Hoppa yfir valmynd
21. júní 2019 Forsætisráðuneytið

796/2019. Úrskurður frá 14. júní 2019

Úrskurður

Hinn 14. júní 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 796/2019 í máli ÚNU 18090004.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 3. september 2018, kærði A afgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands („SÍ“) á beiðni um aðgang að gögnum.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi með tölvupósti, dags. 12. ágúst 2018, óskað eftir aðgangi að upplýsingum í átta tölusettum liðum:

1. Óskað var eftir nýjasta þjónustusamningi milli SÍ og Reykjalundar/SÍBS.
2. Kæmi það ekki fram í samningnum var óskað eftir upplýsingum um hlutfall og krónutölu af heildarupphæð þjónustusamningsins sem færi til reksturs offituteymis Reykjalundar.
3. Kæmi það ekki fram í samningnum var óskað eftir upplýsingum um það á hvaða lagaheimild hefði verið byggt við gerð þjónustusamningsins.
4. Óskað var eftir gögnum sem lögð voru til grundvallar því að aðferðir, meðferð og eftirfylgni offituteymis Reykjalundar/SÍBS byggðu á gagnreyndum aðgerðum, svo sem skylt væri, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 112/2008.
5. Óskað var eftir upplýsingum um hvort og þá hvaða sérfræðingar hefðu verið SÍ til ráðgjafar varðandi mat á því hvort aðferðir offituteymis Reykjalundar/SÍBS teldust gagnreyndar, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 44. gr. laga nr. 112/2008.
6. Óskað var eftir skýrslum, úttektum, minnisblöðum eða öðrum gögnum sem sneru að árangursmati offitumeðferðar á Reykjalundi/SÍBS, sbr. 1. mgr. 45. gr. laga nr. 112/2008.
7. Óskað var eftir upplýsingum um það hvort SÍ hefði nýtt heimild 4. mgr. 45. gr. laga nr. 112/2008, og ef svo væri hversu marga skjólstæðinga eða sjúklinga af offitusviði Reykjalundar/SÍBS hefði verið haft samband við til að sinna eftirlitshlutverki SÍ.
8. Óskað var eftir upplýsingum um það hver eða hverjir hefðu tekið ákvörðun upphaflega um að offitumeðferð á Reykjalundi skyldi vera undanfari eða skilyrði fyrir því að komast í skurðaðgerð (magahjáveitu eða magaermi) á Landspítala.

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 14. ágúst 2018, kemur fram að kæranda sé veittur aðgangur að samningi á milli SÍ og Reykjalundar, endurhæfingarmiðstöðvar SÍBS, dags. 25. október 2012. Varðandi gagnreyndar aðferðir er tekið fram að Reykjalundur hafi sinnt offitumeðferð í tæp 20 ár en SÍ hafi tekið við samningagerð við Reykjalund af heilbrigðisráðuneytinu árið 2009. Sú ákvörðun að viðurkenna meðferðina hafi því verið tekin af heilbrigðisyfirvöldum áður en lög um sjúkratryggingar tóku gildi. Í ákvörðuninni er því næst fjallað almennt um meðferðina á Reykjalundi og eftirlit SÍ með henni.

Í kæru kemur fram að kærandi telji SÍ hafa nánast engu svarað sem lúti að beiðni hans. Málsmeðferð hafi ekki verið í samræmi við 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 19. gr. upplýsingalaga eða rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Engu hafi verið sinnt um að benda á leiðir til að kæra ákvörðunina, fá hana endurskoðaða eða annað sem skylt sé að lögum.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 7. september 2018, var SÍ kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem hún lyti að.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál barst umsögn SÍ með bréfi, dags. 21. september 2018. Þar kemur fram að kæranda hafi verið veittur aðgangur að samningi milli SÍ og Reykjalundar, endurhæfingarstöðvar SÍBS, dags. 25. október 2012, ásamt samkomulagi um breytingu á honum og samkomulögum um framlengingar hans. Önnur gögn varðandi fyrirspurn kæranda liggi ekki fyrir hjá SÍ og honum hafi verið bent á hvert hann geti snúið sér varðandi frekari upplýsingar.

Umsögn SÍ var kynnt kæranda með bréfi, dags. 5. október 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 10. október 2018, kemur meðal annars fram að hin kærða ákvörðun hafi ekki uppfyllt kröfur laga um meðferð beiðna um aðgang að gögnum og ekki hafi verið svarað nema að litlum hluta því sem um var beðið. Sama eigi við um síðari viðbrögð SÍ. Kærandi rekur því næst einstaka liði fyrirspurnar sinnar. Ekki hafi verið brugðist með fullnægjandi hætti við liðum 2, 4, 5, 6 og 8 og SÍ hafði brugðist skyldu sinni til að framsenda fyrirspurnir til réttra aðila innan stjórnsýslunnar.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um meðferð SÍ á beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Af hálfu SÍ hefur komið fram að stofnunin hafi afmarkað beiðni kæranda við samning milli stofnunarinnar við Reykjalund, dags. 25. október 2012, ásamt samkomulögum um breytingu og framlengingar hans. Ekki séu önnur gögn í vörslum SÍ sem falli undir beiðni kæranda.

Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er tekið fram að skylt sé, ef þess er óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Þá er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. 5. gr. laganna, en það á við þegar gögn eru afhent að hluta ef takmarkanir eiga við um aðra hluta þeirra. Í athugasemdum við 1. mgr. 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Stjórnvöldum sé ekki skylt að útbúa ný gögn á grundvelli upplýsingalaga.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að véfengja þá fullyrðingu SÍ að ekki séu önnur fyrirliggjandi gögn í vörslum stofnunarinnar sem varða beiðni kæranda en hann hefur fengið aðgang að. Samkvæmt framangreindu verður að leggja til grundvallar að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá SÍ í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Hið sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að SÍ hafi ekki framsent beiðni hans til viðeigandi aðila, svo sem skylt sé, en fyrir nefndinni hefur komið fram af hálfu SÍ að kæranda hafi verið leiðbeint um það hvar hann geti nálgast umbeðnar upplýsingar. Úrskurðarnefndin tekur fram að stjórnvöldum ber almennt að framsenda erindi, sem ekki snerta starfssvið þeirra, á réttan stað svo fljótt sem unnt er á grundvelli leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 4. mgr. 19. gr. upplýsingalaga. Í stjórnsýslurétti er almennt gengið út frá því að það sé ekki sjálfgefið að ákvörðun teljist ógild, enda þótt málsmeðferðarreglur hafi verið brotnar. Til þess að svo sé verður brotið að fela í sér annmarka á meðferð málsins og annmarkinn verður enn fremur að teljast verulegur. Eins og málið liggur fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál er það mat nefndarinnar að sá annmarki á hinni kærðu ákvörðun, að framsenda beiðni kæranda ekki til aðila sem kunna að geyma upplýsingar sem beiðnin lýtur að, teljist ekki nægilega verulegur til að hann leiði til ógildingar hennar.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 3. september 2018, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir      Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta