Mál nr. 50/1997
Á L I T
K Æ R U N E F N D A R F J Ö L E I G N A R H Ú S A M Á L A
Mál nr. 50/1997
Eignarhald: Bílastæði.
I. Málsmeðferð kærunefndar.
Með beiðni, dags. 15. júlí 1997, beindi A, X nr 4A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, Y nr. 42, hér eftir nefndur gagnaðili, um bílastæði við húsið X nr. 4a.
Erindið var lagt fram á fundi kærunefndar 11. september 1997. Áður hafði verið samþykkt að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Greinargerð gagnaðila, ódagsett, en móttekin 12. september, var lögð fram á fundi 18. september og málið tekið til úrlausnar.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.
Fjöleignarhúsið X nr. 4A, var byggt árið 1962. Í húsinu eru tveir eignarhlutar. Álitsbeiðandi er eigandi 1. og 2. hæðar sem telst 71,44% af húsinu en gagnaðili er eigandi kjallaraíbúðar sem telst 28,56% af húsinu. Eignarhluta álitsbeiðanda tilheyrir bílskúr. Ágreiningur er um bílastæði á lóð hússins.
Krafa álitsbeiðanda er:
Að viðurkennt verði að bílastæðið sé séreign álitsbeiðanda.
Af hálfu álitsbeiðanda er á það bent að húsið hafi í upphafi verið í sameign tveggja aðila, C og D. Með eignaskiptasamningi, dags. 12. apríl 1980, hafi húsinu verið skipt milli þeirra. Í hlut D hafi komið ósamþykkt kjallaraíbúð og í hlut C íbúð á 1. og 2. hæð. Árið 1982 hafi kjallaraíbúðin verið samþykkt. Í þessum gögnum komi hvergi fram að umrætt bílastæði tilheyri kjallaraíbúðinni. Álitsbeiðandi bendir á að seljandi eignarhluta álitsbeiðanda, C, hafi tjáð henni, að bílastæðið fylgdi eignarhluta álitsbeiðanda. Hafi hún lagt í stæðið frá þeim tíma er hún flutti í húsið.
Í greinargerð gagnaðila kemur fram að þegar gagnaðili keypti íbúðina hafi C verið eigandi að hinum eignarhlutanum. Hafi hann tjáð gagnaðila að bílastæðið tilheyrði kjallaraíbúð, því bílastæði 1. og 2. hæðar væri fyrir framan bílskúrinn.
III. Forsendur kærunefndar.
Samkvæmt lóðarleigusamningi dags. 27. janúar 1970 kemur fram að umrætt bílastæði sé á lóðinni. Hvorki í eignaskiptasamningi, dags. 12. apríl 1980, né í öðrum fyrirliggjandi gögnum er kveðið á um að bílastæðið fylgi ákveðnum séreignarhluta.
Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 26/1994 teljast bílastæði á lóð fjöleignarhúss sameiginleg og óskipt, nema ákveðið sé í þinglýstum heimildum, að tiltekin bílastæði fylgi ákveðnum séreignarhlutum. Verður óskiptum bílastæðum ekki skipt nema allir eigendur samþykki og skulu þá gerðar nauðsynlegar breytingar á eignaskiptayfirlýsingu og þeim þinglýst, sbr. 2. mgr. sömu greinar.
Það er álit kærunefndar að eigendum beggja eignarhluta sé heimilt að leggja bifreið í umrætt stæði. Hins vegar fylgir hvorugum eignarhlutanum einkaréttur á bílastæði þessu, sbr. 3. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 26/1994.
IV. Niðurstaða.
Það er álit kærunefndar að umrætt bílastæði við húsið X nr. 4A, sé sameign eigenda hússins.
Reykjavík, 8. október 1997.
Valtýr Sigurðsson Guðmundur G. Þórarinsson Karl Axelsson |
|
|