Vegna loka samnings við Janus endurhæfingu 1. júní næstkomandi
Vegna yfirlýsingar Janusar endurhæfingar í dag varðandi samning við VIRK Starfsendurhæfingarsjóð og Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) fyrir hönd heilbrigðisráðuneytisins vilja VIRK og ráðuneytið taka fram að þjónusta við þá einstaklinga sem verið hafa í endurhæfingu hjá Janusi samkvæmt samningnum verður áfram tryggð og munu VIRK, heilbrigðisráðuneytið og stofnanir þess vinna að leiðum til að tryggja það á næstu mánuðum. VIRK hefur í dag sent þjónustuþegum samningsins upplýsingar í gegnum „mínar síður“ um að þeim verði tryggð viðeigandi þónusta eftir að samningnum við Janus lýkur 1. júní næstkomandi.
Árið 2023 var gerður þríhliða samningur upp á 320 m.kr. milli VIRK, SÍ og Janusar. Hlutur SÍ var 25% eða um 80 m.kr. á ársgrundvelli á móti 75% hlutar VIRK. Samningurinn var tilraunaverkefni til tveggja ára.
Á samningstímanum hefur komið fram af hálfu forsvarsmanna Janusar að endurhæfingin sem þar fer fram sé að þeirra mati læknisfræðileg endurhæfing og að VIRK, sem hefur fjármagnað 75% samningsins, eigi því ekki að eiga aðkomu að honum. Þetta er einhliða mat af hálfu Janusar og stangast á við faglegt mat sérfræðinga um að endurhæfingin þurfi að vera bæði læknisfræðileg og starfstengd. Engu að síður ákvað ráðuneytið að hefja viðræður við forsvarsmenn Janusar á þessum grundvelli, um að færa þá heilbrigðistengdu endurhæfingu sem Janus hefur sinnt inn í rekstur starfandi heilbrigðisstofnunar þar sem samlegðaráhrif í þjónustunni gætu verið fyrir hendi. Var þá jafnframt gert ráð fyrir að starfsfólk Janusar ætti þess kost að flytja á nýja starfsstöð með verkefninu. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Landspítali og Reykjalundur sýndu þessu öll áhuga þegar eftir því var leitað, en forsvarsmenn Janusar töldu þegar á reyndi að þessi yfirfærsla gæti ekki átt sér stað nema að uppfylltum ýmsum skilyrðum sem ekki náðist saman um í viðræðum.
Í ljósi framangreinds liggur fyrir að samningurinn við Janus sem rennur út 1. júní næstkomandi verður ekki endurnýjaður. Sem fyrr segir verður öll áhersla lögð á það af hálfu heilbrigðisráðuneytisins og VIRK að tryggja þeim einstaklingum sem þar hafa notið þjónustu endurhæfingu við hæfi.