Mál nr. 72/2014
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 19. maí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 72/2014.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. júlí 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 3. júlí 2014 fjallað um höfnun hans á atvinnutilboði/atvinnuviðtali hjá B 5. júní 2014. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með 3. júlí 2014 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Var ákvörðunin tekin á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, 2. september 2014, og krafðist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 3. júní 2013. Haft var samband við kæranda vegna starfs hjá B en síðan bárust Vinnumálastofnun upplýsingar frá B um að kærandi hafi ekki verið tilbúinn að taka starfi þar. Vinnumálastofnun óskaði skriflegra skýringa á þessu hjá kæranda með bréfi, dags. 12. júní 2014, og í svari hans, 18. júní 2014, kemur fram að hann hafi ekki litið svo á að um atvinnutilboð væri að ræða heldur einungis kynningu á starfi í gegnum síma. Hann hafi heldur ekki verið boðaður í atvinnuviðtal. Hann hafi ekki hafnað starfi heldur gert atvinnuleitanda grein fyrir því að sökum þess að aðeins væri um sumarstarf að ræða og launin væru lág, myndi hann taka betra starfi ef það byðist. Vinnumálastofnun taldi skýringar kæranda ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og tilkynnti honum það með bréfi, dags. 4. júlí 2014, en málið hafði verið tekið fyrir á fundi stofnunarinnar 3. júlí 2014.
Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, dags. 2. september 2014, að það sé ekki rétt að hann hafi hafnað starfsviðtali eða atvinnu, hann hafi fengið símtal frá B þar sem talað hafi verið um vinnu í tvo til þrjá mánuði. Kærandi hafi fengið uppgefin heildarlaun 250.000 kr. eða hámark 270.000 kr. sem hann hafi talið of lágt. Kærandi hafi tjáð B hreinskilnislega að ef hann tæki starfinu og honum byðist eitthvað betra myndi hann hætta og taka því starfi. B hafi ekki virst hugnast það og hafi tekið þá ákvörðun að þetta næði þá ekki lengra og slitið samtalinu. Kærandi kveðst ekki kalla þetta atvinnuviðtal, um hafi verið að ræða kynningarsímtal en ekki atvinnuviðtal að mati kæranda.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. september 2014, kemur fram að mál þetta varði 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en 1. mgr. lagagreinarinnar eigi jafnt við um þann sem hafni starfi sem og þann sem hafni því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum bjóðist eða sinni ekki atvinnuviðtali. Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysisbóta sé að hann sé virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Sé þar tekið fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi sé boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa en hann reynist ekki reiðubúinn til að ganga í þau störf líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því sem orðið hafi að lögum um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.
Vinnumálastofnun líti svo á að framferði kæranda í samskiptum sínum við B hafi leitt til þess að honum hafi ekki staðið til boða starf þar. Ríkar kröfur séu gerðar til atvinnuleitanda að þeir taki þeim störfum sem þeim kunni að bjóðast, enda eigi ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Beri að líta til þess að kærandi hafi ekki verið með annað starf í hendi á umræddum tíma.
Hátterni kæranda hafi augljóslega ekki verið til þess fallið að honum yrði boðið starf hjá fyrirtækinu. Þau svör kæranda að hann myndi segja upp störfum um leið og hann fengið boð um annað starf séu augljóslega ekki vænleg til árangurs ef ætlunin væri að fá vinnu í stað þess að þiggja atvinnuleysisbætur. Eins og sérstaklega sé áréttað í athugasemdum með 57. gr. frumvarps því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar séu atvinnuviðtöl venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf. Sé ótækt að fallist sé á að atvinnuleitendur geti komist hjá lögbundnum viðurlögum með því að haga framkomu sinni með því markmiði að vera ekki ráðnir til starfa. Þeir sem hafni því að fara í atvinnuviðtal eða sinni ekki atvinnuviðtali séu jafnt settir og þeir sem sjái til þess að engum hugkvæmist að ráða þá til starfa, a.m.k. hvað atvinnumöguleika hjá umræddum atvinnurekanda varðar. Möguleikar þeirra til að fá starf séu m.ö.o. þeir sömu og verði að jafna augljósu áhugaleysi kæranda við höfnun á atvinnuviðtali í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. sept. 2014, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. mars 2014, en engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2. Niðurstaða
Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. greinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama eigi við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali.
Í greinargerð í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur meðal annars fram að gert sé ráð fyrir að þetta eigi við um þá sem hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttökudegi umsóknar um atvinnuleysisbætur. Þá greinir að það þyki eðlilegt að þeir sem eru tryggðir fái fjögurra vikna svigrúm til að leita sér að því starfi er þeir helst kjósa að sinna. Sá tími var liðinn þegar kærandi hafnaði því að fara í umrætt starfsviðtal en kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 3. júní 2013 líkt og fyrr greinir.
Í 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur eftirfarandi fram:
„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“
Fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur kærandi borið að hann líti ekki svo á að um atvinnuviðtal hafi verið að ræða og hafi hann sjálfur tjáð B að honum þættu launin of lág og að hann myndi taka öðru starfi ef það byðist.
Í a-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að eitt af skilyrðum þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum sé að vera í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga kemur fram að með virkri atvinnuleit felist meðal annars að hafa frumkvæði að starfsleit og vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara og vera reiðubúin að taka starfi hvar sem er á Íslandi.
Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður ekki fallist á að skýringar kæranda fyrir nefndinni réttlæti höfnun hans á umræddu atvinnutilboði með vísan til 1. og 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er því staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. júlí 2014 í máli A um að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til hans í tvo mánuði frá og með 3. júlí 2014 sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson