Viðbrögð og aðgerðir vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu
Fréttatilkynning nr. 1/2006
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra kynntu í morgun á fundi ríkisstjórnarinnar tillögur um viðbrögð, aðgerðir og fjárframlög. Tillögurnar eru byggðar á vinnu ráðuneytisstjóra heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, en ríkisstjórn fól þeim 1. mars sl. að vinna að úttekt á stöðu mála og síðan aftur þann 7. nóvember sl. að fylgja eftir hugmyndum og gera enn frekari úttekt á kostnaðaráætlun vegna ráðstafana sem nauðsynlegt er að grípa til.
Tillögurnar sem samþykktar voru í morgun taka á fjórum þáttum:
Í fyrsta lagi viðbúnaði en kallaður verður saman vinnuhópur þar sem í eiga sæti Ríkislögreglustjóri, Sóttvarnalæknir, Almannavarnaráð, Brunamálastofnun, Bændasamtökin, Fangelsismálastofnun, Flugmálastjórn, Landhelgisgæslan, Landlæknir, Neyðarlínan, Póst- og fjarskiptastofnun, Rauði Kross Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Samtök fyrirtækja í öryggisgæslu/ -vörslu, Siglingamálastofnun, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Tollgæslan, Vegagerðin, Yfirdýralæknir og Þjóðkirkjan. Hlutverk hópsins verður að styrkja enn frekar viðbragðsáætlanir hér á landi. Ríkislögreglustjóri og sóttvarnalæknir myndi stýrihóp til að skilgreina verkefni og hlutverk samstarfsaðila og setji starfinu tímamörk.
Komið verður upp nýju upplýsingakerfi í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð sem ráði við það mikla magn upplýsinga sem þarf að taka á móti og vinna úr.
Fjölgað verður starfsmönnum hjá sóttvarnalækni og almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Aukin er fjárveiting vegna rannsókna á fuglum. Slíkar rannsóknir eru unnar í samstarfi yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis. Þetta er gert til að tryggja að berist fuglaflensan hingað með farfuglum uppgötvist það svo fljótt sem auðið er þannig að tryggja megi eftir mætti að smit berist ekki í alifugla og eða menn.
Veirurannsóknastofa Landspítala háskólasjúkrahúss hefur aðstöðu og öryggisbúnað til að greina hættulegar veirur. Til að tryggja þann þátt enn frekar sem snýr að dýrum hefur verið unnið að undirbúning að nýrri krufningar- og rannsóknaraðstöðu fyrir fugla á Tilrauna- og Rannsóknastöðinni á Keldum.
Í öðru lagi lyfjamálum en Alþingi hefur þegar samþykkt lög um neyðarframleiðslu á lyfjum hér á landi. Gerðar hafa verið áætlanir um byggingu dreypilyfjaverksmiðju og nú er unnið að útboði á dreypilyfjum og uppsetningu á birgðageymslu þar sem geymd yrðu að minnsta kosti ársbirgðir af lyfjunum. Þetta er gert til að fá raunhæfan kostnaðarsamanburð. Þegar eru til í landinu um 90.000 meðferðarskammtar af inflúensulyfjum. Ákveðið hefur verið að fjölga um 30.000 skammta og kaupa aðra tegund af lyfi. Þetta er gert ef hugsanlega kæmi upp sú aðstaða að inflúensuveiran byggði sér upp ónæmi fyrir öðru hvoru lyfinu.
Hvað varðar sameiginlega norræna bóluefnaverksmiðju virðist það mál því miður komið því sem næst á byrjunarreit vegna ákvörðunar Svía um að athuga fyrst sérlausn, þ.e. byggingu bóluefnaverksmiðju í Svíþjóð.
Með hliðsjón af þessu m.a. hefur verið ákveðið að bjóða út tryggingu fyrir Íslendinga. Tryggingin byggir á árlegu iðgjaldi og forgangi að 300.000 skömmtum af bóluefni strax og tekist hefur að framleiða það, ef heimsfaraldur inflúensu fer af stað. Einnig hefur verið ákveðið að bólusetja alla áhættuhópa árlega gegn árstíðabundinni inflúensu til að auka mótstöðu þjóðarinnar almennt gegn inflúensuveirum.
Í þriðja lagi fræðslu, æfingum og upplýsingum. Haldnar hafa verið tvær æfingar, báðar í samvinnu við Evrópubandalagið. Önnur tengdist útbreiðslu bólusóttar. Hin æfingin tengdist útbreiðslu inflúensu og var Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð virkjuð í tengslum við æfinguna.
Sóttvarnalæknir og ríkislögreglustjóri skulu fylgjst náið með framvindu hvað varðar útbreiðslu fuglaflensunnar og hugsanlega stökkbreytingu, þannig að heimsfaraldur skelli á. Þeir skulu meta á hvaða tímapunkti sé eðlilegt og æskilegt að hefja útgáfu fræðsluefnis til almennings og æfingar eftir því sem við á.
Í fjórða lagi hefur verið ákveðið að kaupa mikið magn af einnota hlífðarfatnaði til að tryggja öryggi starfsfólks á heilbrigðisstofnunum og í sjúkraflutningum. Einnig er reiknað með að fjölga enn frekar öndunarvélum, en nú eru til 64 slíkar vélar í landinu.
Að lokum er lagt til að ráðuneytisstjórarnir tryggi áfram samræmingu milli ráðuneyta og annist yfirumsjón áframhaldandi undirbúnings.