Hoppa yfir valmynd
20. september 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Moody’s hækkar lánshæfiseinkunn Íslands í A1 með stöðugum horfum

Lánshæfismatsfyrirtækið Moody's Ratings (Moody's) hækkaði í dag lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins í innlendum og erlendum gjaldmiðlum í A1 úr A2. Horfur fyrir einkunnina eru stöðugar.

Helsti drifkrafturinn fyrir hækkun lánshæfismatsins er bætt staða í ríkisfjármálum með minni fjárlagahalla og lækkandi skuldahlutfalli ríkisins. Moody’s væntir þess að staða ríkisfjármála styrkist áfram og að hallarekstur ríkissjóðs minnki í samræmi við fjármálaáætlun stjórnvalda, sem matsfyrirtækið telur trúverðuga.

Samkomulag um úrvinnslu skuldbindinga ÍL-sjóðs, sem eru hluti af skuldum ríkissjóðs, og áframhaldandi sala á hlutabréfum í eigu ríkisins í Íslandsbanka, mun að öllum líkindum leiða til einskiptis lækkunar skuldahlutfallsins. Þá er aðhaldssöm stefna í peningamálum og ríkisfjármálum farin að draga úr verðbólgu, sem styður mat Moody's á sterkum stofnunum Íslands og vel samræmdri efnahagsstefnu.

Umgjörð opinberra fjármála hefur stutt við lánshæfi Íslands, þar sem hún hefur tryggt sjálfbærni og stutt við viðnámsþrótt ríkisfjármála síðan hún var innleidd árið 2015. Sú staðreynd að yfirvöld íhuga nú að skipta út núverandi afkomureglu fyrir reglu sem setur útgjaldavexti mörk (stöðugleikareglu) er jákvætt fyrir lánshæfismat, þar sem slík breyting myndi styrkja umgjörð opinberra fjármála enn frekar með því að stuðla sterkar að efnahagslegum stöðugleika.

Stöðugar horfur endurspegla jafnar líkur á hækkun eða lækkun lánshæfismats. Moody´s gerir ráð fyrir að aðhald í ríkisfjármálum haldi áfram á næstu árum í samræmi við fjármálaáætlun stjórnvalda. Búist er við að hagkerfið vaxi kröftuglega á næsta ári, eftir hægan vöxt á þessu ári sem leiðir af aðhaldssamri peninga- og ríkisfjármálastefnu. Staða efnahags- og ríkisfjármála gæti styrkst hraðar en Moody´s ráðgerir. Á hinn bóginn er Ísland enn lítið og tiltölulega einsleitt hagkerfi og viðkvæmt fyrir áföllum í tilteknum atvinnugreinum. Þá er skuldahlutfall og skuldabyrði ríkissjóðs enn veikari en meðal annarra ríkja með sömu einkunn. Ríkisfjármálin eru því enn tiltölulega viðkvæm gagnvart áföllum.

Einkunnin gæti hækkað enn frekar ef skuldahlutfall ríkissjóðs heldur áfram að lækka hraðar en samkvæmt forsendum Moody´s. Einkunnin gæti einnig hækkað ef áframhaldandi aukin fjölbreytni í efnahagslífinu dregur úr sveiflum í hagvexti.

Einkunnin gæti lækkað ef ríkisstjórnin víkur verulega frá áætlunum í ríkisfjármálum til meðallangs tíma, sem leiðir til umtalsverðrar hækkunar á skuldahlutfalli.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta