Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Samkeppnismat OECD á íslenskri ferðaþjónustu og byggingariðnaði: 438 tillögur til úrbóta

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - myndGolli

Stjórnvöld verða sífellt að vera vakandi gagnvart þróun regluverksins og huga að því hvaða áhrif regluverkið hefur á skilyrði fyrir virkri samkeppni í atvinnulífinu. Íslensk ferðaþjónusta og byggingariðnaður eru þjóðhagslega mjög mikilvægar atvinnugreinar og veita fjölda fólks atvinnu og skipta almenning miklu máli. Þess vegna óskaði ég eftir því að OECD framkvæmdi samkeppnismat á regluverki íslensks byggingariðnaðar og íslenskri ferðaþjónustu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um skýrslu OECD um samkeppnismat íslenskrar ferðaþjónustu og byggingariðnaðar.

Efnahags og framfarastofnunin OECD gerir 438 tillögur til breytinga á gildandi lögum og reglum sem snúa að ferðaþjónustu og byggingariðnaði til að auka samkeppnishæfni greinanna. Þetta er niðurstaða skýrslu OECD umsamkeppnismat sem kynnt var í dag. Tilgangur samkeppnismatsins er að greina gildandi regluumhverfi með tilliti til þess hvort í þeim reglum sem atvinnulífinu er gert að starfa eftir felist samkeppnishindranir eða óþarfa reglubyrði sem ryðja megi úr vegi.

Ef öllum tillögunum sem fram koma í skýrslunni verður hrint í framkvæmt er það mat OECD að það geti skilað auknum efnahagslegum umsvifum sem nemi um 1% af vergri landsframleiðslu Íslands eða yfir 30 milljörðum króna árlega.

Greining OECD leiðir í ljós að til staðar eru fjölmörg tækifæri til þess að bæta regluverkið, skýra það og draga úr óþarfa reglubyrði. Þannig stuðlum við að aukinni samkeppni sem neytendur og atvinnulífið njóta góðs af,“ segir Þórdís Kolbrún.

676 mögulegar samkeppnishindranir

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fer með framkvæmd samkeppnismála í Stjórnarráði Íslands og hafði umsjón með verkefninu sem unnið var í náinni í samvinnu við Samkeppniseftirlitið, önnur ráðuneyti og stofnanir. Í heild voru 632 gildandi lög og reglugerðir yfirfarin sem leiddu í ljós 676 mögulegar samkeppnishindranir í regluverkinu og af þeim gerir OECD 438 tillögur til breytinga á regluverkinu sem eru til þess fallnar að einfalda og gera það sveigjanlegra fyrir fyrirtæki starfandi í þessum tveimur greinum og stuðla að aukinni framleiðni, öflugri viðspyrnu í kjölfar kórónuveirufaraldursins og fjölda nýrra starfa.  

Umfang ferðaþjónustu hefur aukist gríðarlega hér á landi á undanförnum áratug. Í skýrslunni voru teknar til skoðunar 229 mögulegar samkeppnishindranir í regluverkinu og gerðar 121 afmarkaðar tillögur til breytinga. Sérstaklega mikilvægt er um þessar mundir að hlúa að starfsskilyrðum ferðaþjónustu enda hefur sú atvinnugrein orðið hvað harðast fyrir neikvæðum áhrifum kórónuveirufaraldursins. OECD leggur meðal annars til að einfalda leyfisveitingar í ferðaþjónustu, afnema úrelt og of nákvæm forskriftarákvæði í stöðlum um gististaði og að kannaðar verði leiðir til að auka hvata Isavia á Keflavíkurflugvelli til að draga úr kostnaði og auka samkeppnishæfni flugvallarins. 

Byggingarstarfsemi er mikilvæg atvinnugrein í íslensku efnahagslífi. Í skýrslu OECD eru gerðar 316 tillögur til úrbóta á lögum og reglum í byggingariðnaði, meðal annars endurskoðun á byggingarreglugerð þar sem beitt verði markmiðsnálgun sem er önnur nálgun en nú er gert og sem er betur til þess fallin að skapa svigrúm til mismunandi útfærslna og hönnunar og bæta þannig skilyrði fyrir nýskapandi lausnum í húsnæðismálum, einföldun á ýmsum leyfisveitingum og einföldun á ferli við breytingar á skipulagsákvörðunum sveitafélaga og endurskoðun á löggjöf og umgjörð um löggiltar starfsgreinar.

„Allar þessar tillögur verða nú rýndar. Hvað varðar til dæmis umgjörð um löggiltar starfsgreinar mun ég óska eftir því að starfandi starfshópur um endurskoðun á eftirlit með lögum um handiðnað fái þann þátt úttektarinnar til umsagnar og vinni tillögur að næstu skrefum þar sem samráð er tryggt með fulltrúum mismunandi hagaðila,“ segir Þórdís Kolbrún.

Samkeppnismat OECD (Competition Assessment Review) hefur þann tilgang að greina og meta regluverk með tilliti til þess hvort það kunni að hamla samkeppni. Samkeppnishömlur tengdar regluverki geta verið af ýmsum toga. Þar á meðal getur reglubyrði hamlað því að stofnað sé til virkrar samkeppni. Samkeppnismati hefur verið beitt víða um heim. Reynslan hefur sýnt að þar sem ráðist hefur verið í umbætur á regluverki til að auka samkeppni hefur samkeppnishæfni og hagvöxtur aukist í kjölfarið. 

 Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir: 

„Íslenskt atvinnulíf stendur nú frammi fyrir áskorunum af áður óþekktum stærðargráðum. Aðgerðir til þess að viðhalda eða efla virka samkeppni eru afar mikilvægar í kjölfar efnahagsáfalla og stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins á meðan aðgerðir sem vinna gegn virkri samkeppni draga úr efnahagsbata.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta