Þétt setinn fundur um bætta þjónustu hins opinbera
Fundur með helstu þjónustustofnunum ríkisins sem haldinn var fyrir helgi var vel sóttur en þar var rætt um stöðu og framþróun þjónustunnar, auk þess að fjalla um tækifæri gervigreindar fyrir þjónustu hins opinbera. Markmið fundarins voru umræða og aðgerðir um hvernig megi bæta þjónustu hins opinbera meðal annars út frá stefnu um opinbera þjónustu sem nú er í vinnslu.
Birna Íris Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands rakti þróun mála í stafrænni vegferð hins opinbera. Notkun á lausnum Ísland.is hefur aukist mikið á milli ára bæði meðal almennings og stofnana. „Það sem liggur til grundvallar þeim árangri sem Stafrænt Ísland státar sig af er samstarf við stofnanir, það er mjög mikilvægt fyrir okkur,“ sagði Birna Íris.
Á fundinum var fjallað um þróun þjónustu hins opinbera út frá þeim áskorunum sem við blasa, svo sem með öldrun þjóðar, meiri kröfum til þjónustu, misgóðu aðgengi að þjónustunni og stigvaxandi kostnaði á sama tíma og hagræða þarf í rekstri. Farið var yfir ýmsar lausnir sem gætu nýst til að mæta þessum áskorunum, svo sem sameiningu stofnana í öflugar þekkingarstofnanir, aukna samvinnu stofnana og sveitarfélaga, fjölgun stafrænna skrefa og aukna stafræna hæfni starfsfólks.
Þá var kynnt breytt fyrirkomulag þjónustukönnunar ríkisins sem mun nú ná til fleiri notenda og stofnana en áður og farið yfir innleiðingu á þjónustukerfi sem stofnunum mun standa til boða samhliða öðrum þjónustum Ísland.is. Helsta markmið þessara verkefna er að auka samræmingu í þjónustuveitingu og auka upplýsingar um notkun og viðhorf til þjónustunnar sem er forsenda þess að bæta þjónustuna.
Stefnt er að því að stöðumat um stefnu um opinbera þjónustu fari í samráð á næstu vikum sem liggi til grundvallar stefnu sem eigi að tryggja betri og hagkvæmari þjónustu.