Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2015 Forsætisráðuneytið

566/2015. Úrskurður frá 21. janúar 2015

Úrskurður

Hinn 21. janúar 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 566/2015 í máli ÚNU 13120003. 

Kæra og málsmeðferð

Hinn 27. nóvember 2013 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál svohljóðandi kæra frá A:

„Á dagskrá deildarfundar viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands sl. föstudag var liður sam bar heitið:Niðurstöður og tillögur frá Líf og Sál verða kynntar (sjá viðhengi merkt […]“.  Í samræmi við upplýsingalög óska ég eftir að fá afrit af ofangreindri skýrslu og/eða öðrum gögnum frá Lífi og sál sem kynning deildarforseta B byggðist á.  Með tölvupósti dags. í dag 27. nóv. (sjá viðhengi merkt „tölvupósturfráIH27112013“) vísar B í 8. gr. laga nr. 140/2012 og fullyrðir  að umbeðin gögn séu undanþegin upplýsingarétti. Ég tel að þau gögn sem ég fór fram á að fá aðgang að séu ekki undanþegin upplýsingarétti skv. 8. grein laga nr. 140/2012 enda ekki vinnugögn „sem stjórnvöld eða lögaðilar skv. 2. og 3. gr. hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls" heldur skýrsla gerð af þriðja aðila um stöðu mála.“

Í viðhengi var bréf frá B, dags. 27. nóvember 2013, og segir þar: „Umbeðin gögn eru undanþegin upplýsingarétti samkvæmt 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.“

Eftir nokkur bréfaskipti við kæranda var HÍ ritað bréf og umsagnar leitað. Svar barst með bréfi, dags. 29. ágúst 2014. Þar segir m.a.:

„…Áðurnefnd skýrsla var vegna athugunar á innra starfsumhverfi viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands. Allir starfsmenn sem teknir voru í viðtal vegna athugunarinnar skrifuðu undir yfirlýsingu þar sem m.a. kom fram að viðtalið við þá væri hluti af áðurnefndri athugun og að í skýrslunni sem send yrði verkbeiðanda myndi nafn þeirra ekki koma fram og ekki yrði heldur vitnað beint í frásögn þeirra. Skýrslan var því byggð upplýsingum sem voru gefnar í trausti þess að farið yrði með þær sem trúnaðarmál. Reynt var að gæta þess að ekki yrði hægt að rekja svör til einstaklinga, en þó var ekki hægt að koma í veg fyrir að staðkunnugir gætu getið sér til um hvaðan einstaka viðhorf kæmu. Það skal tekið fram að enginn starfsmaður fékk aðgang að ofangreindri skýrslu heldur var niðurstaða hennar kynnt fyrir þeim á fundi. 

Í skýrslunni kemur fram niðurstaða vinnustaðagreiningar en þær eru greiningartæki til að kanna hug starfsmanna til vinnustaðar og er m.a. ætlað að greina velferð starfsmanna og líðan á vinnustað. Þær eru tæki sem hjálpa til við að búa til gott vinnuumhverfi og bregðast við því sem betur má fara svo starfsmönnum líði sem best á vinnustað sínum. Slíkar greiningar eru mjög mikilvægar fyrir vinnustaði, bæði á almennum vinnumarkaði og hinum opinbera. Mikilvægt er fyrir stofnanir ríkisins að hægt sé að gera slíkar greiningar án þess að eiga á hættu að þau gögn sem þar verða til verði gerð opinber enda getur ýmislegt komið þar fram sem eðli máls samkvæmt er mjög viðkvæmt. Greiningar sem þessar ná ekki tilgangi sínum nema fullur trúnaður ríki. Mikilvægt er að hjá stofnunum ríkisins sé stunduð nútíma mannauðsstjórnun og að þær séu samkeppnishæfar um starfsmenn og geti laðað til sín og haldið hjá sér hæfu starfsfólki. Starfsmenn þurfa að hafa ákveðið öryggi í starfi og mikilvægt er að trúnaður sé varðveittur í vinnusambandinu. Slíkt væri ekki til staðar ef skylt væri að afhenda gögn sem þessi og þá væri mikil hætta á að starfsemi stofnana ríkisins kæmist í uppnám væri það niðurstaðan og þeim jafnvel gert erfitt að sinna lögbundnu hlutverki sínu. 

Samkvæmt framangreindu getur skýrsla sú sem A óskar eftir aðgangi að talist vinnugagn í skilningi 8. gr. Þá er ljóst að skýrslan  varðar starfssamband starfsmanna viðskiptafræðideildar við Háskóla Íslands. Því er það afstaða Háskóla Íslands að upplýsingalögin taki ekki til hennar, sbr. 1. mgr. 7. gr. og 8. gr. laganna. Auk þess er í áðurnefndri skýrslu umfjöllun um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari og er því óheimilt að veita honum aðgang að henni, sbr. 9. gr. laganna. Sjá einnig sjónarmið t.d. í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 458/2012.

Það skal tekið fram að starfslok A hjá Háskóla Íslands voru 1. september 2013 en þá var endanlegt uppgjör til hans vegna starfs hans. Skýrsla sú sem hann biður um aðgang að var unnin í október og nóvember 2013. A var því ekki starfsmaður Háskóla Íslands á þeim tíma. Ekki var tekið viðtal við hann við gerð hennar. Skýrslan varðar ekki upplýsingar um A í skilningi 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.
  
Samkvæmt framangreindu er því ljóst að A á ekki rétt á aðgangi að áðurnefndri skýrslu samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012.“

Kæranda var boðið að tjá sig um framangreinda umsögn Háskóla Íslands. Svar barst með tölvupósti, dags. 18. september 2014. Þar segir:

„Ljóst er að beiðni minni um gögn var hafnað á grundvelli 8. greinar upplýsingalaga nr. 140/2012 og einskis annars (sbr. "Umbeðin gögn eru undanþegin upplýsingarétti samkvæmt 8. grein upplýsingalaga nr. 140/2012"). Í 8. greininni kemur fram að vinnugögn teljist þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar skv. 2 og 3. gr. hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Skýrsla sú sem ég óskaði eftir er rituð af Sálfræðiþjónustunni Líf og sál en ekki HÍ eins og viðurkennt er í bréfi HÍ.  Skýrslan getur því ekki talist vinnugagn í skilningi 8. greinar upplýsingalaga.  Skólanum ber því að afhenda mér skýrsluna sbr. 5. grein laganna. Tilvitnun í 9. grein, sem ekki var notuð sem rök fyrir upphaflegri höfnun, fellur auk þess um sjálfa sig vegna þess að "... í skýrslunni sem send yrði verkbeiðanda myndi nafn þeirra ekki koma fram og ekki yrði heldur vitnað beint í frásögn þeirra. Skýrslan er því byggð á upplýsingum sem voru gefnar í trausti þess að farið yrði með þær sem trúnaðarmál. Reynt var að gæta þess að ekki yrði hægt að rekja svör til einstaklinga, en þó var ekki hægt að koma í veg fyrir að staðkunnugir gætu getið sér til um hvaðan einstaka viðhorf kæmi". 

Vek sérstaka athygli á trúnaðinum gagnvart þeim sem gáfu upplýsingarnar og lokum síðustu setningar í tilvitnuninni. Ef staðkunnugir gætu getið sér til um hvaðan einstaka viðhorf kæmi þá á það bæði við hvað varðar verkkaupa, sem lofaði trúnaði (og ber því að tryggja hann gagnvart viðkomandi), og mig. Þessi rök fyrir höfnun aðgangs að skýrslunni halda því ekki vatni. 

Þess utan þá kveður 9. greinin á um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Ofangreind skýrsla tekur  hvorki á einka- eða fjárhagsmálefnum einstaklinga.

Hvenær starfslok mín hjá HÍ voru skiptir heldur ekki máli enda skylt að veita almenningi þessi gögn skv. 5. gr. upplýsingalaga. “

Með bréfi, dags. 30. október 2014, var þess m.a. óskað að Háskóli Íslands tilgreindi hvar í skýrslunni hann teldi vera persónuupplýsingar sem sanngjarnt væri og eðlilegt að færu leynt. Svar barst með bréfi, dags. 14. nóvember 2014. Þar segir m.a.:

„Í 1. mgr. 7. gr. laganna kemur fram að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Ljóst er að ofangreind skýrsla inniheldur upplýsingar sem varða starfssamband starfsmanna viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands enda þar fjallað um starfsumhverfi þeirra. Eins og fram kom í fyrra bréfi eru vinnustaðagreiningar greinartæki til að kanna hug starfsmanna til vinnustaðar og er m.a. ætlað að greina velferð starfsmanna og líðan á vinnustað. Þær eru tæki til að hjálpa til við að búa til gott vinnuumhverfi og bregðast við því sem betur má fara. Þessar greiningar eru mjög mikilvægar fyrir vinnustaði og þær ná ekki tilgangi sínum nema fullur trúnaður ríki. Starfsmenn þurfa að hafa ákveðið öryggi í starfi og mikilvægt er að ákveðinn trúnaður sé varðveittur í vinnusambandinu. Þeim starfsmönnum sem tóku þátt í vinnustaðagreiningunni var heitið trúnaði. Upplýsingar sem hafðar eru eftir þeim í skýrslunni voru gefnar í trúnaði og má ætla að það loforð hafi haft áhrif á það hvernig þeir ákváðu að tjá sig um það sem þeir voru spurðir um. Ekki er hægt að útiloka að vinnustaðagreiningar geti leitt til ákvarðana um réttindi og skyldur starfsmanna, þ.e. að rannsókn hefjist vegna hugsanlegs brots á starfskyldum starfsmanns eða starfsmanna. Samkvæmt framangreindu inniheldur skýrslan upplýsingar sem varða starfssamband starfsmanna viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands og er því óheimilt að veita aðgang að henni samkvæmt 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga. Skýrslan í heild varðar starfssamband framangreindra starfsmanna og er því óheimilt að veita aðgang að hluta hennar samkvæmt 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.

Í 9. gr. laganna segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Eins og kom fram í fyrra bréfi var skýrsla sú sem fjallað er um í þessu í máli vegna athugunar á innra starfsumhverfi viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands og fengust upplýsingarnar í viðtölum við starfsmenn deildarinnar sem gefnar voru í trausti þess að farið yrði með þær sem trúnaðarmál. Þó reynt væri að gæta þess að ekki væri hægt að rekja svör til einstaklinga er ekki hægt að koma í veg fyrir að staðkunnugir geti getið sér til um hvaðan einstaka viðhorf koma en það kæmi sér mjög illa fyrir deildina og háskólann í heild ef skýrslan yrði gerð opinber. Líta ber til þess að starfsmönnum sem tóku þátt í vinnustaðagreiningunni var heitið trúnaði eins og áður hefur komið fram. Þessar upplýsingar voru því gefnar í trúnaði og má ætla að það loforð hafi haft áhrif á það hvernig starfsmenn viðskiptafræðideildar ákváðu að tjá sig um það sem þeir voru spurðir um. Í vinnustaðagreiningum kemur fram persónuleg afstaða starfsmanna til ýmissa hluta sem eru fyrir þá viðkvæmar upplýsingar eðli máls samkvæmt. Upplýsingarnar í skýrslunni eru því þess eðlis að sanngjarnt og eðlilegt er að þær fari leynt samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Einnig er ljóst að hagsmunir þeirra starfsmanna sem tóku þátt í vinnustaðagreiningunni af því að skýrslan verði ekki gerð opinber vega þyngra en þeir hagsmunir sem meginreglu 5. gr. er ætlað að tryggja. Mikill meirihluti ofangreindrar skýrslu inniheldur upplýsingar sem óheimilt er að veita aðgang að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Eini hluti skýrslunnar sem hugsanlega er heimilt að veita aðgang að samkvæmt 9. gr. er inngangur hennar en hann er mjög lítill hluti skjalsins í heild. Þær upplýsingar sem halda ber eftir eru því miklu meira en helmingur skýrslunnar. Því er ekki heimilt að veita aðgang að skýrslunni, sbr. athugasemdir með 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins. 

Áréttað er að starfslok A voru 31. júlí 2013 en þá rann tímabundinn ráðningarsamningur hans út. Ofangreind skýrsla var unnin í október og nóvember 2013. A var því ekki starfsmaður Háskóla Íslands á þeim tíma og ekki var tekið viðtal við hann við gerð hennar.“ 

Eftir samtal við kæranda hinn 25. nóvember 2014 barst, síðar sama dag, svohljóðandi tölvupóstur frá honum: 

„Vísa í meðfylgjandi tölvupóst sem áður hefur verið sendur nefndinni. Í ljósi þess að mín er getið í umræddri skýrslu (sem fyrrverandi starfsmanns) fer ég fram á að fá afrit af henni bæði á grundvelli 5. og 14. greinar upplýsingalaga.“

Hinn 27. desember kom nýr tölvupóstur frá kæranda þar sem hann kveðst hafa fengið afrit af bréfi sem lögfræðingur starfsmannasviðs HÍ  hafi sent umboðsmanni Alþingis. Hann vitnar í bréfið, sem hann telur bera með sér að vísað sé til skýrslu Lífs og Sálar ehf. Hann segir m.a.:

„Ég þarf að bregðast við ofangreindu, þ.e. senda umboðsmanni Alþingis athugasemdir fyrir 5. jan. nk. Til þess að geta gert það þarf ég að fá afrit (eða eintak) af skýrslu Lífs og Sálar. Hér er þá komin viðbótarástæða fyrir því að ég fái afrit af henni.“

Niðurstaða

Mál þetta varðar skýrslu, dags. 20. nóvember 2013, sem unnin var af fjórum sérfræðingum hjá sálfræðistofunni Lífi og sál ehf., fyrir Háskóla Íslands. Hún heitir: Skýrsla vegna athugunar á innra starfsumhverfi viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands (HÍ).

