Samstarfssamningur um loftslagsvænan landbúnað undirritaður
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra undirritaði í dag ásamt Karvel L. Karvelssyni framkvæmdastjóra Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins, Birki Snæ Fannarssyni, settum Landgræðslustjóra og Þresti Eysteinssyni skógræktarstjóra, samstarfssamning um loftslagsvænan landbúnað.
Nýundirritaður samningur stækkar og eflir verkefnið sem hefur verið í gangi síðan 2020 en nýundirritaður samningur gildir út árið 2024. Í lok árs 2022 voru 46 bú í verkefninu, 22 í sauðfjárrækt og 24 í nautgriparækt.
Á árinu 2023 bætist við hópur sauðfjár- og nautgripabænda eða tíu þátttakendur. Jafnframt hefst innleiðing garðyrkju í verkefnið og hefur verið auglýst eftir einum hópi garðyrkjuframleiðenda á árinu eða fimm þátttakendum.
Meginmarkmið verkefnisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og landnotkun og auka kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri. Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftlagsmálum. Bændur sem taka þátt í verkefninu fá aðgang að ráðgjöf og fræðslu um loftslagsmál.
Ávallt hafa fleiri bændur sótt um þátttöku í verkefninu en unnt hefur verið að taka inn. Samkvæmt stöðuskýrslu um verkefnið frá 2022 hefur þekking þátttakenda á loftlagsmálum aukist sem og færni þeirra í loftlagsaðgerðum. Bændurnir hafa m.a. öðlast þjálfun í að skipuleggja landnotkun á jörðum sínum og öðlast betri yfirsýn yfir fyrirliggjandi verkefni í búrekstrinum. Þátttaka í verkefninu hefur einnig hvatt bændur til að vera virkir í umræðunni um loftslagsmál í sínu nærsamfélagi. Sú þekking sem myndast hefur í verkefninu mun nýtast í framtíðarstefnumótun á málefnasviðinu.