Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr.438 /2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 438/2020

Þriðjudaginn 19. janúar 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. september 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. september 2020, um að synja umsókn hans um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 26. maí 2020, sótti kærandi um greiðslur frá Vinnumálastofnun á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. september 2020, á þeirri forsendu að skilyrði um sóttkví væri ekki uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. september 2020. Með bréfi, dags. 17. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 3. desember 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. desember 2020, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að hann skilji ekki ákvörðun Vinnumálastofnunar því að læknir hafi ráðlagt sóttkví og það komi fram á læknisvottorði. Þar sem kærandi hafi verið í sóttkví hafi stéttarfélag hans neitað honum um greiðslu og vísað á Vinnumálastofnun.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að samkvæmt þeim gögnum sem liggi til grundvallar umsókn kæranda um greiðslur í sóttkví, auk upplýsinga frá Embætti landlæknis, hafi hann ekki sætt sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, þ.e. kærandi sé ekki á sóttkvíarskrá embættisins. Auk þess hafi yfirlýsing frá Embætti landlæknis um sóttkví til að sporna við útbreiðslu COVID-19 ekki fylgt umsókn kæranda, þ.e. vottorð frá Embætti landlæknis vottað af sóttvarnalækni. Eftir að kæra hafi borist nefndinni hafi verið óskað eftir frekari skýringum frá Embætti landlæknis. Í skýringum embættisins, sbr. tölvupóstur frá 1. desember 2020, komi fram staðfesting á því að kærandi hafi ekki verið skráður í sóttkví hjá embættinu.

Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 24/2020 taki til greiðslna til atvinnurekanda sem greitt hafa launamönnum, sem sæta sóttkví, laun. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gildi lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví. Mál þetta varði greiðslur í sóttkví og þá hvort skilyrði laga nr. 24/2020 séu uppfyllt í máli kæranda. Í 3. gr. laga nr. 24/2020 sé að finna skilgreiningu á hugtakinu sóttkví. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögunum komi fram að um sé að ræða aðgerð þar sem viðkomandi einstaklingur sætir ekki jafn ströngum fyrirmælum um að halda sig heima og innandyra og ef um einangrun væri að ræða, sbr. leiðbeiningar Embættis landslæknis fyrir almenning varðandi sóttkví í heimahúsi. Sóttkví sé því almennt beitt vegna þeirra sem hafi mögulega smitast af sjúkdómi en sýni ekki merki þess að vera sýktir.

Í 5. gr. laga nr. 24/2020 sé fjallað um skilyrði fyrir greiðslum fyrir greiðslum til launamanna. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. sé skilyrði fyrir greiðslum að launamaður hafi sætt sóttkví. Sóttkví sé einkum beitt í þeim tilgangi að hægja á útbreiðslu veirunnar, vernda viðkvæma hópa fyrir smiti og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið og innviði samfélagsins á meðan veiran gangi yfir, sbr. lög nr. 19/1997 um sóttvarnir. Sóttkví sé því beitt vegna þeirra sem hafa mögulega smitast af sjúkdómi en sýna ekki merki þess að vera sýktir. Sóttkví sé beitt þegar einstaklingur hafi mögulega smitast af sjúkdómi en sé einkennalaus.

Embætti landlæknis beri ábyrgð á utanumhaldi á skráningu einstaklinga í sóttkví á grundvelli sóttvarnarlaga eins og áður segi. Skráningu þeirra sé haldið til haga í svonefndri sóttkvíarskrá embættisins sem sé miðlægur gagnagrunnur með yfirliti yfir alla þá sem sætt hafa sóttkví og á hvaða tímabilum. Vottorð sóttvarnarlæknis séu byggð á fyrrnefndri skrá embættisins og séu veitt til einstaklinga sem hafi verið fyrirskipað að sæta sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, þ.e. af almannavörnum eða sóttvarnarlækni, og það sé tilgreint á vottorði. Fáist slíkt vottorð ekki útgefið sé litið svo á að einstaklingur hafi ekki sætt sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Viðkomandi eigi þá ekki rétt á greiðslum, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 5. gr. laga nr. 24/2020. Vert sé að taka fram að greiðslur stofnunarinnar byggi á skráningu Embættis landlæknis á þeim dagsetningum sem einstaklingur sætir sóttkví. Heimilislæknir og/eða aðrir læknar geti gefið út veikindavottorð til skjólstæðinga sinna vegna fjarvista úr skóla eða vinnu. Slík vottorð séu hins vegar ekki staðfesting á því að einstaklingur hafi sætt sóttkví í skilningi laganna, sé ekki enn fremur til staðar skráning viðkomandi í sóttkvíarskrá Embættis landlæknis. 

Samkvæmt þeim gögnum sem liggi til grundvallar umsókn kæranda hafi hann ekki farið í sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Í ljósi fyrirliggjandi gagna sé það afstaða Vinnumálastofnunar að þar sem kærandi hafi ekki sætt sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda séu skilyrði laga nr. 24/2020 ekki uppfyllt. Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. 

Í 2. gr. laga nr. 24/2020 kemur fram að markmið laganna sé að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eigi ekki við. Með því sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna er um sóttkví að ræða þegar einstaklingi er gert að einangra sig eins og kostur er, einkum í heimahúsi, samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þegar hann hafi mögulega smitast af sjúkdómi.

Í 5. gr. laga nr. 24/2020 er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslum vegna launamanna. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Heimilt er að greiða atvinnurekanda launakostnað, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. Skilyrði fyrir greiðslum eru að:

a. launamaður, eða barn í hans forsjá undir 13 ára aldri eða barn undir 18 ára aldri sem þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, hafi sætt sóttkví,

b. launamaður hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta þaðan sem hann sætti sóttkví,

c. önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi getað mætt til vinnu á vinnustað og

d. atvinnurekandi hafi sannanlega greitt launamanni laun á meðan hann eða barn í hans forsjá sætti sóttkví.“

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna skal umsókn um greiðslu vera skrifleg og henni skulu fylgja  fullnægjandi gögn og upplýsingar að mati Vinnumálastofnunar svo að unnt sé að taka afstöðu til þess hvort skilyrði laganna fyrir greiðslu séu uppfyllt, þar með talið afrit af fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að viðkomandi skuli sæta sóttkví.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að til þess að öðlast rétt til greiðslna á grundvelli laga nr. 24/2020 þarf einstaklingur að hafa sætt sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting frá Embætti landlæknis þess efnis að kærandi hafi ekki verið skráður í sóttkví hjá embættinu. Að því virtu eru skilyrði laganna ekki uppfyllt. Hin kærða ákvörðun er staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. september 2020, um að synja umsókn A, um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta