Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2015 Forsætisráðuneytið

568/2015. Úrskurður frá 21. janúar 2015

Úrskurður

Hinn 21. janúar 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 568/2015 í máli ÚNU 14050011. 

Kæra og málsatvik

Með erindi  27. maí 2014 kærði A afgreiðslu forsætisráðuneytisins á beiðni hans um aðgang að tillögum ráðgjafahóps sem forsætisráðherra skipaði 27. nóvember 2013 til að gera tillögur um einstaka skref og áætlun um losun fjármagnshafta til ráðherranefndar um efnahagsmál. 

Í kærunni er rakið að kærandi hafi 7. maí 2014 óskað eftir aðgangi að umræddum tillögum. Beiðnin hafi verið reist á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Yrði ráðuneytið ekki að fullu við beiðninni væri óskað rökstuðnings og aðgangi að öðrum hlutum tillagnanna en þeim sem ráðuneytið teldi heimilt og nauðsynlegt að undanskilja aðgangi. Óskað var upplýsinga um hvort tillögunum hefði, í heild eða að hluta, verið miðlað víðar en til ráðherranefndar um efnahagsmál, og þá hvert og í hvaða tilgangi. Með beiðninni fylgdi greinargerð fjármála- og efnahagsráðuneytisins um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta frá 17. mars 2014 þar sem fjallað var um umræddan ráðgjafahóp. 

Forsætisráðuneytið svaraði erindinu 15. maí 2014 og synjaði beiðninni. Vísað var til þess að samkvæmt 1. tölulið 6. gr. upplýsingalaga væru fundargerðir ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreinar á ráðherrafundum og gögn sem tekin hefðu verið saman fyrir slíka fundi undanþegin rétti almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með vísan til þessa „sbr. jafnframt til hliðsjónar“ 3. tölulið 10. gr. sömu laga var beiðninni hafnað. 

Í kærunni er bent á að forsætisráðuneytið hafi ekki svarað því hvort umbeðnum gögnum hafi verið miðlað víðar heldur en til ráðherranefndar um efnahagsmál, og þá hvert og í hvaða tilgangi. Af dómaframkvæmd verði ráðið að þótt gögn sem hafi verið tekin saman fyrir ráðherrafundi kunni að vera undanþegin meginreglunni um aðgang á grundvelli 1. töluliðar 6. gr. upplýsingalaga geti sú undanþága fallið niður sé gögnunum miðlað víðar. Vísar kærandi í þessu samhengi til dóms Hæstaréttar frá 14. mars 2002 í máli nr. 397/2001. Þá færi forsætisráðuneytið engin rök fyrir því að undanþága 3. töluliðar 10. gr. upplýsingalaga eigi við, en kærandi eigi eðli málsins samkvæmt erfitt með að meta hvort svo sé án aðgangs að umbeðnum gögnum.  

Málsmeðferð

Með bréfi 3. júní 2014 var forsætisráðuneytinu gefinn kostur á að veita úrskurðarnefndinni umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun. Forsætisráðuneytið brást við erindinu með bréfi 24. júní 2014. Þar er því hafnað að undanþága frá upplýsingarétti almennings á grundvelli 1. töluliðar 6. gr. upplýsingalaga falli niður þótt hinum umbeðnu gögnum kunni að hafa verið miðlað víðar en til ráðherra. Í umsögn ráðuneytisins kemur fram að unnið sé að áætlun um afnám gjaldeyrishafta samkvæmt sérstakri áætlun sem samþykkt hafi verið í ríkisstjórn og í ráðherranefnd um efnahagsmál. Eins og fram komi í greinargerð fjármála- og efnahagsráðuneytisins um framgang þeirrar áætlunar 17. mars 2014 hafi stjórnvöld komið upp sérstöku stjórnskipulagi sem samanstandi auk ríkisstjórnar og ráðherranefndar um efnahagsmál af sérstakri stýrinefnd sem fari með yfirstjórn verkefnisins, verkefnisstjórn sem starfi á vegum stýrinefndar og samráðsnefnd þingflokka þar sem sæti eigi fulltrúar allra flokka á Alþingi. Loks hafi umræddur hópur utanaðkomandi ráðgjafa unnið að tillögum þeim sem óskað sé aðgangs að. Einungis framangreindir aðilar hafi fengið kynningu á tillögum ráðgjafanna til ráðherranefndarinnar. Sú meðferð gagnanna haggi því ekki að gögnin falli undir undantekningarákvæði 1. töluliðar 6. gr. upplýsingalaga, enda hafi kynning tillagnanna verið bundin við þau stjórnvöld og aðila í stjórnkerfinu sem nauðsynlega þurfi á upplýsingunum að halda, sbr. áætlun um afnám hafta. Að mati ráðuneytisins veiti framangreint lagaákvæði fullnægjandi heimild til að synja um aðgang að umbeðnum gögnum. 

Í umsögn ráðuneytisins kemur einnig fram að synjun um aðgang verði þó jafnframt, ef á reyni, byggð á ákvæðum 3. og 5. tölulið 10. gr. upplýsingalaga, sbr. einnig 1. tölulið sama ákvæðis. Óumdeilt sé að gríðarlegir efnahagslegir hagsmunir séu í því fólgnir fyrir íslenska ríkið, og þar með almenning, að vel takist til við afnám gjaldeyrishafta. Ein forsenda þess að það megi takast sé að stjórnvöldum séu tryggð eðlileg starfsskilyrði til verksins. Mikilvægur þáttur í því sé að stjórnvöld sem að málinu komi geti í trúnaði skipst á gögnum og tillögum sem málið varða. Umræddar tillögur ráðgjafahóps ráðherranefndar um efnahagsmál um mögulegar leiðir til úrlausnar séu nú til athugunar af hálfu stjórnvalda og skoðist þar sem mikilvæg trúnaðargögn. Gögnin falli þannig ótvírætt undir takmörkunarheimild 3. töluliðar 10. gr. upplýsingalaga þar sem mælt sé fyrir um heimild til að takmarka aðgang að gögnum sem hafi að geyma upplýsingar um efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins, enda krefjist almannahagsmunir þess. Eðli verkefnisins, um afnám gjaldeyrishafta, sé slíkt að það gæti veikt stöðu og hagsmuni íslenskra stjórnvalda, m.a. í viðræðum við aðila sem hagsmuna eiga að gæta á gjaldeyrismarkaði, yrðu fyrirætlanir stjórnvalda og mögulegar leiðir til úrlausnar, sbr. hinar umbeðnu tillögur ráðgjafanna, á almannavitorði. Slíkt gæti einnig rýrt gildi tillagnanna sem slíkra með þeim hætti að ólíklegra yrði talið að þær myndu skila tilætluðum árangri, ef opinberar væru, ef ákvörðun yrði tekin um að fylgja þeim. Það sé mat ráðuneytisins að upplýsingarnar falli þannig einnig undir takmörkunarheimild 5. töluliðar 10. gr. upplýsingalaga. 

Í þessu samhengi bendir ráðuneytið á að í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga segi í athugasemdum við 10. gr. um 5. tölulið að með ráðstöfunum á vegum hins opinbera sé m.a. átt við fyrirhugaðar ráðstafanir í fjármálum, svo sem aðgerðir í gjaldeyrismálum. Ákvæðið geti þannig í sumum tilvikum verndað sömu hagsmuni og ákvæði 3. töluliðar 10. gr. upplýsingalaga. 
Loks segir í umsögn forsætisráðuneytisins að efnahagslegir hagsmunir íslenska ríkisins og almennings af því að vel takist til við afnám gjaldeyrishafta séu það veigamiklir að líta megi svo á að þeir varði öryggi og sjálfstæði ríkisins í skilningi 1. töluliðar 10. gr. upplýsingalaga. Mikilvæg forsenda þess að unnt sé að ná farsælli niðurstöðu sé að stjórnvöldum séu tryggð eðlileg starfsskilyrði til verksins. Beiting lagaheimilda til takmörkunar á upplýsingarétti almennings sé nauðsynleg í því skyni. 

