Fjármálaáætlun 2019-2023: Blásið til sóknar í umhverfismálum
Samkvæmt tillögu að fjármálaáætlun 2019-2023 er gert ráð fyrir að aukning heildarframlaga til umhverfismála yfir tímabilið 2019 til 2023 nemi 35% raunvexti frá árinu 2017. Uppsafnað aukið útgjaldasvigrúm til ýmissa áherslumála nemur alls 14,7 ma. króna yfir tímabilið.
Útgjaldaaukning fer einkum í tvö meginverkefni málefnasviðsins. Annars vegar að tryggja að unnið sé að því að uppfylla þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist í loftslagsmálum með Kyoto-bókuninni og Parísarsamningnum og jafnframt að því markmiði ríkisstjórnarinnar verði náð að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Hins vegar að tryggja að nýting lands sé sjálfbær, meðal annars samfara auknu álagi vegna verulegrar fjölgunar ferðamanna er sækja landið heim.
Veruleg aukning í verkefni tengd loftslagsmálum
Gert er ráð fyrir að 6,8 ma. króna fari í aukin verkefni tengd loftslagsmálum yfir tímabilið, annars vegar til vinnu við að móta og innleiða aðgerðaráætlun í loftslagsmálum fyrir Ísland til ársins 2030, breyta landnotkun til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá röskuðum vistkerfum, auka bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri auk annarra verkefna sem eru hluti af því markmiði að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Hins vegar verður fjármagni varið í verkefni tengd nýsköpun, rannsóknum, fræðslu og vitundarvakningu auk annarra sértækra aðgerða tengdum loftslagsmálum.
Áhersla á náttúruvernd og innviðauppbyggingu
Gert er ráð fyrir að 7,5 ma. króna fari í aukin verkefni tengd náttúruvernd yfir tímabilið til að tryggja verndun náttúrunnar og sjálfbæra nýtingu hennar. Megináhersla verður á stjórnun nýtingar á viðkvæmum og mikilvægum svæðum með uppbyggingu og rekstri innviða á fjölsóttum ferðamannastöðum í náttúru Íslands og á vöktun svæðanna. Þá er stefnt að því að auka framlög til heilsárs- og árstíðarbundinnar landvörslu á tímabilinu.
Unnið að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands
Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir 1,3 ma. króna til uppbyggingar þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Stofnun miðhálendisþjóðgarðs er meðal áherslumála í ríkisstjórnarsáttmálanum og er áhersla lögð á að sú vinna fari fram í samráði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við þverpólítíska þingmannanefnd, sveitarfélög, náttúruverndar- og útivistarsamtök og aðra hagsmunaaðila.