Tillögur um endurskilgreiningu verksviða innan heilbrigðisþjónustunnar
Nefnd um endurskilgreiningu verksviða innan heilbrigðisþjónustunnar hefur skilað heilbrigðismálaráðherra áliti sínu. Sátt varð um tillögurnar í nefndinni. Jón Kristjánsson, þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, skipaði í október 2003 nefnd til þess að gera tillögur um hvernig endurskilgreina mætti verksvið Landspítala - háskólasjúkrahúss og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri með tilliti til breyttra þjóðfélagsaðstæðna. Skilgreina átti sérstaklega verksvið stofnananna sem hátæknisjúkrahúsa landsmanna, kennslustofnana, miðstöðva faglegrar þróunar, veitenda þjónustu á landsvísu og sem svæðisbundinna sjúkrahúsa. Var nefndinni einnig falið að skoða verkaskiptingu milli þessara stofnana og annarra í heilbrigðisþjónustu, svo sem einkarekinna læknastofa.
Nefndin skilaði heilbrigðismálaráðherra skýrslu sinni mánudaginn 6. mars sl., en formaður nefndarinnar var Jónína Bjartmarz, alþingismaður. Auk formanns hafa átt sæti í nefndinni alþingismennirnir Drífa Hjartardóttir og Margrét Frímannsdóttir (varamaður Ágúst Ólafur Ágústsson alþingismaður), Páll Skúlason rektor Háskóla Íslands (varamaður Stefán B. Sigurðsson forseti læknadeildar H.Í.), Elsa B. Friðfinnsdóttir formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Sigurbjörn Sveinsson formaður Læknafélags Íslands, Garðar Garðarsson formaður samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Magnús Pétursson forstjóri LSH (varamaður Jóhannes M. Gunnarsson framkvæmdastjóri lækninga á LSH) og Halldór Jónsson forstjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Einnig átti Magnús Skúlason þáverandi deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu sæti í nefndinni, en hann sat ekki fundi nefndarinnar eftir að hann tók við starfi framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands þann 1. september 2004. Í janúar 2004 tók Stefán B. Sigurðsson sæti Páls Skúlasonar í nefndinni og hefur starfað með nefndinni frá þeim tíma. Starfsmenn nefndarinnar voru Torfi Magnússon læknir og ráðgjafi forstjóra, Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir sviðsstjóri og Ólöf Erna Adamsdóttir ritari forstjóra, öll starfsmenn LSH.
Sjá nánar skýrslu nefndarinnar: Hver geri hvað í heilbrigðisþjónustunni - skýrsla