Viðamesta könnun á geðræktarstarfi í skólum sem gerð hefur verið
Embætti landlæknis hefur gefið út nýja skýrslu um niðurstöður landskönnunnar á geðrækt, forvörnum og stuðningi við börn og ungmenni í skólastarfi á Íslandi. Könnunin var lögð fyrir á fyrri hluta þessa árs í öllum framhaldsskólum landsins og um 70% allra leik- og grunnskóla. Frá þessu er sagt á vef embættisins.
Könnunin náði yfir breitt svið stefnu og starfshátta skóla á ólíkum skólastigum, umhverfis og aðstæðna, uppbyggingu þekkingar og færni meðal starfsfólks, skólatengsla, jafnréttis og þátttöku í skólastarfi, kennslu í félags- og tilfinningafærni, eflingar jákvæðrar hegðunar, mats og stuðnings í skólastarfi og samstarfs við foreldra og stofnanir um velfarnað barna og ungmenna.
Í tilkynningu embættisins kemur fram að þetta sé umfangsmesta athugunin sem gerð hefur verið hingað til á stöðu geðræktar í íslenskum skólum. Niðurstöðurnar gefi mikilvæga innsýn í stöðu málaflokksins hér á landi.
Gerð könnunarinnar er liður í framkvæmd stefnu og aðgerðaáætlunar stjórnvalda í geðheilbrigðismálum til ársins 2020 (verkefni B.2), og var markmiðið með könnuninni að afla upplýsinga um hvernig stuðlað er að góðri geðheilsu og vellíðan barna og ungmenna í skólakerfinu.