Af hálfu kæranda hefur í fyrsta lagi verið vísað til 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þar segir að sé þess óskað sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varði tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildi sé óskað aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Þá hefur kærandi vísað til þess að hann sé sá fyrrverandi starfsmaður sem fjallað sé um í framangreindri skýrslu og eigi því einnig sérstakan og ríkari aðgangsrétt samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga. 

Í 1. mgr. 14. gr. laganna segir að skylt sé, verði þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum hafi þau að geyma upplýsingar um hann. Í athugasemdum við þessa grein, í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 140/2012, segir að sú regla sem fram komi í greininni byggist á þeirri óskráðu meginreglu íslensks réttar að einstaklingar og lögaðilar eigi rétt til aðgangs að gögnum í vörslu stjórnvalda sem varði þá sérstaklega enda standi reglur um þagnarskyldu því ekki í vegi.  Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur engum vafa undirorpið að í skýrslunni sé fjallað sérstaklega um kæranda eins og hann heldur í  raun fram og því beri að afgreiða kæru hans á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. upplýsingalaga gildir ákvæði 1. mgr. sömu lagagreinar ekki um gögn sem undanþegin eru upplýsingarétti samkvæmt 6. gr., þ. m.t. vinnugögn. Háskóli Íslands hefur vísað til þess að um vinnugagn sé að ræða. Af því tilefni þykir rétt að fara nokkrum orðum um ákvæði laganna um slík gögn.

Í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga segir að vinnugögn teljist þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar skv. 2. og 3. gr. hafi ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Jafnframt segir að hafi gögn verið afhent öðrum teljist þau ekki lengur til vinnugagna nema þau hafi einvörðungu verið afhent eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Í athugasemdum við 8. gr., í því frumvarpi sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012, segir m.a.:

„Af orðalagi 1. mgr. 8. gr. leiðir að til að skjal teljist vinnugagn þarf almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þarf þannig í reynd að vera undirbúningsgagn, það skal ritað eða útbúið af starfsmönnum stjórnvaldsins (eða lögaðilans) sjálfs og má ekki hafa verið afhent öðrum. Fyrsta skilyrðið þarfnast ekki sérstakra skýringa en er þó mjög þýðingarmikið við afmörkun hugtaksins. Í öðru skilyrðinu felst það m.a. að gögn sem útbúin eru af utanaðkomandi sérfræðingum, svo sem verktökum, fyrir stjórnvald teljast ekki til vinnugagna í skilningi 8. gr. frumvarpsins.“

Sú skýrsla sem mál þetta varðar uppfyllir ekki það skilyrði að hafa verið rituð eða útbúin af starfsmönnum Háskólans sjálfs og verður, þegar af þeirri ástæðu, ekki á það fallist að líta megi á hana sem vinnugagn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Af hálfu HÍ hefur einnig verið vísað til þess að skýrslan hafi að geyma upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, og falli undir 9. gr. laganna. Þar sem kærandi byggir mál sitt á 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 getur 9. gr. laganna hins vegar ekki komið til skoðunar heldur ber að taka tillit til þeirra undantekningarákvæða um aðgangsrétt sem í 14. gr. er að finna, sbr. í þessu tilviki ákvæði 3. mgr. 14. gr. þ.e. hafi gögn „jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum“ en á þessum grundvelli er heimilt að synja um aðgang að gögnum falli beiðnin undir ákvæði 14. gr. upplýsingalaga. Niðurstaða máls verður þannig ekki byggð bæði á undantekningarákvæðum 14. gr. og 9. gr. í senn.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið þá skýrslu sem málið varðar. Í inngangi að henni segir m.a.: 

„Öllum starfsmönnum deildarinnar 35 að tölu voru boðin einstaklingsviðtöl við starfsmenn Lífs og sálar og þáðu 34 það. Í viðtölunum undirrituðu starfsmennirnir skjal þar sem fram kom að þeim væri kunnugt um tilgang viðtalsins, hlutverk undirritaðra og meðferð þeirra upplýsinga sem aflað yrði (sjá fylgiskjal 1). Í fylgiskjali 2 gefur að líta þær spurningar sem lagðar voru fyrir starfsmenn. […] Hér á eftir er stuttur útdráttur úr því helsta sem fram kom í viðtölum við starfsmenn viðskiptafræðideildar. Reynt er að gæta þess að ekki sé hægt að rekja svör til einstaklinga, en þó er ekki hægt að koma í veg fyrir að staðkunnugir geti getið sér til um hvaðan einstaka viðhorf koma. Sama á við um gagnrýni í garð einstaklinga. Engin nöfn eru nefnd í skýrslunni, en staðkunnugir munu vita við hverja er átt í nokkrum tilvikum. Af þessum sökum er sérstaklega hvatt til að farið verði með efni skýrslunnar sem trúnaðarmál.“

Sem fyrr sagði er heimilt samkvæmt 3. mgr. 14. gr. „að takmarka aðgang aðila að gögnum hafi þau jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum.“ Að mati úrskurðarnefndar eru umræddar upplýsingar um deildar-/sviðsforseta, einstaka stjórnendur og rekstrarstjóra hvorki viðkvæmar persónuupplýsingar né að öðru leyti þess eðlis að telja megi hagsmuni þeirra af því að upplýsingunum sé haldið leyndum, vega þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að skýrslunni. 

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er almennt ekki, af þeim upplýsingum einum sem koma fram í skýrslunni, þ.e. án þess að viðbótarupplýsingar komi til, unnt að bera kennsl á eða rekja einstök efnisatriði til tiltekinna nafngreindra einstaklinga, jafnvel þótt einhverjir staðkunnugir kunni að geta getið sér til um slík tengsl. Á stöku stað eru þó slíkar upplýsingar, ekki aðeins þar sem fjallað er um fyrrverandi starfsmann, sem ljóslega er kærandi sjálfur, heldur einnig þar sem fjallað er um deildar-/sviðsforseta, einstaka stjórnendur og rekstrarstjóra. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að efni skýrslunnar sé þess eðlis að þær upplýsingar sem þar koma fram sé ekki unnt að fella undir undantekningarákvæði 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál þykir rétt að taka fram að loforð stjórnvalds um trúnað um gögn í vörslu þess gengur ekki framar þeim ákvæðum upplýsingalaga sem leiða til þess að aðgangur skuli heimilaður, þ.e.a.s. að loforð stjórnvalda eru marklaus fari þau í bága við ákvæði upplýsingalaga um upplýsingaskyldu þeirra.

Af hálfu HÍ hefur loks verið vísað til þess að samkvæmt ákvæðum 7. gr. upplýsingalaga taki aðgangsréttur almennings ekki til  málefna starfsmanna. Í þeirri grein er gert ráð fyrir að réttur almennings geti náð til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna, þó ekki gagna í málum varðandi umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Það er skilningur úrskurðarnefndar um upplýsingamál að átt sé við gögn er hafi að geyma persónuupplýsingar um einstaka starfsmenn. Hefur þegar verið tekin afstaða til aðgangs að slíkum upplýsingum í skýrslunni og engu við það að bæta. Þá má nefna að þær undantekningar frá 1. mgr., sem eru í 2. mgr., varða aðeins nánar tilgreindar upplýsingar og þar sem sú skýrsla sem mál þetta varðar, hefur ekki að geyma slíkar upplýsingar, þarfnast það ekki frekari umfjöllunar. Telja verður, eins og fyrr segir, að hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að skýrslunni vegi þyngra en hagsmunir þeirra starfsmanna sem sérfræðingar Lífs og sálar ehf. ræddu við, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefnd upplýsingamála að Háskóla Íslands sé, samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, skylt að veita kæranda aðgang að skýrslu, dags. 20. nóvember 2013, sem unnin var af fjórum sérfræðingum hjá sáfræðistofunni Lífi og sál, ehf., fyrir Háskóla Íslands.

Úrskurðarorð

Háskóla Íslands ber að verða við beiðni A um að fá aðgang að skýrslu, dags. 20. nóvember 2013, sem unnin var af fjórum sérfræðingum hjá Lífi og sál, sálfræðistofu ehf., fyrir Háskóla Íslands.


Þorgeir Ingi Njálsson, varaformaður

Sigurveig Jónsdóttir                                  

Friðgeir Björnsson


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta