Hoppa yfir valmynd
19. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 71/2014

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 19. maí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 71/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 18. júní 2014, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A, að hún greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Fram kom í bréfinu að skuldin væri tilkomin vegna þess að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 8. apríl 2013 til 30. apríl 2013, sem yrðu innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Á þeim tíma hafi hún ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hún hafi fengið skráninguna: Ekki atvinnulaus. Skuldin næmi 126.502 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 18.975 kr. eða samtals 145.477 kr. Við meðferð málsins var ákveðið að fella álagið niður þar sem um mistök Vinnumálastofnunar var að ræða. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 15. ágúst 2014. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 1. febrúar 2013 og var skráð atvinnulaus til 7. apríl 2013.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að kærandi hafi óskað eftir því að fá skattkort sitt sent 21. apríl 2013, ásamt því að hún hafi tilkynnt um starf frá 9. apríl 2013. Vinnumálastofnun hafi láðst að afskrá kæranda af atvinnuleysisskrá í samræmi við framangreint. Kærandi hafi aftur haft samband 2. maí 2013 og tilkynnt um atvinnu frá 8. apríl 2013. Þar sem kærandi hafi ekki verið skráð af atvinnuleysisskrá fyrr en eftir mánaðamótin apríl/maí 2013 hafi hún fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir aprílmánuð 2. maí 2013 inn á launareikning sinn, eða 163.708 kr. Ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 8. apríl til 30. apríl 2013 hafi því alls verið 126.502 kr. samkvæmt greiðsluseðli frá 2. júní 2013 og tilkynningu á „Mínum síðum“ frá 31. maí 2013.

Kæranda hafi verið sent innheimtubréf 18. júní 2014 vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 8. apríl til 30. apríl 2013 ásamt 15% álagi samtals 145.477 kr. Hafi verið skorað á kæranda að greiða skuld sína innan 90 daga. Tekið hafi verið fram í bréfinu að væri skuld ekki að fullu greidd innan þriggja mánaða yrði málið sent Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi til frekari innheimtu. Fyrirspurn kæranda frá 20. júní 2014 um skuldina hafi verið svarað 25. júní 2014. Hafi þá verið tekið tillit til þess að mistök hefðu verið gerð hjá Vinnumálastofnun og 15% álag fellt niður í samræmi við 3. málsl. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistrygginga og næmi skuld kæranda því 126.502 kr.

Kærandi krefst þess að krafan verði felld niður. Um sé að ræða ofgreiðslu á framfærslufé, sem viðurkennt sé að fram hafi farið fyrir mistök Vinnumálastofnunar. Ekkert bendi til þess að kærandi hafi verið í vondri trú við móttöku greiðslunnar, þvert á móti sjáist af samskiptasögu að hún hefði að fyrra bragði haft samskipti við Vinnumálastofnun í kjölfarið og sé þar ekkert minnst á endurkröfu. Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að tryggðum beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ekki sé þar minnst á tímamörk en af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sé þó alveg ljóst að tímamörk hljóti að vera fyrir hendi. Sé þá haft í huga hversu íþyngjandi ákvörðun um endurkröfu framfærslufjár sé fyrir bótaþega. Í ljósi þess að í þessu máli sé um að ræða framfærslufé einstaklings sem taki við greiðslu í góðri trú, greiðslan hafi farið fram vegna mistaka Vinnumálastofnunar og meira en ár hafi liðið þar til endurkrafa hafi verið höfð uppi, sé byggt á því að krafan sé nú niður fallin vegna tómlætis.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 20. ágúst 2014, kemur fram að eftirstöðvar skuldar kæranda nemi nú 126.502 kr. Sé krafa Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu kæranda á ofgreiddum atvinnuleysisbótum byggð á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess sem orðið hafi að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi m.ö.o. ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Bendi Vinnumálastofnun á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 49/2010 þar sem meðal annars komi fram að engin rök séu til þess að fella niður skyldu kæranda til að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna þess að viðurkennt sé af hálfu Vinnumálastofnunar að ástæða þess sé mistök stofnunarinnar.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. september 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 15. september 2014. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 36. gr., sbr. 39. gr., laga um atvinnuleysistryggingar vegna tímabilsins 8. apríl til 30. apríl 2013 að fjárhæð 126.502 kr. Skuld kæranda á rætur sínar að rekja til þess að hún hafði þegið atvinnuleysisbætur en tilkynnti síðan um starf frá 9. apríl 2013. Fyrir mistök Vinnumálastofnunar fékk hún eigi að síður greiddar atvinnuleysisbætur frá 8. apríl til 30. apríl 2013. Af þessum sökum myndaðist skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar og fékk kærandi ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 126.502 kr.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistrygginga segir að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt framangreindri 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að endurgreiða höfuðstól skuldar sinnar við Vinnumálastofnun að fjárhæð 126.502 kr. Vinnumálastofnun hafði fallist á að fella niður 15% álagið á skuld kæranda og lýtur mál þetta ekki að þeim þætti.

  

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, samkvæmt innheimtubréfi frá 18. júní 2014, þess efnis að hún endurgreiði stofnuninni höfuðstól skuldar að fjárhæð 126.502 kr. er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Laufey Jóhannsdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta