Heildarútgjöld ríkissjóðs innan fjárheimilda á fyrri hluta ársins
Heildarútgjöld ríkissjóðs á fyrstu sex mánuðum ársins voru innan fjárheimilda að því er fram kemur í ársfjórðungsuppgjöri sem sýnir stöðu fjármála innan ársins hjá einstökum ríkisaðilum í A-hluta ríkissjóðs með hliðsjón af veittum fjárheimildum samkvæmt yfirliti Fjársýslu ríkisins. Meirihluti fjárlagaliða er innan fjárheimilda á fyrstu sex mánuðum ársins.
Heildarútgjöldin námu 343 ma.kr. á tímabilinu og voru 8,2 ma.kr innan fjárheimilda. Að teknu tilliti til fjárheimildastöðu fyrra árs voru heildarútgjöld tímabilsins 14,3 ma.kr. innan heildarfjárheimilda.
Samtals eru 190 fjárlagaliðir með útgjöld innan fjárheimilda tímabilsins, með afgang sem nemur samtals 17,3 ma.kr. Þar af eru 97 fjárlagaliðir með meira en 10% afgang af fjárheimildum, alls 13,1 ma.kr. Þeir 15 fjárlagaliðir sem eru með mestan afgang eru alls 11,1 ma.kr. innan fjárheimilda tímabilsins. Helstu liðir með afgang eru Vegagerðin með um 3 ma.kr., daggjöld öldrunarstofnana með 1,9 ma.kr., Atvinnleysistryggingasjóður með1,3 ma.kr. og vaxtagjöld ríkissjóðs með 0,9 ma.kr.
Samtals eru 169 fjárlagaliðir með útgjöld umfram fjárheimildir tímabilsins, sem alls nema 9,1 ma.kr. Stærstur hluti umframútgjalda skýrist af fáum liðum, 15 stærstu hallaliðirnir eru um 5,9 ma.kr. sem er um 65% af heildarhalla. Mestu frávikin eru á útgjöldum vegna sjúkratrygginga, um 1,4 ma.kr, lífeyristrygginga, um 0,8 ma.kr., auk lífeyrisskuldbindinga upp á 0,8 ma.kr. Útgjöld þessara liða eru háð kerfisbundnum þáttum og því að hluta til erfiðara að gera áætlanir um þau. 76 fjárlagaliðir eru með halla undir 20 m.kr. hver.
Ráðuneyti bera hvert um sig ábyrgð á því að afkoma fjárlagaliða sé í samræmi við fjárheimildir fjárlaga og að dreifing fjárheimilda innan ársins sé sem næst áætlaðri dreifingu raunútgjalda. Fjármála- og efnahagsráðuneytið leggur áherslu á að ráðuneyti grípi til aðgerða ef hætta er á að ríkisaðilar eða verkefni fari fram úr heimildum fjárlaga á árinu og yfirfari liði þar sem útgjöld hafa verið minni en áætlun gerði og dreifing fjárheimilda gerði ráð fyrir.