Magnús Jóhannessson fyrsti framkvæmdastjóri fastaskrifstofu Norðurskautsráðsins
Á fundi embættismannanefndar Norðurskautsráðsins, sem fram fer í Haparanda í Norður-Svíþjóð í dag, var Magnús Jóhannesson valinn framkvæmdastjóri fastaskrifstofu ráðsins sem stofna á í Tromsø Noregi á næsta ári. Gert er ráð fyrir að Magnús hefji störf í febrúar á næsta ári en hann var valinn úr hópi 36 umsækjenda frá sjö af átta aðildarríkjum Norðurskautsráðsins. Skrifstofan verður formlega opnuð eftir ráðherrafund ráðsins næsta vor og er henni ætlað að styrkja starf ráðsins og upplýsingagjöf um málefni norðurslóða. Magnús Jóhannesson hefur starfað sem ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins frá árinu 1992 og áður sem siglingamálastjóri frá árinu 1985. Magnús er fæddur á Ísafirði.
Í mars árið 2011 samþykkti Alþingi samhljóða tillögu Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða en meðal helstu áhersluatriða í henni er styrking og efling Norðurskautsráðsins. Íslensk stjórnvöld hafa unnið markvisst að framkvæmd norðurslóðastefnunnar sem birst hefur meðal annars í gerð bindandi alþjóðasamnings um samstarf vegna olíumengunar í hafi á norðurslóðum, stofnun sérstakrar prófessorstöðu í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri og auknu samstarfi við atvinnulifið um hagsmuni Íslands á norðurslóðum.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra: "'Þetta eru góð tíðindi. Ég samgleðst Magnúsi sem er þrautreyndur úr margvíslegu starfi á vettvangi Norðurskautsráðsins og sem ég veit að mun standa sig framúrskarandi vel við að byggja upp starfsemi hinnar nýju fastaskrifstofu ráðsins. Ráðning hans er sömuleiðis viðurkenning á hinu góða starfi okkar Íslendinga að norðurslóðamálum á umliðnum árum."