Hoppa yfir valmynd
19. desember 2013 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 76/2013, úrskurður 19. desember 2013

Mál nr. 76/2013

Eiginnafn: Alex

Hinn 19. desember 2013 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 76/2013 en erindið barst nefndinni 25. október. Málið var áður tekið fyrir á fundi nefndarinnar þann 29. nóvember en afgreiðslu þess þá frestað:

Fyrir liggur beiðni um nafnið Alex sem eiginnafn kvenmanns.

Eiginnafnið Alex er á mannanafnaskrá sem eiginnafn karlmanns. Virðist það hafa verið fært á skrána, sem karlmannsnafn, þegar við fyrstu útgáfu mannanafnaskrár samkvæmt eldri lögum um mannanöfn nr. 37/1991. Karlmannsnafnið Alex á vafalaust eitthvað eldri sögu í íslensku máli. Það hefur hins vegar ekki beina þýðingu að rekja þá sögu nánar í þessum úrskurði. Í tölulegum gögnum Hagstofu Íslands, sem birtar eru á heimasíðu stofnunarinnar, kemur fram að í ársbyrjun 2013 hafi yfir 470 karlmenn hafi þá borið nafnið hér á landi skv. skráningu í þjóðskrá.

Samkvæmt lögum um mannanöfn nr. 45/1996 þarf eiginnafn að fullnægja öllum skilyrðum 1. til 3. mgr. 5. gr. laganna til að á það verði fallist. Ef þau skilyrði eru fyrir hendi skal mannanafnanefnd færa nafnið á mannanafnaskrá, sbr. 22. gr. sömu laga. Af framangreindu liggur fyrir að þessi skilyrði hafa verið talin fyrir hendi hvað varðar nafnið Alex sem karlmannsnafn. Hér þarf hins vegar að leysa úr því hvort fallist verður á nafnið sem kvenmannsnafn.

Í 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn kemur fram að nafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu, eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Þá má nafn ekki brjóta gegn íslensku málkerfi og að síðustu skal nafn ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Eiginnafnið Alex (kvk.), þ.e. sem eiginnafn konu, fullnægir þessum skilyrðum. Nefndin telur nafnið geta tekið eignarfallsendinguna Alexar. Er bent á þetta þar sem eignarfallsending kvenmannsnafnsins Alex yrði ekki hin sama og karlmannsnafnsins, en hið síðarnefnda er án sérstakrar eignarfallsendingar (líkt og á til dæmis við um orðið lax).

Stendur þá eftir spurningin um hvort eiginnafnið Alex (kvk.) fullnægi skilyrðum 2. mgr. 5. gr., sem kveður á um að dreng skal gefa karlmannsnafn og stúlku kvenmannsnafn, og skilyrði 3. mgr. 5. gr. um að nafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Mannanafnanefnd telur ekki ástæðu til að ætla að það yrði nafnbera til ama þótt stúlku væri gefið eiginnafnið Alex. Það virðist ekki nægjanlega ástæða, í þessu tilviki, til að hafna nafninu á þessum grundvelli þótt nafnið sé fyrst og fremst þekkt sem karlmannsnafn. Verður nafninu því ekki hafnað með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn.

Mannanafnanefnd telur hins vegar að skilyrði 2. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn að stúlku beri að gefa kvenmannsnafn sé ekki fullnægt í málinu. Eiginnafnið Alex hefur sterka stöðu sem karlmannsnafn hér á landi. Engin dæmi, saga eða hefð er hins vegar fyrir nafninu hér á landi sem kvenmannsnafni. Eiginnafnið Alex verður því einvörðungu talið karlmannsnafn samkvæmt hinum íslensku mannanafnalögum nr. 45/1996. Ef fallist væri á nafnið sem eiginnafn konu væri í reynd um leið fallist á það af hálfu mannanafnanefndar að heimilt væri að gefa stúlku karlmannsnafn. Slíkt gengi gegn 3. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn, en nefndinni er óheimilt að fara gegn gildandi lögum í störfum sínum. Verður af þeirri ástæðu að hafna fyrirliggjandi beiðni um eiginnafnið Alex (kvk.)

Til nánari skýringar skal tekið fram að mannanafnanefnd hefur þrisvar sinnum fallist á að viðurkenna beri tiltekið nafn bæði sem kvenmannsnafn og karlmannsnafn. Fyrsta dæmið er eiginnafnið Blær. Í kjölfar dóms héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. janúar 2013, í máli nr. E-721/2012, þar sem viðurkenndur var réttur stúlku til að bera eiginnafnið Blær, breytti mannanafnanefnd fyrri framkvæmd um það nafn og færði það á mannanafnaskrá sem eiginnafn konu, þrátt fyrir að það væri jafnframt á skránni sem eiginnafn karls. Til nánari skýringar vísast til úrskurðar nefndarinnar nr. 17/2013 frá 22. mars 2013 og tilvitnaðs dóms. Annað dæmið er eiginnafnið Elía, sbr. úrskurð mannanafnanefndar frá 29. júlí 2013 í máli nr. 44/2013. Í því máli féllst nefndin á nafnið sem eiginnafn karlmanns þrátt fyrir að það hefði áður verið fært á mannanafnaskrá sem eiginnafn konu. Þriðja dæmið er svo eiginnafnið Auður. Með úrskurði mannanafnanefndar nr. 73/2013 frá 29. nóvember sl. féllst nefndin á að viðurkenna nafnið sem eiginnafn karlmanns, þrátt fyrir að það hefði áður verið á mannanafnaskrá sem eiginnafn konu. Öll þessi þrjú dæmi eiga það sammerkt að þess finnast skýr dæmi í íslenskum heimildum að nafnið sem um ræðir, þ.e. Blær, Elía og Auður, hafi verið notað hér á landi í almennt þekktum bókmenntatexta og/eða nafngjöfum á bæði kyn. Umrædd nöfn töldust því, samkvæmt íslenskum lögum um mannanöfn, bæði kvenmanns- og karlmannsnöfn. Eins og fyrr er rakið finnst ekkert dæmi um það að litið hafi verið svo á að nafnið Alex hafi verið talið kvenmannsnafn hér á landi.

Þekkt eru dæmi um að nafnið Alex sé kvenmannsnafn í öðrum tungumálum en íslensku. Gögn benda þó einnig til þess að slík notkun nafnsins sé að miklum mun fátíðari en notkun nafnsins sem karlmannsnafns. Það atriði er þó ekki úrslitaatriði hér, heldur hitt hver staða nafnsins er í íslensku máli. Í skýringum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að gildandi mannanafnalögum nr. 45/1996 var reglan í 2. mgr. 5. gr. m.a. útskýrð svo:

„Ákvæðið hefur í för með sér að ekkert eiginnafn getur talist vera bæði karlmanns- og kvenmannsnafn nema hefð sé fyrir því að gefa það báðum kynjum. Þannig er t.d. óheimilt að gefa drengjum nafnið Ilmur og stúlkum nöfnin Sturla og Blær. Á sama hátt er óheimilt að gefa stúlkum nafnið Sigurður þótt hægt væri að beygja það eins og kvenmannsnafn (þ.e. eins og Sigríður). Þetta ákvæði hefur enn fremur í för með sér að mannanafnanefnd verður að skera úr um það hverju sinni hvort tökunafn, sem ekki hefur unnið sér hefð í íslensku máli, t.d. Robin, skuli heimilt sem karlmannsnafn eða sem kvenmannsnafn.“

Í þessum skýringum kemur fram að ekki er útilokað að hefð geti verið fyrir því að nafn sé bæði kvenmanns- og karlmannsnafn. Samkvæmt fyrirliggjandi úrskurðum hefur verið fallist á að það eigi við um nöfnin Blær, Elía og Auður eins og fyrr segir. Þar kemur líka fram að það sé mannanafnanefndar að skera úr um það hvort tökunöfn í íslenskt mál, líkt og t.d. Robin, skuli viðurkennd sem karlmannsnöfn eða sem kvenmannsnöfn. Hvað þetta atriði varðar tekur nefndin fram að hún hefur ekki beina lagaheimild til þess að velja hvort tökunöfn úr erlendum málum skuli viðurkennd sem karlmannsnöfn eða kvenmannsnöfn, þrátt fyrir að tilvitnaðar skýringar megi skilja svo. Hins vegar geta tökunöfn úr erlendum málum sem Íslendingar velja fyrir börn sín eða sjálfa sig öðlast hefð sem annaðhvort karlmannsöfn eða kvenmannsnöfn í íslensku máli eftir tiltekna samfellda notkun þeirra. Hafa þau þá öðlast sambærilega stöðu og önnur hefðbundin íslensk nöfn sem almennt eru aðeins tengd öðru hvoru kyninu, líkt og t.d. eiginnafnið Sigurður. Er það enda í eðli tungumálsins að þróast fyrir hefð, líkt og ákvæði 5. gr. laga um mannanöfn er að stórum hluta byggt á. Það er hlutverk mannanafnanefndar skv. 3. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn, sbr. 22. gr. sömu laga, að leggja á það mat hvort slík hefð sé fyrir hendi um einstök nöfn. Er slíkt mat fyrst og fremst málfræðilegt.

Hér að framan kom fram að eiginnafnið Alex er töluvert algengt í íslensku máli sem eiginnafn karla. Engin dæmi eru hins vegar um að það sé notað sem eiginnafn konu. Það er niðurstaða mannanafnanefndar að nafnið geti einvörðungu talist karlmannsnafn í íslensku máli. Það myndi því ganga gegn 2. mgr. 5. gr. að viðurkenna það sem kvenmannsnafn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Alex (kvk.) er hafnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta