Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 249/2023-Beiðni um endurupptöku

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 249/2023

Miðvikudaginn 1. nóvember 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með beiðni, móttekinni 6. september 2023, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 30. ágúst 2023, þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. apríl 2023 um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 29. mars 2023. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 12. apríl 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. maí 2023. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu 30. ágúst 2023. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefndin ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að kærandi telji niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála vera ranga.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri í október 2022. Þá hafi lögin verið svo að hámarks endurhæfingartímabil hafi verið 36 mánuðir og kærandi hafi klárað 33 mánuði. Þegar ný lög hafi tekið gildi um áramótin 2022/2023 hafi kærandi verið hætt í endurhæfingu og búin að sækja tvisvar til þrisvar sinnum um örorku sem hafi verið synjað af mismunandi ástæðum. Kærandi telji að Tryggingastofnun ríkisins hafi brotið gegn meðalhófsreglu í hennar tilviki.

Kærandi telji einnig að 60 mánaða endurhæfingartímabil eigi ekki við um hana þar sem þessi lög hafi ekki verið sett afturvirkt. VIRK hafi metið það svo að kærandi væri óendurhæfanleg og læknar hafi ítrekað skrifað undir að hún væri ekki vinnuhæf vegna líkamlegra ástæðna. Kærandi telji því kröfu um 60 mánaða endurhæfingartímabil vera brot á meðalhófsreglunni. Kærandi sé ekki að sækjast eftir örorku vegna andlegra vandamála.

Kærandi telji að brotið sé á rétti hennar með að þvinga hana í lengri endurhæfingu sem skili henni ekki út á vinnumarkað. Hún geti unnið í andlegri líðan, sem tengist jaðarpersónuleikaröskun og áfallastreitu, sem öryrki. Það að þvinga kæranda í frekari endurhæfingu muni valda henni verri andlegri og líkamlegri líðan þar sem hún geti ekki stundað endurhæfingu líkamlega. Meðferð á andlegu hliðinni munu ekki skila henni í betra líkamlegt ástand.

Kærandi telji að úrskurðarnefndin þurfi að skoða málið út frá þeirri staðreynd að kærandi sé óvinnufær og hafi ekki getað stundað endurhæfingu vegna líkamlegra sjúkdóma. 

Í nýjum gögnum frá Þraut komi skýrt fram að kærandi sé ekki í aðstöðu til að stunda endurhæfingu.

III.  Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 30. ágúst 2023, þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Byggði synjunin á því að ekki hefði verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd. Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar kom fram að hvorki yrði ráðið af gögnum málsins né eðli veikinda kæranda að frekari endurhæfing gæti ekki komið að gagni.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul.

Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngu mati stjórnvalds.

Fyrir liggur ný greining og endurhæfingarmat frá Þraut, dags. 30. ágúst 2023. Þar kemur meðal annars eftirfarandi fram:

Samantekt á niðurstöðum:

[…]

Í dag er hún oft verkjuð, getur átt erfitt með að klæða yngstu börnin í fötin á morgnana. Virkni hennar fer að mestu í að hugsa um börnin fjögur. Andleg líðan hefur hins vegar verið betri síðari ár. Mat hjá Þraut samrýmist vefjagigt sem dæmist hávirk. Spenna í vöðvum er talsvert aukin, liðleiki allgóður, snerpa þokkaleg.

Sálfræðilegt mat bendir til nokkuð góðrar geðrænnar heilsu almennt. Það koma þó tímabil hjá A þar sem kvíði og depurð aukast og stundum fylgja því skapsveiflur. Hún vonast til að komast fljótlega í ADHD greiningu. Verkjaaðlögun er slök en verkjakvíði er þó ekki áberandi. Einkenni þreytu eru talsvert mikil og draga úr virkni og heilaþoka gæti verið veruleg. Sjálfstraust er ágætt og almenn lífsgæði eru nokkuð góð samkvæmt sjálfsmati.

[…]

Fræðsla, endurhæfing:

1. Fræðsla um vefjagigt og langvinna verki, almennt 8 klst. námskeið hjá Þraut. […]

2. Staða A í dag og síðustu 5-10 ár undirstrikar þá stöðu hennar að hún er ekki á leið á almennan vinnumarkað í bráð. Í dag er aðalhlutverk hennar að ala upp börnin fjögur og halda eigin heilsu í horfinu. Hún er í dag í takmarkaðri aðstöðu til að geta nýtt sér verkjaendurhæfingu. Þannig teljum við að til næstu tveggja ára sé frekari endurhæfing ekki þörf.

Líkamsþjálfun, hreyfing og lífstílsþættir:

  1. B sjúkraþjálfari mun ræða við A um lífsstílsþætti og koma með ábendingar. Þá sérstaklega varðandi líkamshreyfingu.

Geðrænir þættir:

  1. A hefur verið í mikilli sjálfsvinnu um ævina og síðustu ár sem hefur skilað sér í almennt betri andlegri heilsu.

Hún er á leið í ADHD mat hjá SÓL.“

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá uppkvaðningu úrskurðarins, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Ítarleg læknisfræðileg gögn lágu fyrir við upphaflega meðferð málsins og gagnið sem kærandi lagði fram með beiðni um endurupptöku gefur ekki til kynna að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar hafi byggst á röngu mati.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 249/2023 synjað.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 249/2023 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta