Nr. 596/2024 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 19. júní 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 596/2024
í stjórnsýslumáli nr. KNU24010097
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 26. janúar 2024 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Póllands ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. janúar 2024, um að fella niður dvalarrétt kæranda á grundvelli 1. mgr. 92. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, EES-samningurinn, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi skráði dvöl sína hér á landi 7. febrúar 2006 og hefur haft lögheimili hér á landi síðan þá. Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti Ríkisskattstjóra hafði kærandi stöðugar tekjur vegna atvinnu þangað til í desember 2008 þegar hann fékk greiddar bætur úr atvinnuleysistryggingasjóði. Árin 2009 og 2010 þáði kærandi að mestu greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði en hafði atvinnutekjur í júní, júlí og ágúst 2009 og í júlí og ágúst 2010. Eftir það tímamark þáði kærandi greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði til ársloka 2012. Frá upphafi árs 2013 þáði kærandi eingöngu greiðslur frá Reykjanesbæ til ársloka 2019 en frá árinu 2020 hafði hann þegið greiðslur úr lífeyrissjóðum, Tryggingastofnun ríkisins og Reykjanesbæ. Með bréfi lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 24. ágúst 2023, var vísað til ítrekaðra afskipta lögreglu af kæranda, m.a. vegna ætlaðra ofbeldisbrota og nálgunarbanna. Var erindið sent Útlendingastofnun til þóknanlegra meðferðar í samræmi við 95. og 84. gr. laga um útlendinga.
Útlendingastofnun sendi kæranda bréf, dags. 18. september 2023, þar sem honum var tilkynnt að til skoðunar væri hjá stofnuninni að fella niður rétt kæranda til dvalar, sbr. 1. mgr. 84. gr. sbr. og 1. mgr. 92. gr. laga um útlendinga, m.a. vegna greiðslna úr opinberum sjóðum og ítrekaðra afskipta lögreglu af kæranda. Með bréfinu var kæranda veittur 15 daga frestur til að andmæla því sem fram kæmi í bréfinu með framlagningu greinargerðar og annarra fylgigagna því til stuðnings að hann héldi dvalarrétti sínum samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga um útlendinga.
Kærandi lagði ekki fram andmæli vegna málsins og tók Útlendingastofnun ákvörðun um niðurfellingu dvalarréttar kæranda 12. janúar 2024, og gaf honum 30 daga frest til að yfirgefa landið. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda með atbeina lögreglu 15. janúar 2024. Hinn 26. janúar 2024 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Kærandi lagði fram röksemdir til stuðnings stjórnsýslukæru til Útlendingastofnunar 26. janúar 2024 en með tölvubréfi, dags. 30. janúar 2024, áframsendi Útlendingastofnun röksemdirnar til kærunefndar, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Með tölvubréfi, dags. 9. febrúar 2024, gerði kærandi þær kröfur að ákvörðun Útlendingastofnunar verði afturkölluð eða vísað til nýrrar meðferðar. Til vara sé þess krafist að hann fái óákveðinn frest til þess að ljúka læknismeðferð vegna krabbameins í nýra.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í málatilbúnaði f.h. kæranda, dags. 26. janúar 2024, er vísað til ákvörðunar Útlendingastofnunar. Fram kemur að kærandi hafi nú öruggt heimili en að hann hafi greinst með [...] og sé að hefja meðferð vegna þess. Kærandi eigi enga nána ættingja í heimaríki, foreldrar hans séu fallin frá og einkabróðir kæranda sé jarðaður hér á landi. Ritari bréfsins kveðst hafa þekkt kæranda í 12 ár og aldrei séð neina ofbeldishneigð af hans hálfu en með málatilbúnaðinum fylgdi bréf fyrrverandi sambýliskonu kæranda þar sem sakir á hendur kæranda eru dregnar til baka. Bréfritari kveður að fyrrverandi sambýliskona kæranda glími við alvarlegan geðsjúkdóm og neyti eiturlyfja. Kærandi hafi framfærslu frá Tryggingastofnun sem ellilífeyrisþegi og telji hann að forsendur ákvörðunar Útlendingastofnunar séu brostnar.
IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Niðurfelling réttar til dvalar
Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga um útlendinga fellur réttur til dvalar niður ef útlendingur hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða haldið leyndum upplýsingum sem skipta verulegu máli, ef um málamyndagerning að hætti 8. mgr. 70. gr. er að ræða eða dvöl er í öðrum tilgangi en þeim sem samræmist 84., 85. eða 86. gr. Sama á við ef um aðra misnotkun er að ræða.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til atvinnuferils kæranda en samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi ekki starfað hér á landi frá því í ágúst 2010, en síðan þá í fyrstu þegið greiðslur frá atvinnuleysistryggingasjóði og síðar frá Reykjanesbæ, Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum. Einnig hafi lögregla haft ítrekuð afskipti af honum, vegna meints ofbeldis og brota gegn nálgunarbanni. Var það mat stofnunarinnar að dvöl kæranda samræmist ekki skilyrðum 1. mgr. 84. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt 3. mgr. 84. gr. laga um útlendinga heldur EES- eða EFTA-borgari sem dvelst á landinu sem launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. a-lið 1. mgr. 84. gr. laga um útlendinga, en hættir að vera launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, stöðu sinni sem slíkur, við eftirfarandi aðstæður:
- á meðan hann er tímabundið óvinnufær vegna veikinda eða slyss,
- hann staðfestir að hann sé atvinnulaus án eigin atbeina eftir að hafa unnið við launað starf í meira en eitt ár og er jafnframt í virkri atvinnuleit á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar,
- hann staðfestir að hann sé atvinnulaus án eigin atbeina eftir að lokið er ráðningarsamningi sem er til skemmri tíma en eins árs eða hann hefur án eigin atbeina misst atvinnu á því tímabili og er jafnframt í virkri atvinnuleit á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar; í því tilviki skal hann halda stöðu sinni sem launþegi í a.m.k. sex mánuði,
- hefji hann starfsnám; sé ekki um að ræða atvinnuleysi fyrir eigin atbeina skal hann einungis halda stöðu sinni sem launþegi ef starfsnámið tengist fyrra starfi hans.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 er áskilnaður um virka atvinnuleit meðal skilyrða þess að einstaklingi verði greiddar atvinnuleysisbætur. Verður því lagt til grundvallar í málinu að kærandi hafi haldið rétti sínum til dvalar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 84. gr. laga um útlendinga þrátt fyrir atvinnuleysi, sbr. til hliðsjónar b-lið 3. mgr. 84. gr. sömu laga.
Samkvæmt framangreindu öðlaðist kærandi rétt til ótímabundinnar dvalar, sbr. 1. mgr. 87. gr. laga um útlendinga frá og með 7. febrúar 2011 en þá hafði kærandi dvalist löglega á landinu í minnst fimm ár. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að kærandi hafi rofið þá dvöl sbr. 2. mgr. 87. gr. Niðurfelling dvalarréttar á grundvelli 1. mgr. 92. gr. laga um útlendinga takmarkast við dvalarrétt á grundvelli 84., 85. eða 86. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið grundvallast dvalarréttur kæranda á 87. gr. laga um útlendinga en ákvæðið fellur utan gildissviðs 1. mgr. 92. gr. laga um útlendinga varðandi tilgang dvalar.
Með hliðsjón af öllu framangreindu er ákvörðun Útlendingastofnunar um niðurfellingu dvalarréttar kæranda felld úr gildi.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated.
Valgerður María Sigurðardóttir
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares