Hoppa yfir valmynd
14. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Átaksverkefni um 60 störf og starfstengd vinnumarkaðsúrræði á Akureyri

Velferðarráðherra og bæjarstjóri Akureyrar undirrita samkomulagið
Velferðarráðherra og bæjarstjóri Akureyrar undirrita samkomulagið

Akureyrarbær leggur til 19 störf fyrir langtímaatvinnuleitendur samkvæmt samkomulagi um átaksverkefnið; Vinna og virkni – átak til atvinnu 2013, sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri undirrituðu í Hofi í gær. Alls verða til 60 starfstengd úrræði fyrir atvinnuleitendur í bænum í tengslum við átakið.

Velferðarráðherra sagði við undirritun samkomulagsins að með verkefninu Vinna og virkni væri fjölda fólks sköpuð gríðarlega mikilvæg tækifæri til að vera aftur virkir þátttakendur í samfélaginu. Átakið byggðist á því að algjör eining hefði verið meðal aðstandenda þess um mikilvægi verkefnisins og samstaða um að hrinda því í framkvæmd.

Verkefnið á Akureyri byggist á sömu forsendum og kynntar voru við undskrift samkomulags velferðarráðherra og Reykjavíkurborgar í vikunni og sameiginlegrar viljayfirlýsingar þeirra sem standa að átakinu sem tryggja á 3.700 atvinnuleitendum boð um starfstengd vinnumarkaðsúrræði á næsta ári. 

Átakið miðar að því að öllum atvinnuleitendum, sem hafa fullnýtt eða munu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tímabilinu 1. september síðastliðnum til loka næsta árs, verði boðin vinna eða starfsendurhæfing árið 2013. Almenni vinnumarkaðurinn mun leggja til stærstan hlut þeirra starfa sem átakið felur í sér, eða 60%, sveitarfélögin 30% og ríkið 10%. Atvinnuleysistryggingasjóðour leggur 1,7 milljarð króna til verkefnisins sem nýtist að mestu sem mótframlag til launa í sex mánuði fyrir þau störf sem til verða með átaksverkefninu en hluta fjárins verður varið til einstaklinga sem þurfa á atvinnutengdri endurhæfingu að halda.

Samkomulagið sem undirritað var á Akureyri snýr að framkvæmd átaksverkefnisins í bæjarfélaginu. Þar er meðal annars kveðið á um ráðgjöf til atvinnuleitenda en gert er ráð fyrir að þeir haldi áfram virkri atvinnuleit og sæki ráðgjöf hjá Vinnumálastofnun og Starfi; vinnumiðlun og ráðgjöf, meðan á þátttöku þeirra stendur í vinnumarkaðsúrræðum átaksverkefnisins.

Akureyrarbær mun kynna atvinnuleitendum sem falla undir samkomulagið þátttöku ríkisins og almenna vinnumarkaðarins í átakinu auk þess að kynna atvinnurekendum í sveitarfélaginu tækifærin sem felast í þessu úrræði. Sérstaklega skulu kynntir kostir þess fyrir atvinnuleitendur að leita sjálfir að störfum sem fallið geta undir átakið ásamt möguleikum atvinnurekenda til nýráðninga innan verkefnisins.

Ein af forsendum samkomulagsins er að samstarf um þjónustu við ungt fólk á aldrinum 16-25 ára sem nýtur fjárhagsaðstoðar hjá félagsþjónustu sveitarfélaga verði efld og að opnað verði fyrir aðkomu fleiri sveitarfélaga að Atvinnutorgum árið 2013.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta