Drög að reglugerðum á sviði úrgangsmála í samráðsferli
Í samráðsgátt Stjórnarráðsins eru nú til umsagnar drög að þremur reglugerðum á sviði úrgangsmála.
Í fyrsta lagi er um að ræða drög að nýrri reglugerð um raf- og rafeindatækjaúrgang. Markmið hennar er að innleiða að fullu tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/19/ESB um sama efni. Meðal helstu breytinga eru ný flokkun raf- og rafeindatækja og ný markmið um söfnun og endurnýtingu raf- og rafeindatækjaúrgangs.
Í öðru lagi er um að ræða drög að breytingu á reglugerð nr. 609/1996, um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs. Breytingarnar fela það í sér að felld er brott skylda til að nota auðkenningarkerfi umbúða. Ef nota á auðkenningarkerfi umbúða ber að nota það kerfi sem tilgreint er í II. viðauka reglugerðar um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs.
Í þriðja lagi er um að ræða drög að breytingu á reglugerð nr. 738/2003, um urðun úrgangs í því skyni að færa hana til samræmis við gildandi löggjöf.
Óskað er eftir því að athugasemdir við reglugerðardrögin berist í samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 16. október nk.
Drög að reglugerð um raf- og rafeindatækjaúrgang í Samráðsgátt
Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs í Samráðsgátt
Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um urðun úrgangs í Samráðsgátt