmál embættanna, fjármál og ýmislegt er varðandi samstarf þeirra.
Bjarni Stefánsson, sýslumaður á Norðurlandi vestra og formaður félagsins, setti fundinn en auk þess sem rætt var um fjármál embættanna var fjallað um skipulagsmál í ljósi reynslunnar sem fengist hefur við fækkun og sameiningu embætta. Umdæmamörkum sýslumannsembætta landsins var breytt í byrjun árs 2015 og þeim fækkað úr 24 í 9 og átti sú endurskipulagning sér langan aðdraganda.
Á fundinum í dag var einnig rætt um margvísleg sameiginleg verkefni sem framundan eru. Var meðal annars fjallað um nýtt skipulag á sáttameðferð og sérfræðiráðgjöf varðandi forsjármálefni barna sem sýslumannsembættin annast, sjá nánar í frétt ráðuneytisins. Þá var rætt um rafrænar þinglýsingar sem verið hafa til skoðunar um tíma og fleira.
Á myndinni eru sýslumenn landsins, frá vinstri: Bjarni Stefánsson, Jónas Guðmundsson, Svavar Pálsson, Lára Huld Guðjónsdóttir, Lárus Bjarnason, Ólafur K. Ólafsson, Ásdís Ármannsdóttir, Þórólfur Halldórsson og Anna Birna Þráinsdóttir.