Ítrekaði stuðning og framlög Íslands til fórnarlamba stríðsins í Sýrlandi
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ítrekaði í dag stuðning Íslands við fórnarlömb stríðsátakanna í Sýrlandi og lagði áherslu á þá afstöðu Íslands að þeir sem ábyrgð bera á stríðsglæpum sem framdir hafa verið í Sýrlandi séu dregnir til ábyrgðar. Ráðherra, sem sótti alþjóðlega ráðstefnu um Sýrland í Brussel, tilkynnti jafnframt um að íslensk stjórnvöld myndu leggja 200 milljónir króna á ári til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi og nágrannaríkjunum til ársins 2020 til viðbótar við framlög til móttöku flóttamanna. Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að standa vel að bæði móttöku flóttamanna og styðja neyðaraðstoð á vettvangi.
„Við getum ekki vakið þá til lífs sem fórust í Idlib í gær. En við getum og eigum að rannsaka þessa skelfilegu árás, leita réttlætis fyrir fórnarlömbin og refsa þeim sem bera ábyrgð á henni. Okkur ber að hjálpa þeim sem lifðu af og að gera það sem hægt er til að fórnarlömbunum fjölgi ekki,“ sagði Guðlaugur Þór. Ennfremur áréttaði hann í ávarpi sínu að tryggja yrði aðgengi hjálparstarfsmanna og hjálpargagna til bágstaddra í Sýrlandi, og að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og aðrir hlutaðeigandi aðilar þrýstu á um að stríðandi fylkingar settust að samningaborðinu, því öðruvísi linnti hryllingnum í Sýrlandi ekki.
Fjöldi ráðamanna sótti ráðstefnuna sem Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið, Bretland, Katar, Kúveit, Noregur og Þýskaland standa fyrir.
Stuðningur við UNRWA og Líbanonsjóð SÞ
Jafnframt átti utanríkisráðherra tvíhliða fundi með Pierre Krähenbühl, framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar SÞ fyrir Palestínuflóttamenn (UNRWA), og Philippe Lazzarini, yfirmanni mannúðarmála SÞ í Líbanon. Á fundinum með Krähenbühl lagði Guðlaugur Þór áherslu á mikilvægi stofnunarinnar og tilkynnti um 22 milljón króna framlag Íslands til UNRWA og áframhaldandi stuðning Íslands við hana. Krähenbühl þakkaði fyrir framlagið og stuðninginn sem væri vel metinn. Hann greindi ráðherra jafnframt frá stöðu mála hjá stofnuninni og ferð sinni til Aleppo í síðustu viku. Flóttamannabúðir Palestínumanna, sem hafa staðið í borginni áratugum saman, hafa að hluta verið jafnaðar við jörðu í stríðsrekstrinum. Af 450 þúsund Palestínuflóttamönnum sem bjuggu í Sýrlandi fyrir stríðið þurfa u.þ.b. 95% af þeim nú að reiða sig á stofnunina með nauðþurftir.
Á fundinum með Lazzarini tilkynnti ráðherra um 22 milljón króna framlag til Líbanonsjóðs SÞ sem er sjóður í umsjón Samræmingarskrifstofu SÞ í mannúðarmálum (OCHA), sem veitir styrki til mannúðarverkefna. Sjóðurinn veitir m.a. styrki til innlendra félagasamtaka sem vinna með flóttamönnum á vettvangi. Ræddu þeir mikilvægi slíkra sjóða fyrir framlagsríkin til að styðja við grasrótina á vettvangi með öruggum og ábyrgðarfullum hætti. Þá ræddu þeir stöðuna í Líbanon en þar er rúmlega ein milljón sýrlenskra flóttamanna, sem eru nú fimmtungur íbúa landsins. Lazzarini ítrekaði þakklæti fyrir stuðning Íslands til Líbanonsjóðsins og mannúðarmála í Líbanon undanfarin ár, sem væri mikilsmetinn.