Mál nr. 105/2019 - Úrskurður
KÆRUNEFND HÚSAMÁLA
ÚRSKURÐUR
uppkveðinn 11. desember 2019
í máli nr. 105/2019
A
gegn
B
Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, Valtýr Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur.
Aðilar málsins eru:
Sóknaraðili: A.
Varnaraðili: B.
Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að honum sé heimilt að fá gest í heimsókn þrisvar í viku og að honum sé heimilt að vera í leiguhúsnæðinu þar til leigusamningur aðila rennur út.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.
Með kæru, dags. 25. október 2019, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 5. nóvember 2019, barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð varnaraðila með bréfi, dags. 5. nóvember 2019, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.
I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. september 2019 til 31. ágúst 2020 um leigu sóknaraðila á herbergi varnaraðila að C. Ágreiningur er um heimild sóknaraðila til að fá til sín heimsóknir í hið leigða herbergi og uppsögn varnaraðila á leigusamningnum.
II. Sjónarmið sóknaraðila
Sóknaraðili segir að varnaraðili hafi samþykkt við gerð leigusamningsins að sóknaraðili fengi kærustu sína í heimsókn þrisvar í viku. Hann hafi síðan sagt að sóknaraðili ætti að flytja út þar sem hann mætti ekki fá heimsóknir. Sóknaraðili greiði leigu á réttum tíma og ónáði engan.
III. Sjónarmið varnaraðila
Varnaraðili segir að aðilar hafi komist að samkomulagi um að kærasta sóknaraðila mætti stundum koma í heimsókn til hans. Sérstaklega hafi verið tekið fram að hún mætti aðeins stundum koma í heimsókn og varnaraðili tekið fram að hún mætti helst ekki gista þar sem þau mættu ekki trufla aðra leigjendur. Báðir aðilar hafi átt rétt á því að rifta leigusamningi með tveggja mánaða fyrirvara, yrðu þau ósátt við hvort annað. Sóknaraðili hafi samþykkt þetta allt og geti vitni staðfest það.
Eftir undirritun leigusamningsins hafi sóknaraðili ekki staðið við það sem aðilar hafi komist að samkomulagi um. Fyrstu vikuna hafi aðrir leigjendur byrjað að kvarta undan hávaða frá sóknaraðila, sérstaklega á kvöldin og nóttunni. Rætt hafi verið við hann og hann lofað að fá sjaldnar heimsóknir og hætta að trufla aðra leigjendur. Það hafi ekki gengið eftir og þrír aðrir leigjendur hafi ætlað að rifta leigusamningi þar sem þeim hafi liðið illa í húsinu. Þau hafi oft ekki getað sofið vegna hávaða frá sóknaraðila. Aftur hafi verið rætt við sóknaraðila og útskýrt fyrir honum að það þyrfti að rifta leigusamningnum. Hann hafi samþykkt það og verið tilbúinn að leita að nýju húsnæðinu fyrir 1. nóvember 2019.
IV. Niðurstaða
Kærunefnd telur að varnaraðili geti hvorki sett hömlur á hversu oft sóknaraðili fái gesti í heimsókn í hið leigða húsnæði né rift leigusamningi þeirra á þeim grundvelli að hann hafi fengið fleiri heimsóknir en heimilað hafi verið. Í 2. mgr. 30. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að leigjandi skuli fara að viðteknum umgengnisvenjum og gæta þess að raska ekki eðlilegum afnotum annarra þeirra er afnot hafi að húsinu eða valda þeim óþægindum eða ónæði. Varnaraðili segir að sóknaraðili hafi truflað aðra leigjendur í húsinu með hávaða að kvöldi og nóttu til. Þar sem hann hefur ekki fært fram nein gögn því til sönnunar er þannig, þegar af þeirri ástæðu, ekki heldur unnt að fallast á að honum sé heimil riftun af því tilefni.
Í 1. mgr. 58. gr. húsaleigulaga segir að tímabundnum leigusamningi ljúki á umsömdum degi, án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar af hálfu aðila. Þar sem riftun varnaraðila var ólögmæt fellst kærunefnd á kröfu sóknaraðila um að leigutíma ljúki á umsömdum tíma, þ.e. 31. ágúst 2020.
ÚRSKURÐARORÐ:
Riftun varnaraðila á leigusamningi aðila er ólögmæt.
Ekki er fallist á að varnaraðili geti sett reglur um tíðni heimsókna til sóknaraðila í hið leigða.
Reykjavík, 11. desember 2019
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson Eyþór Rafn Þórhallsson