Hoppa yfir valmynd
10. mars 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisþjónusta framtíðarinnar - ráðstefna

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, setti í dag málþing um heilbrigðisþjónustu í framtíðinni. Heilbrigðisþjónustu næstu ára ræddu menn á grundvelli skýrslu um breytta verkaskiptingu í heilbrigðisþjónustunni, sem unnin var undir forystu Jónínu Bjartmarz, alþingismanns, og á grundvelli frumvarpsdraga þar sem lögð er til veruleg breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu. Að fundinum stóðu heilbrigðisráðuneyti, Landspítali-háskólasjúkrahús og þrjár stofnana Háskóla Íslands; Stofnun stjórnsýslufræða, Hagfræðistofnun og Siðfræðistofnun. Þessi opni fundur er sá fyrsti sem þessir aðilar hafa í hyggju að efna til um álitamál og framtíð íslenskrar heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstefnu frá samfélagslegu og siðfræðilegu sjónarhorni. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, setti fundinn og fjallaði í máli sínu meðal annars um spítalaþjónustu og breyttar áherslur í heilbrigðisþjónustunni og sagði í þessu sambandi m.a.:

Á næstu árum og áratugum munu eiga sér stað miklar breytingar á heilbrigðisþjónustunni. Á það jafnt við um flestar megingreinar læknisfræði, lækningaaðferðir, meðferðarúrræði, lækningatæki, starfsemi heilheilbrigðis-stofnana, verksvið heilbrigðisstétta og aðra þætti er tengjast heilbrigðisstarfsemi. Við sjáum þegar áhrif sameiningar sjúkrahúsanna í Reykjavík þar sem háskólasjúkrahúsið er orðið miðstöð hátækni, þekkingar og sérfræðiþjónustu sem önnur sjúkrahús, heilsugæslustöðvar  og reyndar öll önnur heilbrigðisstarfsemi í landinu tengist með einum eða öðrum hætti.”

Ráðherra fjallaði um umskipti í rekstri Landspítala, um aukna starfsemi á spítalanum í tilteknum greinum og um útgjaldaþróun hjá spítalanum.

“Nýtt sjúkrahús er endahnúturinn, sem við hnýtum á það sameiningarferli sem hófst fyrir fimm árum, sameiningarferli, sem er að skila sér bæði á faglega sviðinu og því fjárhagslega.

Undir sama þaki verður þjónustan betri, hnitmiðaðri og skilvirkari. Hér í Vatnsmýrinni byggist upp stofnun í tengslum við háskólasamfélagið sem verður aflvaki þekkingar og reynslu á sviði heilbrigðisvísinda. Miðstöð lækninga og hjúkrunar fyrir landið allt – stofnun sem við eigum eftir að verða stolt af um langa framtíð.

Á sama tíma og krafan um sem fullkomnasta læknisþjónustu fer vaxandi eru augu sífellt fleiri að opnast fyrir því að einstaklingurinn verður að axla meiri ábyrgð á eigin heilsu. Í því sambandi er Lýðheilsustöð afar mikilvæga stofnun.

Við verðum sjálf, hvert og eitt okkar, að læra að taka meiri ábyrgð á heilsufari okkar. Það er sannfæring mín að á næstu árum, og áratugum, muni einstaklingurinn og ábyrgð hans á eigin heilsu setja í vaxandi mæli svip sinn á umræðuna um heilbrigðismál. Forvarnir, lýðheilsa og ábyrgðin á eigin heilsufari eru hugtökin sem eiga eftir að verða okkur tamari í framtíðinni ásamt því að reka öfluga, sérhæfða spítalaþjónustu.”

 

Sjá nánar: Ræða Sivjar Friðleifsdóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta