Blikastaðakró - Leiruvogur friðlýst á Degi íslenskrar náttúru
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði í dag — á Degi íslenskrar náttúru friðlýsingu Blikastaðakróar -Leiruvogs í Grafarvogi. Friðlýsingin er unnin í samstarfi ráðuneytisins, Umhverfisstofnunar, Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar.
Blikastaðakró-Leiruvogur liggur á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar og er hið friðlýsta svæði 5,26 km að stærð. Það hefur hátt verndargildi sem felst einkum í grunnsævi, víðáttumiklum leirum og miklum sjávarfitjum. Svæðið er mikilvægur viðkomustaður farfugla.
Fjörusvæðin einkennast af fjölbreyttum vistgerðum, leirum, þangfjörum, kræklingaáreyrum og sandfjörum sem eru lífauðugar og laða að fjölbreytt fuglalíf. Leirurnar eru meðal fárra óraskaðra leira á höfuðborgarsvæðinu, en í leirusetinu er ríkulegt samfélag sjávarhryggleysingja m.a. ýmis skeldýr og burstaormar, þ.m.t. hinn sjaldgæfi risaskeri. Þá er þar að finna sjávarfitjar sem eru með hátt verndargildi og sjaldgæfar plöntutegundir.
Einnig eru landselir tíðir gestir á svæðinu, sem er mikilvægt og vinsælt útivistarsvæði með tilkomumikið útsýni.
„Svæðið sem við friðlýsum í dag er mikilvægur viðkomustaður farfugla, einkum vaðfugla og fóstrar ríkulegt fuglalíf allt árið um kring. Auk þess að vera fuglum nauðsynlegar gegna leirur einnig mikilvægu hlutverki við að takmarka gróðurhúsaáhrif og önnur neikvæð áhrif loftslagsbreytinga með því að binda gróðurhúsalofttegundir,“ segir Guðlaugur Þór Guðlaugsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. „Við þurfum ekki alltaf að leita langt að náttúruperlum. Það eru mikil svæði í bakgarðinum okkar og við eigum að vernda þau. Það er því ánægjulegt að geta undirritað þessa friðlýsingu á Degi íslenskrar náttúru.”
Svæðið er á náttúruminjaskrá og á skrá yfir alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði, en aðliggjandi er friðlandið Varmárósar sem friðlýst var árið 1980 og stækkað verulega vorið 2021.
Viðstödd undirskriftina voru, auk ráðherra og ráðuneytisstjóra, fulltrúar sveitastjórna Mosfellsbæjar og Reykjavíkurborgar, auk starfsmanna ráðuneytis, Umhverfisstofunar og borgarinnar.