Ráðherra opnar ráðstefnu um framkvæmd ályktunar SÞ 1325 um konur, frið og öryggi
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra opnaði í dag ráðstefnu um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi.
Á ráðstefnunni, sem stendur yfir í dag og á morgun, verður fjallað um hvernig tryggja megi betur framgang ályktunar 1325 í störfum í þágu friðar. Þá verður m.a. rætt hvers vegna svo fáar konur eigi aðkomu að friðarferlum.
Í ávarpi sínu greindi utanríkisráðherra frá áherslum íslenskra stjórnvalda, en framkvæmd ályktunarinnar er ein af meginstoðunum í starfi Íslands á sviði friðaruppbyggingar. Þá fór hann yfir þann lærdóm sem hlaust af endurmati á áætlun Íslands um framkvæmd ályktunarinnar sem fór fram árið 2012 og hvernig hann endurspeglast í nýrri áætlun fyrir tímabilið 2013-2016.
Ráðstefnan er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins og Eddu öndvegisseturs, en einnig koma að henni Jafnréttisskóli HSÞ, Norska sendiráðið á Íslandi, Háskóli Íslands, Alþjóðamálastofnun HÍ og landsnefnd UN Women á Íslandi.
Opnunarávarp ráðherra
Áætlun Íslands um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325