Utanríkisráðherra ávarpar útskriftarnema
Utanríkisráðherra hélt á föstudag ávarp í tilefni af útskrift nemenda frá Alþjóðlega jafnréttisskólanum. Skólinn var settur á fót árið 2009 sem tilraunaverkefni ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að verða hluti af neti skóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Síðan hann hóf störf hefur skólinn útskrifað 21 nemanda frá fjórum löndum, Afganistan, Palestínu, Úganda og Mósambík. Í ár útskrifuðust sex nemendur úr skólanum. Ráðherra óskaði nemendunum til hamingju með áfangann og vonaðist til að nám þeirra hér á landi muni nýtast til að stuðla að auknu jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna í þeirra heimalöndum.
Samkvæmt þingsályktun um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011-2014 sem samþykkt var á Alþingi í júní 2011 er jafnrétti bæði þverlægt og sértækt áherslumál í stefnu Íslands um alþjóðlega þróunarsamvinnu. Jafnrétti er grundvallar mannréttindi og jafnframt forsenda fyrir þróun, hagsæld og félagslegri sátt í þróunarlöndum sem og efnaðri ríkjum heims. Alþjóðlegi jafnréttisskólinn, sem málsvari jafnréttis, skipar því mikilvægan sess í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.