Félags- og barnamálaráðherra úthlutar styrkjum til félagasamtaka fyrir 190 m.kr.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, veitti í dag styrki af safnliðum fjárlaga til 38 félagasamtaka. Veittir voru styrkir til 47 verkefna og nam heildarfjárhæð styrkja alls 190 milljónum króna. Styrkir af safnliðum fjárlaga hafa verið veittir árlega um nokkurra ára skeið og eru veittir til félagasamtaka sem vinna að málefnum á sviði félags- og velferðarmála.
Verkefnin sem hlutu styrk eru af margvíslegum toga en í ár var lögð sérstök áhersla á verkefni sem lúta að málefnum barna og snemmtækri íhlutun. Þá voru veittir styrkir til verkefna á sviði málefna fatlaðs fólks, eldri borgara, fátæktar, geðheilsu, félagslegrar virkni o.fl.
Í ávarpi sínu við úthlutun styrkjanna í Hannesarholti í dag minnti ráðherra á það öfluga og göfuga starf sem frjáls félagasamtök sinna og að mikilvægt væri að hlúa að starfsemi þeirra. Styrkveitingin er einn liður í því og viðurkenning á vel unnum störfum í þágu samfélagsins.
Ásmundur sagði framlag almannaheillasamtaka til heildstæðrar velferðarþjónustu mjög dýrmætt. „Við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því, fyrr en á þarf að halda, hvað frjáls félagasamtök gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu og hvað þar er unnið mikið grasrótarstarf.“
Við úthlutun voru þrjú verkefni kynnt sérstaklega. Hjálpræðisherinn kynnti verkefnið Herskjólið sem miðar að því að styðja við börn og ungmenni sem mörg hver búa við erfiðar félagslegar aðstæður. Rauði krossinn kynnti verkefnið „Félagsvinur eftir afplánun“ þar sem markmiðið er styðja þátttakendur við endurkomu í samfélagið að lokinni afplánun. Þá sagði fulltrúi Íþróttasambands fatlaðra frá þátttöku Íslands í Alþjóðaleikum Special Olympics, en leikarnir hefjast í næstu viku í Abu Dhabi.
Ráðherra sagði þau verkefni sem kynnt voru undirstrika enn frekar hve þýðingamikið starf ólík félagasamtök inna af hendi og óskaði öllum styrkþegum velfarnaðar.