Þann 8. júlí 2014 gaf úrskurðarnefndin kæranda færi á að koma á framfæri athugasemdum vegna umsagnar forsætisráðuneytisins. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni 30. júlí 2014. Bent er á að í umsögn forsætisráðuneytisins komi fram að hin umbeðnu gögn hafi verið kynnt fyrir ríkisstjórn og ráðherranefnd um efnahagsmál en auk þess sérstakri stýrinefnd sem fari með yfirstjórn áætlunar um afnám gjaldeyrishafta, verkefnisstjórn sem starfi á vegum stýriefndarinnar og samráðsnefnd þingflokka þar sem sæti eigi fulltrúar allra flokka á Alþingi. Þá komi fram í greinargerð fjármála- og efnahagsráðuneytisins 17. mars 2014 að í umræddri stýrinefnd sitji meðal annarra seðlabankastjóri og að nefndarfundi sæki meðal annarra sérfræðingar úr Seðlabankanum og að í umræddri verkefnisstjórn sitji meðal annarra fulltrúar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Samkvæmt þessu hafi tillögunum verið miðlað til ýmissa aðila utan ríkisstjórnar og stjórnarráðsins. Að mati kæranda leiði af því að tillögurnar séu ekki lengur undanþegnar upplýsingarétti almennings á grundvelli 1. töluliðar 6. gr. upplýsingalaga. Kærandi eigi erfitt að meta hvort hin umbeðnu gögn séu þess eðlis að þau verði undanþegin aðgangi á grundvelli 1., 3. eða 5. töluliða 10. gr. upplýsingalaga. Bent er á að um undanþáguákvæði sé að ræða sem verði aðeins beitt þegar nauðsyn krefji og þá aðeins um þá hluta gagna sem þau eigi við um. Þá hafi forsætisráðuneytið ekki vísað til 1. eða 5. töluliða 10. gr. upplýsingalaga í ákvörðun sinni um að synja kæranda um aðgang að hinum umbeðnu gögnum. 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi tilefni til að óska frekari skýringa frá forsætisráðuneytinu varðandi þau sjónarmið sem fram höfðu komið og sendi ráðuneytinu því bréf, dags. 20. október 2014. Svar ráðuneytisins til nefndarinnar barst 10. nóvember 2014. Ekki er nauðsynlegt að gera sérstaka grein fyrir þeim að öðru leyti en því sem fram kemur í niðurstöðukafla hér á eftir.

Niðurstaða

1.

Í beiðni kæranda til forsætisráðuneytisins 7. maí 2014  var óskað eftir aðgangi að „tillögum ráðgjafahóps sem forsætisráðherra skipaði 27. nóvember 2013 til að gera tillögur um einstök skref og áætlun um losun fjármagnshafta til ráðherranefndar um efnahagsmál“. Eins og að framan greinir var kæranda synjað um aðgang að hinum umbeðnu tillögum með vísan til 1. töluliðar 6. gr. upplýsingalaga en einnig með „hliðsjón“ af 3. tölulið 10. gr. laganna. Við meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni hefur ráðuneytið einnig vísað til 1., 3.  og 5. töluliða sömu lagagreinar. Forsætisráðuneytið hefur látið úrskurðarnefndinni í té glærukynningu ráðgjafahópsins.

Í athugasemdabréfi 10. nóvember 2014 til úrskurðarnefndarinnar kemur fram sú afstaða að beiðni kæranda hafi í raun aðeins lotið að ákveðnum hlutum glærukynningarinnar. Réttur kæranda til aðgangs á gögnum er reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga en þar er fjallað um rétt almennings til aðgangs að „gögnum“. Glærukynningin sem úrskurðarnefndinni var látin í té með bréfi forsætisráðuneytisins, dags. 24. júní 2014,  ber heitið „Losun hafta á fjármagnshreyfingar. Tillögur ráðgjafahóps til ráðherranefndar um efnahagsmál“. Í niðurlagi bréfsins segir eftirfarandi: „Meðfylgjandi í sérstöku umslagi, til skoðunar fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál eingöngu, eru þau trúnaðargögn sem beðið er aðgangs að í málinu.“ Úrskurðarnefndin telur að miða verði við að hin kærða ákvörðun hafi lotið að umræddri glærukynningu allri. Með vísan til þess verður litið svo á að mál þetta lúti að því hvort ráðuneytinu hafi verið skylt að veita kæranda aðgang að glærukynningunni „Losun hafta á fjármagnshreyfingar. Tillögur ráðgjafahóps til ráðherranefndar um efnahagsmál“ í heild eða að hluta. 

2.

Synjun forsætisráðuneytisins var fyrst og fremst reist á 1. tölulið 6. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt ákvæðinu tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi. Eins og greinir í athugasemdum í frumvarpi til upplýsingalaga gildir ákvæðið um alla fundi þar sem saman koma tveir eða fleiri ráðherrar hvort heldur er á formlegum ríkisstjórnarfundi eða við aðrar aðstæður. Fyrir liggur að hin umbeðna glærukynning var útbúin fyrir ráðherranefnd um efnahagsmál. Á hinn bóginn er ljóst að gagninu hefur einnig verið dreift til sérstakrar stýrinefndar sem fer með yfirstjórn þess verkefnis að afnema gjaldeyrishöft, verkefnisstjórnar sem starfar fyrir stýrinefndina sem og samráðsnefndar þeirra þingflokka sem eiga sæti á Alþingi. 

Í dómi Hæstaréttar frá 14. mars 2002 í máli nr. 397/2001 fjallaði rétturinn um hvaða þýðingu það hefði að sú takmörkunarregla sem nú kemur fram í 1. tölulið 6. gr. upplýsingalaga hefði þegar gagn, sem tekið hefði verið saman fyrir ráðherrafund, hefði verið sent til annarra aðila en gagnið var upphaflega ætlað. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að undanþágureglan hefði ekki lengur átt við um gagnið sem málið laut að eftir að stjórnvöld höfðu í verki fengið því annað hlutverk og þannig í raun veitt að því ríkari aðgang en upphaflega var ætlunin. 

Glærukynning sú sem mál þetta lýtur að var tekin saman fyrir ráðherranefnd um efnahagsmál en síðar dreift til fleiri aðila sem ekki eru taldir upp í 1.  tölulið 6. gr. upplýsingalaga. Kynningunni var því fengið annað hlutverk en að vera aðeins kynning fyrir ráðherranefndina. Var forsætisráðuneytinu af þessum sökum ekki heimilt að takmarka aðgang að kynningunni á grundvelli 1. töluliðar 6. gr. upplýsingalaga. 

3.

Í ákvörðun forsætisráðuneytisins 15. maí 2014 var synjað um afhendingu kynningarinnar með vísan til 3. töluliðar 10. gr. upplýsingalaga „til hliðsjónar“. Þá hefur ráðuneytið auk þess bent úrskurðarnefndinni á að heimilt hafi verið að synja um aðgang á grundvelli 1. og 5. töluliðar sömu lagagreinar. Umrædd lagaákvæði eru svohljóðandi: 

Heimilt er að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um:1. öryggi ríkisins eða varnarmál,[...]
3. efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins,
[...]
5. fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum hins opinbera ef þau yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði.

Þessu til rökstuðnings segir eftirfarandi í bréfi ráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar:

„Óumdeilt er að gríðarlega miklir efnahagslegir hagsmunir eru í því fólgnir fyrir íslenska ríkið og þar með almenning, að vel takist til við afnám gjaldeyrishafta. Ein forsenda þess að það megi takast er að stjórnvöldum séu tryggð eðlileg starfsskilyrði til verksins. Mikilvægur þáttur í því er að stjórnvöld sem að málinu koma geti í trúnaði skipst á gögnum og tillögum sem málið varðar. Umræddar tillögur ráðgjafahóps ráðherranefndar um efnahagsmál um mögulegar leiðir til úrlausnar sem eru nú til athugunar af hálfu stjórnvalda og skoðast þar sem mikilvæg trúnaðargögn. Gögnin falla þannig ótvírætt undir takmörkunarheimild 3. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þar sem mælt er fyrir um heimild til að takmarka aðgang að gögnum sem hafa að geyma upplýsingar um efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins enda krefjist almannahagsmunir þess.“     *

Þá segir: 

„Eðli verkefnisins, um afnám gjaldeyrishafta, er slíkt að ef fyrirætlanir stjórnvalda og mögulegar leiðir til úrlausnar, sbr. tillögur ráðgjafanna, væru á almannavitorði gæti það veikt stöðu og hagsmuni íslenskra stjórnvalda m.a. í viðræðum við aðila sem hagsmuna eiga að gæta á gjaldeyrismarkaði. Slíkt gæti þannig rýrt gildi tillagnanna sem slíkra með þeim hætti að ólíklegra yrði talið að þær myndu skila tilætluðum árangri, ef opinberar væru, ef ákvörðun yrði tekin um að fylgja þeim. Er það mat ráðuneytisins að upplýsingar falli þannig einnig undir takmörkunarheimild 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þar sem mælt er fyrir um heimild til að takmarka aðgang almennings að gögnum sem hafa að geyma upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir á vegum hins opinbera ef talið er að þau yrðu þýðingarlaus eða að þau myndu ekki skila tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði.“ 

Í þessu samhengi er í bréfi ráðuneytisins vísað til ummæla í athugasemdum í frumvarpi til upplýsingalaga. Loks segir eftirfarandi í bréfinu: 

„Efnahagslegir hagsmunir íslenska ríkisins og almennings af því að vel takist til við afnám gjaldeyrishafta eru það veigamiklir að líta má svo á að þeir varði öryggi og sjálfstæði ríkisins í skilningi 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Mikilvæg forsenda þess að unnt sé að ná farsælli niðurstöðu er eins og áður segir að stjórnvöldum séu tryggð eðlileg starfsskilyrði til verksins. Beiting lagaheimilda til takmörkunar á upplýsingarétti almennings er nauðsynleg í því skyni.“

Framangreindar skýringar forsætisráðuneytisins verða ekki skildar öðruvísi en svo að sama sjónarmið búi að baki þeirri afstöðu ráðuneytisins að heimilt hafi verið að synja kæranda um aðgang að hinni umbeðnu kynningu á grundvelli hvoru tveggja 1. og 3. töluliða 10. gr. upplýsingalaga – þ.e. að mikilvægir efnahagslegir hagsmunir séu í húfi fyrir íslenska ríkið vegna afnáms fjármagnshafta og þar með fyrir almenning. Því beri að tryggja stjórnvöldum sem vinni að þessu markmiði „eðlileg starfsskilyrði“. Í því felist að þessi stjórnvöld geti í trúnaði skipst á gögnum og tillögum sem málið varðar. 

Í athugasemdum um 10. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir meðal annars eftirfarandi: 

„Með orðalaginu „þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast“ er vísað til þess að beiðni um upplýsingar verði ekki synjað, hvorki í heild né að hluta, nema aðgangur almennings að upplýsingum muni skaða einhverja af þeim almannahagsmunum sem tilgreindir eru í ákvæðinu. Þessir hagsmunir eru tæmandi taldir, en hver töluliður sætir sjálfstæðri skýringu með tilliti til eðlis þeirra upplýsinga sem um ræðir.“

Í beinu framhaldi segir síðan: 

„Heimild 10. gr. til að takmarka aðgang almennings og fjölmiðla að gögnum er bundin því skilyrði að gögnin sjálf hafi að geyma upplýsingar um þá hagsmuni sem njóta eiga verndar. Ef í gögnunum er jafnframt að finna upplýsingar sem ekki snerta þessa hagsmuni er stjórnvaldi almennt skylt að veita aðgang að þeim hluta þeirra.“

Af framangreindum ummælum í frumvarpi til upplýsingalaga verður ráðið að þótt gögn innihaldi upplýsingar um málaflokka sem tengjast öryggi ríkisins eða efnahagslega mikilvægum hagsmunum ríkisins standi 1. eða 3. töluliður 10. gr. laganna því ekki í vegi að veittur sé aðgangur að þeim nema fyrir liggi að það raski mikilvægum almannahagsmunum. Við þetta mat skiptir máli hvers eðlis upplýsingarnar eru sem finna má í þeim gögnum sem óskað er aðgangs að. Eins og að framan greinir var synjun forsætisráðuneytisins, að því er varðaði 1. og 3. tölulið 10. gr. upplýsingalaga, aðeins byggð á sjónarmiðum um að tryggja þyrfti stjórnvöldum sem vinna að afnámi gjaldeyrishafta „eðlileg starfsskilyrði“ en að engu var vikið að efni þeirrar kynningar er beiðni kæranda laut að. Gátu þessi sjónarmið, eins og þau voru sett fram, því ekki stutt þá niðurstöðu ráðuneytisins að synja kæranda um aðgang að gagninu á þessum lagagrundvelli. 

4.

Eins og að framan greinir var einnig vísað til þess í bréfi forsætisráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar 24. júní 2014 að synjun ráðuneytisins mætti styðja við 5. tölulið 10. gr. upplýsingalaga en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum hins opinbera ef þau yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði. 

Úrskurðarnefndinni hefur verið látin í té glærukynning sú er beiðni kæranda laut að. Er þar fjallað um ýmis atriði er varða þá stöðu sem uppi er vegna hafta á hreyfingum fjármagns frá landinu. Af kynningunni er ljóst að stjórnvöld standa frammi fyrir því að þurfa mögulega að grípa til ráðstafana til að bregðast við þeirri stöðu. Umrædd kynning hefur að geyma glærur sem flestar eru tölusettar. Eftir að hafa kynnt sér efni þeirra gaumgæfilega telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að fallast verði á það með forsætisráðuneytinu að þar komi fram upplýsingar um mögulegar ráðstafanir á vegum hins opinbera, sem kynnu að verða þýðingarlausar, eða skiluðu ekki tilætluðum árangri, ef þær væru á almannavitorði. Er þannig m.a. fjallað um  mismunandi ráðstafanir, sem íslenska ríkið kann að grípa til vegna þeirrar stöðu sem uppi er, og afstöðu höfunda til þeirra. Verður því fallist á með forsætisráðuneytinu að heimilt hafi verið að synja kæranda um aðgang að þessum glærum með vísan til 5. töluliðar 10. gr. upplýsingalaga. 

Í ljósi þess að hin umbeðnu gögn eru að meginstofni upplýsingar sem undanþegnar eru upplýsingarétti, og hversu nátengdar glærurnar eru innbyrðis, hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki forsendu til þess að kveða á um skyldu kærða til þess að veita kæranda aðgang að hluta kynningarinnar á grundvelli 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun forsætisráðuneytisins, dags. 15. maí 2014, um að synja A um aðgang að tillögum ráðgjafahóps sem forsætisráðherra skipaði 27. nóvember 2013 til að gera tillögur um einstaka skref og áætlun um losun fjármagnshafta til ráðherranefndar um efnahagsmál.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir          

Friðgeir Björnsson






Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta