Hoppa yfir valmynd
2. mars 2015 Forsætisráðuneytið

572/2015. Úrskurður frá 2. mars 2015

Úrskurður

Hinn 2. mars 2015 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 572/2015 í máli ÚNU 14020013.

Kæra og málsatvik

Með erindi 25. febrúar 2014 kvartaði A til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna afgreiðslu Fjármálaeftirlitsins á beiðni hans um aðgang að yfirliti yfir starfsleyfi lánastofnana frá 19. mars 2007.  

Í kærunni kemur fram að 22. janúar 2014 óskaði kærandi þess að fá umrætt yfirlit afhent en tengil á það hafi mátt sjá í frétt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins frá 19. mars 2007 án þess þó að yfirlitið væri aðgengilegt. Þann 30. janúar 2014 hafi kæranda svo verið tilkynnt að ekki væri unnt að afhenda skjalið þar sem það fyndist ekki þrátt fyrir víðtæka leit. Kærandi telur skýringar Fjármálaeftirlitsins vera fyrirslátt, enda hljóti gagnið að finnast í vörslum stofnunarinnar. Að öðrum kosti hefði stofnunin orðið uppvís að því að eyða gagninu og þannig reynt að leyna því og tilvist þess fyrir almenningi.

Meðal gagna málsins er svar Fjármálaeftirlitsins 30. janúar 2014 til kæranda. Þar kemur fram að hið umbeðna skjal finnist ekki miðað við umbeðna dagsetningu. Ástæðan sé sú að skjalið hafi síðar verið uppfært en það hafi ekki verið vistað í upprunalegri mynd. Var kæranda bent á hvernig finna mætti skjalið eins og það var 9. maí 2007 auk yfirlits yfir breytingar á starfsleyfi og heiti fjármálafyrirtækja frá 1. júlí til 30. júní 2009. Þá var upplýst að Fjármálaeftirlitið ynni að því að birta lista yfir starfsleyfi lánastofnana sem fyrirhugað væri að birta á vefsíðu stofnunarinnar innan skamms. Þá væri ekki unnt að upplýsa hvernig hin umbeðnu gögn hefðu verið fjarlægð eða hvenær það hefði verið gert. Ástæða þess að skjalið hefði verið fjarlægt væri sú að það hefði ekki verið uppfært í samræmi við þær breytingar sem höfðu orðið á starfsheimildum einstakra lánastofnana auk þess sem einstakar upplýsingar höfðu riðlast til. Hefði Fjármáleftirlitið því ákveðið að fjarlægja listann af vefsíðu sinni. Þá liggur fyrir tölvupóstur frá sama degi til kæranda þar sem þau skjöl sem vísað var til í fyrri tölvupósti voru send kæranda og ítrekað að sú útgáfa sem kærandi óskaði aðgangs að fyndist ekki hjá stofnuninni. Þá var kæranda leiðbeint um heimild til að kæra meðferð málsins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. 

Málsmeðferð

Þann 24. mars 2014 ritaði kærandi úrskurðarnefndinni bréf. Þar kom fram að kærandi hefði sjálfur aflað hins umbeðna yfirlits og komið því á framfæri við Fjármálaeftirlitið til að bæta því þann missi sem stofnunin virtist hafa orðið fyrir þegar skjalið glataðist úr vörslum þess. Í ljósi þess að Fjármáleftirlitið hefði skjalið nú óumdeilanlega undir höndum, væri þess óskað að stofnunin endurskoðaði fyrri ákvörðun sína um hina framangreindu beiðni kæranda, enda væri ekkert sem hindraði það lengur að veittur yrði aðgangur að því.

Niðurstaða

Eins og að framan greinir óskaði kærandi eftir að Fjármálaeftirlitið afhenti sér yfirlit yfir starfsleyfi lánastofnana frá 19. mars 2007 en umrætt yfirlit mun hafa verið birt sem sérstakt skjal á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.

Kærandi hefur í erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál 24. mars 2014, sem einnig var sent til Fjármálaeftirlitsins, lýst þeirri afstöðu sinni að ekkert sé því nú til fyrirstöðu að Fjármálaeftirlitið afhendi honum hið umbeðna yfirlit, enda sé það nú í vörslum stofnunarinnar. Að því leytinu til sem erindinu var beint til Fjármálaeftirlitsins verður að álíta að í því hafi falist beiðni um endurupptöku í skilningi 2. töluliðar 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verði kæranda í kjölfar nýrrar afgreiðslu Fjármálaeftirlitsins synjað um aðgang að yfirlitinu verður honum unnt að kæra synjunina til úrskurðarnefndar um upplýsingarmál.

Kærandi hefur á hinn bóginn ekki fallið frá kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar á fyrirliggjandi ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að synja honum um aðgang að umbeðnu yfirliti. Fyrir úrskurðarnefndinni liggur því að endurskoða ákvörðun Fjármálaeftirlitsins sem reist var á þeirri forsendu að yfirlitið væri ekki að finna í vörslum stofnunarinnar.

Í þessu samhengi vísast til þess að samkvæmt 26. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 fer að ákvæðum laga um Þjóðskjalasafn Íslands um skráningu mála, skjalaskrár og aðra vistun gagna. Samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn er afhendingarskyldum aðilum skylt að varðveita málsgögn þannig að þau séu aðgengileg í samræmi við reglur þar að lútandi. Í 4. mgr. sömu lagagreinar er einnig kveðið á um að sá sem beri ábyrgð á skjalastjórn og skjalavörslu skuli grípa til viðeigandi ráðstafana til þess að vernda skjöl afhendingarskylds aðila fyrir ólöglegri eyðileggingu, breytingu og óleyfilegum aðgangi. Þá er samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laganna óheimilt að ónýta eða farga nokkru skjali í skjalasöfnum þeirra aðila sem falla undir 1. eða 2. mgr. 14. gr. nema það sé gert á grundvelli samþykktar þjóðskjalavarðar. Samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 14. gr. laganna telst Fjármáleftirlitið til afhendingarskylds aðila í skilningi laganna.

Hvað sem líður mikilvægi þeirra ákvæða, sem ætlað er að tryggja fullnægjandi skráningu og vistun upplýsinga hjá hinu opinbera, er ljóst að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi. Vísast um þetta til 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar, og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá. Það kemur í hlut annarra aðila að hafa eftirlit með því hvort stjórnvöld sinna skyldum sínum um skráningu og vistun gagna með fullnægjandi hætti, einkum æðri stjórnvalda, dómstóla og umboðsmanns Alþingis. Í ljósi þess að það gagn sem kærandi óskar aðgangs að hjá Fjármálaeftirlitinu var ekki til hjá stofnuninni þegar beiðni kæranda barst stofnuninni verður samkvæmt framangreindu ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Úrskurðarorð

 

Kæru A, dags. 25. febrúar 2014, er vísað frá nefndinni.

 

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta