Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Umtalsverð verðlækkun lyfja – árangursríkt samkomulag

Heildsöluverðmæti lyfja á Íslandi hefur lækkað um sautján af hundraði og smásöluverðmæti um fjórtán prósent á tveimur árum. Þessar upplýsingar koma fram í skriflegu svari heilbrigðismálaráðherra við fyrirspurn Ástu Möller, Sjálfstæðisflokki, sem spurði ráðherra um það að hvaða leyti markmiðin um lækkun lyfjaverðs í heildsölu hefðu komið fram í verðlækkun lyfja í smásölu.

Skýringarinnar á verðbreytingunni er fyrst og fremst að leita í samkomulag sem Jón Kristjánsson, heilbrigðismálaráðherra, Félag íslenskra stórkaupmanna og Actavis gerðu um lækkun lyfjaverðs. Samkomulagið var liður í þeirri viðleitni ráðherra að lyfjaverð á Íslandi yrði sambærilegt við meðalverð í smásölu í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Áherslur ráðherra og það átak sem menn réðust í því skyni að freista þess að lækka lyfjaverð eru rökrétt framhald og viðbrögð við skýrslu Ríkisendurskoðunar um málið, en auk þess ákvað ráðherra að skipa nefnd til að semja drög að lyfjastefnu og nýjum lyfjalögum þar sem tekið yrði tillit til ábendinga í skýrslu Ríkisendurskoðunar og frá hagsmunaaðilum. Þá skipaði ráðherra einnig stýrihóp fyrir þremur árum til að vinna að átaki í lyfjamálum heilbrigðisstofnana sem er farið að skila árangri og lægri lyfjakostnaði hjá ýmsum heilbrigðisstofnunum.

Í svari ráðherra til Ástu Möller kemur meðal annars fram um árangur samkomulagsins við Félag íslenskra stórkaupmanna og Actavis: “Með samkomulagi við FÍS og Actavis, sterku gengi krónunnar og öðrum aðgerðum lyfjagreiðslunefndar hefur lyfjaverð lækkað umtalsvert á undanförnum tveimur árum. Sé lyfjanotkun síðasta árs reiknuð annars vegar samkvæmt lyfjaverðskrá í desember 2003 og hins vegar samkvæmt lyfjaverðskrá í desember 2005 kemur fram að heildsöluverðmæti lyfja hefur lækkað á undanförnum tveimur árum um 17% (sem samsvarar 1,7 milljarða kr. lækkun útgjalda á einu ári) og smásöluverðmæti um 14% (sem samsvarar 2,4 milljarða kr. lækkun út gjalda á einu ári). Í meðfylgjandi töflu og súluritum kemur nánar fram hvernig þessi lækkun skiptist á einstaka lyfjaflokka. Tekið skal fram að þessir útreikningar ná til sölu allra lyfja síðasta árs sem hafa markaðsleyfi á Íslandi sem seld eru frá lyfjaheildsölu til apóteka eða heilbrigðisstofnana. Lyf sem framleidd eru í apótekum eða flutt eru inn og seld með undanþágu frá markaðsleyfi eru undanþegin. Heildsöluverð er tilgreint án virðisaukaskatts reiknað út frá lyfjaverðskrám en ekki er tekið tillit til afsláttar eða útboðsverðs til apóteka og heilbrigðisstofnana. Smásöluverð er samkvæmt opinberum verðskrám með virðisaukaskatti en ekki er tekið tillit til afsláttar til sjúklinga.

Ef tekið er tillit til þess að um 60% lyfja eru skráð í erlendri mynt og um 40% í íslenskum krónum er talið að meiri hluti þessarar lækkunar eða um 10 prósentustig stafi af sterkri stöðu krónunnar á undanförnum tveimur árum.”

Kemur fram í svari ráðherra að ekki séu horfur á öðru en það takmark náist að 1. september 2006 verði lyfjaverð í heildsölu á Íslandi jafnt meðalheildsöluverði í Noregi, Danmörku og Svíþjóð og að í árslok 2006 verði smásöluverð lyfja hér áþekkt því sem gerist á Evrópska efnahagssvæðinu, einkum í Danmörku og Finnlandi.

Sjá nánar svar ráðherra við fyrirspurn Ástu Möller: http://www.althingi.is/altext/132/s/0794.html

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta