Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 4/2011

Föstudaginn 19. ágúst 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Hjördís Stefánsdóttir lögfræðingur.

Með bréfi, dags. 4. janúar 2011, kærir A, endurgreiðslukröfu Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta á árinu 2009.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að við endurreikning og uppgjör bótagreiðslna vegna ársins 2009 reiknaðist Tryggingastofnun ríkisins að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Með bréfi dags. 26. júlí 2010 fór stofnunin fram á endurgreiðslu hinna ofgreiddu bóta. Kærandi mótmælti kröfunni við Tryggingastofnun og fór fram á skriflegan rökstuðning fyrir henni. Með bréfi dags. 14. október 2010 var kæranda veittur umbeðinn rökstuðningur. 

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir svo:

 Málsatvik

Undirritaðri barst tilkynning Tryggingastofnunar, dags. 26. júlí 2010, þar sem fram kom að stofnunin ætlaði að krefja undirritaða um kr. X, þar sem rauntekjur ársins 2009 hafi ekki verið í samræmi við tekjuáætlun Tryggingastofnunar fyrir það ár. Fram kom að tekjuáætlunin hafi gert ráð fyrir kr. X í heildartekjur árið 2009, en á framtali 2010 vegna skattársins 2009 komi fram að venjulegar tekjur hafi í raun verið X og fjármagnstekjur kr. X. Þessi mismunur leiddi því að mati Tryggingastofnunar til umræddar leiðréttingar á tekjutengdum bótum.

Þann 26. ágúst sl. sendi undirrituð Tryggingastofnun andmæli vegna boðaðs endurreiknings (hér eftir kölluð “andmælin”). Þann 14. október sl. sendir Tryggingastofnun undirritaðri ákvörðun sína, þar sem fyrri útreikningur er látinn standa óbreyttur.

Ákvörðun sem stenst ekki formkröfur stjórnsýsluréttar

Ákvörðun Tryggingastofnunar tekur lítið eða ekkert efnislega á þeim málsástæðum og lagarökum sem fram koma í andmælunum, en í þeim eru færð rök fyrir því að skilyrði 2. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, séu ekki uppfyllt og færður rökstuðningur fyrir þeirri niðurstöðu. Þá er vísað til þeirra forsendna sem Tryggingastofnun telur að byggja eigi tekjuáætlanir á og jafnframt tekið fram að stofnunin hafi ekki farið eftir þeim reglum og að undirrituð hafi haft réttmætar væntingar um að forsendur fyrir útreikningi Tryggingastofnunar væri réttur og byggður á réttum forsendum. Hafi verið brotalöm á þessu beri Tryggingastofnun hallann af því. Þessum málsástæðum og lagarökum er ekki svarað, heldur almennt vísað til áhrifa tekjuáætlana, að bótaþegum beri almennt að tilkynna um breytingar og því standi endurreikningur óbreyttur. Þessi afgreiðsla er ófullnægjandi. Auk þess er ekki nægilegt að vísa í tekjuáætlunina og fullyrða að það sé undirritað af minni hálfu, án þess að láta afrit af því fylgja með úrskurðinum. Þá verður ekki séð að einhliða greiðsluáætlun Tryggingastofnunar, sem virðist hafa verið send undirritaðri þann 21. janúar 2009 og fylgdi hjálögð með ákvörðun stofnunarinnar, hafi nokkra þýðingu að lögum í því álitaefni sem hér er uppi, sbr. ákvæði 2. mgr. 55. gr. almannatryggingalaga. Er hér með gerð alvarleg athugasemd við þessa málsmeðferð og hún talin fara gegn góðum stjórnsýsluháttum og sérstaklega gegn ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga  um efni rökstuðnings stjórnsýsluákvarðana. Er hér með farið fram á að Úrskurðarnefnd geri athugasemdi við málsmeðferðina.

Um formskilyrði tekjuáætlunar

Á vef Tryggingastofnunar kemur fram að tekjuáætlun miðist við skattframtal síðasta árs. Ekki verður annað séð, hvorki af almannatryggingalögum né upplýsingum frá Tryggingastofnun, en að gengið sé út frá því að bótaþegi skili inn tekjuáætlun sem er svo grundvöllur bótagreiðslna. Eðli máls samkvæmt gengur ekki að Tryggingastofnun byggi greiðslur sínar alfarið á eigin áætlunum, nema fyrir liggi klárt samþykki bótaþega fyrir slíkum áætlunum. Gríðarlegir hagsmunir byggjast á því að þessar áætlanir séu sem best úr garði gerðar, hvort heldur er fyrir bótaþega, Tryggingastofnun eða ríkissjóð. Gera verður því ákveðnar lágmarkskröfur um efni þeirra og form, svo hægt sé að halda því fram að rangar áætlanir eigi að vera á ábyrgð bótaþega. Augljós lágmarkskrafa er að fyrir liggi klárt samþykki bótaþega á tekjuáætlun á hverjum tíma. Liggi það ekki fyrir, þá verður að líta svo á að bætur séu greiddar út á áhættu Tryggingastofnunar. með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýluréttar og lögmætisreglunnar, þá verður Tryggingastofnun að bera hallann af því að hafa greitt út bætur á grundvelli eigin áætlana sem ekki voru samþykktar af bótaþega í góðri trú. Þar sem undirrituð samþykkti aldrei tekjuáætlun Tryggingastofnunar, og vissi ekki af henni, þá verður ekki hægt að byggja endurreikning á henni. Hún uppfyllir ekki þau lágmarksformskilyrði laga og meginreglna stjórnsýsluréttar að hafa verið send inn á ábyrgð bótaþega. Auk þess hafði undirrituð ekki einu sinni vitneskju um efni tekjuáætlunarinnar og var grunlaus um að hún byggði á öðrum forsendum en fyrri áætlanir.

Ólögmæt endurkrafa

Þar sem fyrir liggur að Tryggingastofnun hafði allar nauðsynlegar upplýsingar og forsendur til að meta tekjur ársins 2009 rétt, en af einhverjum óútskýrðum ástæðum gerði það ekki, og þar sem undirrituð er fullviss um að hún samþykkti aldrei hina afbrigðilegu tekjuáætlun sem niðurstaða endurútreiknings Tryggingastofnunar vegna ársins 2009 byggir á, þá er endurútreikningur Tryggingastofnunar ólögmætur og í andstöðu við ákvæði 2. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.

Skilyrði ákvæðis 2. mgr. 55. gr. almannatryggingalaga er að:                                               

i)       endurreikningur geti eingöngu átt sér stað ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta, og;

ii)      ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjubreytinguna eða aðrar breyttar aðstæður.

Bæði skilyrði ákvæðisins þurfa að vera uppfyllt svo endurreikningur geti átt sér stað þannig að ofgreiðsla sé dregin af síðar greiddum bótum til undirritaðrar. Af gögnum málsins er hins vegar ljóst að síðara skilyrðið er klárlega ekki uppfyllt og líklega ekki það fyrra heldur.

Hvað fyrra skilyrði ákvæði 2. mgr. 55. gr. almannatryggingalaga varðar þá lá fyrir hvaða tekjur undirrituð hafði skv. skattframtali 2009 vegna tekjuársins 2008. Eins og skýrt kemur fram á heimasíðu Tryggingastofnunar þá miðast tekjuáætlanir við upplýsingar á skattframtölum. Tryggingastofnun hefur fullan aðgang að skattframtölum og getur samkeyrt upplýsingar á skattframtölum við sinn gagnagrunn. Þannig hafði málum verið háttað hjá undirritaðri vegna fyrri ára, þ.e.a.s. tekjuáætlanir miðuðust við forsendur á skattframtölum fyrri ára og því fylgdu engin vandkvæði síðar meir. Því taldi undirrituð víst að engar forsendur hefðu breyst hjá sér við ákvörðun og áætlun bótagreiðslna fyrir árið 2009. þar sem undirrituð samþykkti aldrei tekjuáætlun sem byggði á röngum forsendum, og kannast í raun ekki við að hafa nokkurn tímann samþykkt tekjuáætlun frá Tryggingastofnun, þá liggur fyrir að ekki er til staðar samþykkt tekjuáætlun vegna ársins 2009. Verður því ekki hjá því komist að líta til þess að réttur “grundvöllur við útreikning bóta” hafi verið síðasta skattframtal undirritaðrar sem Tryggingastofnun hafði fullan aðgang að og bar að byggja tekjuáætlun sína á. Það getur alla vega ekki staðist, að mati undirritaðrar, að ófrágengin einhliða tekjuáætlun, sem ekki styðst við réttar og fyrirliggjandi forsendur og upplýsingar, geti verið grundvöllur bóta í skilningi ákvæðis 2. mgr. 55. gr. almannatryggingalaga, sbr. almenn sjónarmið um lögskýringu ákvæðisins eins og nánar er gerð grein fyrir að neðan.

Hvað síðara skilyrði ákvæðis 2. mgr. 55. gr. almannatryggingalaga varðar þá er ljóst að meint ofgreiðsla stafar ekki af því að bótaþegi (undirrituð) hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjubreytingu eða aðrar breyttar aðstæður. Þar sem undirrituð hafði aldrei samþykkt þá tekjuáætlun sem Tryggingastofnun virðist hafa miðað greiðslur sínar við, og hafði enga ástæðu til að ætla annað en að hinar lögmætu forsendur greiðslna ættu enn við, og hafði enga ástæðu til að ætla annað en að hinar lögmætu forsendur greiðslna ættu enn við, þ.e. að miðað væri við tekjur samkvæmt skattframtali fyrra árs, þá voru engar breytingar á þeim lögmætu forsendum og því verður ekki séð að undirrituð hefði getað tilkynnt eða hefði átt að tilkynna Tryggingastofnun um neinar tekjubreytingar. Síðara skilyrði ákvæðisins hlýtur að miða við að fyrir liggi lögmæt tekjuáætlun sem grundvöllur bótagreiðslna.

Um lögskýringu

Endurútreikningur bóta er mjög íþyngjandi stjórnvaldsaðgerð og því verður að gera ríkar kröfur til þess að lagaskilyrði fyrir slíkum aðgerðum séu uppfyllt. Heimild Tryggingastofnunar til endurútreiknings skv. 2. mgr. 55. gr. almannatryggingalaga ber því að túlka þröngt, sbr. almennar reglur stjórnsýsluréttar, sbr. einnig meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá verður að gera þær lágmarkskröfur til stjórnsýslustofnunar eins og Tryggingastofnunar, sem sýslar ekki eingöngu með stóran hluta af íslenskum fjárlögum á hverju ári, heldur hefur jafnframt daglega afkomu skjólstæðinga sinna í hendi sér, að grunnforsendur bótagreiðslna séu réttar og samþykktar af bótaþegum. Ef þau skilyrði eru ekki uppfyllt, þá verður Tryggingastofnun að bera hallann af þeirri handhvömm, og getur ekki krafið bótaþega um endurgreiðslu vegna eigin mistaka. Önnur lagatúlkun fer í fyrsta lagi gegn viðurkenndum lögskýringarsjónarmiðum í stjórnsýslurétti og í öðru lagi gegn meginreglu 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944.

Nánar um forsendur og réttmætar væntingar bótaþega

Með vísan til þeirra stjónarmiða sem að framan eru rakin, sbr. einnig andmælin, þá telur undirrituð að forsendur Tryggingastofnunar fyrir tekjuáætlun 2009 hafi verið rangar og að þær séu enn algerlega óútskýrðar. Þá telur undirrituð að hún hafi ekki haft ástæðu til að gruna að forsendur vegna tekjutengdra bótagreiðslna til hennar vegna ársins 2009 hefðu breyst í meðförum Tryggingastofnunar. Jafnframt vill undirrituð taka fram að þar sem hækkun greiðslna frá Tryggingastofnun hefur áhrif til lækkunar greiðslna frá lífeyrissjóði, og öfugt, þá er erfitt fyrir bótaþega að henda reiður á því ef annar hvor aðilinn gefur sér rangar forsendur fyrir greiðslum sínum. Þannig lækkar greiðsla til bótaþega frá lífeyrissjóði ef greiðslur frá Tryggingastofnun hækka og því breytist heildargreiðsla til bótaþega lítið ef nokkuð. Undirrituð hagnaðst því ekki á hinum meintu ofgreiðslum Tryggingastofnunar, þar sem lífeyrisgreiðslur lækkuðu þar á móti. Þvert á móti liggur fyrir að undirrituð verður fyrir umtalsverðu tjóni ef ákvörðun Tryggingastofnunar verður látin standa fyrir Úrskurðarnefnd. Þannig mun undirrituð ekki eingöngu þurfa að endurgreiða Tryggingastofnun og lifa á mjög lágum bótum, heldur mun undirrituð einnig hafa fengið of lítið greitt úr lífeyrissjóði sem væntanlega fæst ekki endurreiknað. Fyrirséð er að undirrituð muni ekki fá þessa lækkun bætta hjá lífeyrissjóði með hækkun lífeyrisgreiðslna nema að litlum hluta.

Úrskurðarnefnd getur því ekki með lögmætum hætti komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun Tryggingastofnunar standi óhögguð með einhverskonar almennri vísan til sjónarmiða um að þrátt fyrir ágalla á máli Tryggingastofnunar, þá hafi undirrituð mátt gera sér grein fyrir því að bótagreiðslur til hennar frá Tryggingastofnun hefðu hækkað óeðlilega mikið og því hefði undirrituð mátt vita að tekjuáætlun byggi af einhverjum ástæðum á öðrum forsendum en skattframtali síðasta árs. Eins og rakið er að framan, þá er torvelt fyrir bótaþega að sjá slíkar forsendubreytingar þegar greiðslur koma frá fleiri en einum aðila. Undirrituð varð á engan hátt var við þessar breyttu greiðslur frá stofnuninni fyrr en boðun Tryggingastofnunar barst um endurútreikninginn.

Í góðri trú

Í 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins er að finna heimild til undanþágu frá endurkröfu en þar segir: „Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.“

Undirrituð byggir afkomu sína alfarið á bóta- og lífeyrisgreiðslum og á því allt undir að þær séu efndar með réttum hætti, en að öðrum kosti er fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum stefnt í voða. Undirrituð efaðist ekki um að útreikningur og forsendur Tryggingastofnunar væru réttir. Eins og áður segir, þá breyttust heildargreiðslur lítið sem ekkert, enda lækkuðu lífeyrisgreiðslur á móti, og því kom téður endurreikningur undirritaðri algerlega í opna skjöldu.

Lokaorð

Í ákvörðun Tryggingastofnunar er fullyrt að undirrituð hafi þann 8. desember 2008 skrifað undir tekjuáætlun vegna ársins 2009. Það er ein af meginröksemdum í andmælunum að undirrituð kannast ekki við að hafa fengið umrædda tekjuáætlun í hendur og því síður að hafa ritað undir slíka áætlun. Því er skorað á Tryggingastofnun að leggja fram afrit af þessari meintu undirrituðu tekjuáætlun. Jafnframt er skorað á Tryggingastofnun að gera grein fyrir þeim forsendum sem umrædd tekjuáætlun vegna ársins 2009 er byggð á, enda hefur komið fram að þær forsendur eru undirritaðri alveg óskiljanlegar og í algeru ósamræmi við innsenda skattskýrslu.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 8. febrúar 2011. Greinargerð dags. 22. febrúar 2011 barst frá stofnuninni þar sem segir:

 „Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (ATL) er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. er tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Samkvæmt 5. mgr. skal leggja 1/12 hluta af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna skv. 7. mgr. 16. gr. laganna, sbr. og 6. gr. reglugerðar nr. 598/2009 (áður 7. gr. reglugerðar nr. 939/2003).

Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. ATL er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra.  Að sama skapi er bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur.  Í framangreindu ákvæði felst rík skylda lífeyrisþega að vera vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og gera viðvart ef svo er ekki.  Aftur á móti er einungis um heimild hjá Tryggingastofnun að ræða til að afla tekjuupplýsinga.  Slík heimild verður þess ekki valdandi að firra lífeyrisþega ábyrgð á upplýsingagjöf sinni samkvæmt ákvæðinu.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 55. gr. ATL.  Þar kemur fram skýr skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur.

Endurreikningur og uppgjör bóta ársins 2009, sem kæranda var tilkynnt um með bréfi dags. 26. júli 2010 (Röng dagsetning er í meðfylgjandi útprentun af bréfinu úr tölvukerfi Tryggingastofnunar, aths. HJ), leiddi til ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.  Ástæða þess var sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2010 vegna tekna ársins 2009 fór fram, kom í ljós að tekjur kæranda á árinu 2009 höfðu verið hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir.

20. nóvember 2008 var kæranda send tillaga Tryggingastofnunar að tekjuáætlun fyrir árið 2009.  Þar sem hún var þá að byrja á lífeyrisgreiðslum og tekjuáætlun fyrir árið 2008 hafði ekki verið afgreidd gerði tillaga Tryggingastofnunar ekki ráð fyrir neinum tekjum sem hefðu áhrif á útreikning lífeyrisgreiðslna hennar frá Tryggingastofnun.

Tekjuáætlun kæranda dags. 8. desember 2008 var á þá leið að tekjur hennar á árinu 2009 yrðu lífeyrissjóðstekjur að fjárhæð X kr. 

Tekjuáætlunin ber reyndar með sér að kærandi hafi skráð að lífeyrissjóðstekjur yrðu X kr. á mánuð, þ.e. X kr. á ársgrundvelli.  Svo virðist sem starfsmaður sem tók á móti tekjuáætluninni hafi bent á að tekjur í tekjuáætlun þurfi að vera skráðar á ársgrundvelli og að X kr. væri réttari fjárhæð. 

Með bréfi dags. 21. janúar 2009 var kæranda send greiðsluáætlun fyrir árið 2009 sem miðaðist við X kr. lífeyrissjóðstekjur eins og fram kom í tekjuáætluninnni.

Líkleg ástæða þess að tekjuáætlunin gerði ráð fyrir þetta miklu lægri lífeyrissjóðstekjum en hún reyndist síðan vera með er að hún var að byrja að fá greiðslur úr tveimur lífeyrissjóðum og henni hafi láðst að upplýsa um annan þeirra. 

Þar sem upplýsingar um lífeyrissjóðtekjur hennar er ekki að finna í staðgreiðsluskrá RSK fyrr en frá og með janúar 2009 hafði starfsfólk Tryggingastofnunar, á þeim tíma sem tekjuáætlunin var unnin, ekki aðgang að neinum gögnum sem hefðu gefið ástæðu til að gera athugasemd við þær tekjur sem kærandi tilgreindi á tekjuáætluninni.

Við endurreikning og uppgjör bóta ársins 2009 sem fór fram sumarið 2010, eftir að skattframtal ársins lá fyrir, kom síðan í ljós að lífeyrissjóðstekjur ársins höfðu verið X kr. og vaxtagreiðslur X kr.  Samtals reyndust tekjur kæranda þannig hafa verið X kr. í stað þeirra X kr. sem reiknað hafði verið með, þ.e. X kr. hærri.

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 24. febrúar 2011 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Með bréfi dags. 23. mars 2011 bárust svofelldar athugasemdir frá kæranda:

 Almennt

Greinargerð Tryggingastofnunar er efnislega rýr og svarar því miður litlu þeim málsástæðum sem undirrituð hefur haldið fram í málinu.

Málið snýst í stuttu máli um það hvort Tryggingastofnun geti ábyrgðarlaust greitt út bætur á grundvelli óstaðfestra eigin tekjuáætlana sem auk þess standast ekki þær grunnforsendur sem slíkar áætlanir eiga að byggjast skv. lögum og reglum, og síðar krafið skjólstæðing, sem var í góðri trú, um endurgreiðslur vegna þessara mistaka starfsmanna stofnunarinnar.

Þegar svona mistök gerast þá hefur það fyrst og fremst tvenns konar alvarleg áhrif fyrir undirritaða. Í fyrsta lagi skerðast bætur svo mjög að endar ná alls ekki saman á meðan á hinu langa endurgreiðslutímabili stendur. Í öðru lagi verður undirrituð fyrir óbættu tjóni, þar sem lífeyrisgreiðslur leiðréttast ekki afturvirkt til samræmis. Auk þess er tjónsáhætta ríkissjóðs vegna þessa umtalsverð enda hlýtur það oft að koma fyrir að leiðréttingum verður ekki komið við gagnvart skjólstæðingum stofnunarinnar nema styrkir eða greiðslur komi fram annarsstaðar í kerfinu. Ef framkvæmd tekjuáætlana er almennt jafn losaraleg og tilviljanakennd og í þessu máli, þá hlýtur samfélagslegt tjón af þessari óábyrgu framkvæmd að vera gífurleg og varðað fjölda skjólstæðinga Tryggingastofnunnar miklu.

Eins og rakið er í fyrri skrifum, þá verður ekki annað séð en að Tryggingastofnun hafi farið langt út fyrir heimildir sínar þegar stofnunin greiddi út bætur á augljóslega röngum forsendum og án þess að hafa staðfesta tekjuáætlun frá skjólstæðingi sínum. Með hliðsjón af áður tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 100/2007 og Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þá hlýtur hallinn af slíkri handhvömm að falla á hina opinberu stofnun, enda var undirrituð fullkomlega í góðri trú um afgreiðslu málsins eins og rakið hefur verið í fyrri skrifum. Verði ekki á þá skoðun fallist þá mun þessi vítaverða afgreiðsla starfsmanna Tryggingastofnunar engar afleiðingar hafa fyrir stofnunina, á samta tíma og sú háttsemi getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir samfélagið og sér í lagi skjólstæðinga stofnunarinnar og jafnvel komið þeim á vonarvöl.

Ósannar fullyrðingar starfsmanna Tryggingastofnunar

Það hafa komið fram a.m.k. tvær mjög alvarlegar rangfærslur í málatilbúnaði Tryggingastofnunar, sem er brýnt að halda til haga og gera alvarlegar athugasemdir við.

Í fyrsta lagi, þá hefur Tryggingastofnun haldið því fram að undirrituð hafi sent inn og undirritað tekjuáætlun vegna ársins 2009. Þetta hefur stofnunin gert þó fyrir hafi legið frá upphafi þessa deilumáls að aldrei var ritað undir slíka áætlun. Undirrituð hefur ítrekað haldið því fram að hafa aldrei skrifað undir slíka áætlun og jafnframt ekki kannast við að hafa yfir höfuð fengið slíka áætlun í sínar hendur. Í kæru til Úrskurðarnefndar var sérstaklega skorað á Tryggingastofnun að leggja fram afrit af undirritaðri tekjuáætlun, þá hefur hún ekki verið lögð fram í málinu. Eingöngu hefur verið lögð fram útprentuð áætlun úr tölvukerfum Tryggingastofnunar. Verður ekki annað séð en að Tryggingastofnun hafi þannig farið vísvitandi með rangt mál þegar þessu var haldið fram í úrskurði stofnunarinnar, enda er þetta lykilatriði meginástæðan fyrri þessu deilumáli.

Í öðru lagi, þá verður ekki annað séð en að Tryggingastofnun sé að reyna að villa um fyrir Úrskurðarnefnd hvað varðar tilefni og tilvist tekjuáætlunarinnar. Eins og áður segir hefur Tryggingastofnun ekki lagt fram umbeðið afrit af undirritaðri tekjuáætlun en lætur enn samt eins og hún sé til staðar. Til dæmis segir orðrétt í greinargerð Tryggingastofnunar: “Tekjuáætlun kæranda dags. 8. desember 2008 var á þá leið....”. Einnig kemur eftirfarandi fram: “Tekjuáætlun ber reyndar með sér að kærandi hafi skráð.....Svo virðist sem starfsmaður sem tók á móti tekjuáætluninni....”. Þetta er sérstaklega ósvífin framsetning, þegar liggur fyrir að skorað var á Tryggingastofnun að leggja fram afrit af undirritaðri tekjuáætlun, sem stofnunin hefur sérstaklega fullyrt að liggi fyrir. Hið sanna er að það liggur ekki fyrir nein tekjuáætlun frá kæranda. Svo virðist sem í tölvukerfum Tryggingastofnunar sé til staðar einhver gölluð tekjuáætlun frá þeim sjálfum. Það er alveg fráleitt að láta að því liggja að undirrituð hafi samið hana (sbr. “skráð”) og komið með hana (sbr. “starfsmaður....tók á móti”). Hið sanna er að undirrituð sá hana aldrei og hefur því síður skrifað undir hana.

Útgreiðslur Tryggingastofnunar andstæðar lögum en skjólstæðingar í góðri trú

Svo virðist sem fullkomlega óásættanlegum aðferðum sé beitt við ákvörðun og útreikning tekjutengdra bóta hjá Tryggingastofnun og verður ekki séð að þessar aðferðir standist nokkra skoðun. Það liggur í augum uppi að stofnunin á ekki að greiða út bætur nema fyrir liggi tekjuáætlun frá skjólstæðingi, enda er það í fullu samræmi við ákvæði 16. gr., sbr. 52. gr. ATL. Ef bætur eru hins vegar greiddar út af einhverjum ástæðum þó ekki liggi fyrir undirrituð tekjuáætlun skjóstæðings, þá er slík framkvæmd greiðslna algerlega óábyrg og fer klárlega gegn skýrum lagaskyldum ATL. Ef skjólstæðingur Tryggingastofnunar er í góðri trú þegar slíkt gerist þá hlýtur stofnunin að þurfa að bera hallann af þeirri handvömm sinni.

Eins og útskýrt er í kæru lágu fyrir skattframtöl fyrri ára og engin ástæða var fyrir undirritaða að vænta nokkurra breytinga. Undirrituð sendi ekki inn tekjuáætlun og var aldrei beðin um að senda inn tekjuáætlun. Ef farið hefði verið fram á undirritaða tekjuáætlun sem forsendu fyrir útgreiðslu bóta þá hefði undirrituð að sjálfsögðu farið ítarlega yfir forsendur og svo sent inn undirritaða áætlun. Að öðrum kosti hefði hún ekki átt að fá bætur greiddar og augljóst að hún myndi bera hallann af því að annað hvort skila ekki inn áætlun (og fá þá engar bætur) eða skila inn rangri áætlun (og þurfa þá að sæta leiðréttingu). Það er einfaldlega augljóst að það er svona sem bótakerfið á að virka.

Greiðslur bárust frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum eins og vænta mátti og í samræmi við þær forsendur sem komu fram í skattframtölum undirritaðrar. Því gerði undirrituð engar athugasemdir, enda í góðri trú um að mál hennar væri í eðlilegum farvegi og byggðar á réttum forsendum.

Forsendur að tillögu Tryggingastofnunar

Í greingargerð Tryggingastofnunar er gerð tilraun til útskýringa á þeim forsendum sem Tryggingastofnun byggir tillögu sína að tekjuáætlun (sem hún ákveður svo einhliða að fara eftir). Því miður er útskýring illskiljanleg. Tryggingastofnun tiltekur að þar sem undirrituð var að byrja á lífeyrisgreiðslum og þar sem tekjuáætlun fyrra árs hafði ekki verið afgreidd (?) hafi tillaga Tryggingastofnunar að tekjuáætlun ekki gert ráð fyrir neinum tekjum sem hefðu áhrif á útreikning lífeyrisgreiðslna hennar frá Tryggingastofnun. Hvers vegna stofnunin kýs að miða við upphæð sem hefði ekki áhrif á útreikning greiðslna frá Tryggingastofnun er alveg óútskýrð. Þessi útskýring er sérlega einkennileg þegar vitað var að undirrituð myndi fá lífeyristekjur sem myndu hafa áhrif til skerðingar hjá Tryggingastofnun. Fyrir lá að greiðslur til undirritaðrar yrðu sambærilegar frá ári til árs, enda er það kunnara en frá þurfi að segja að “kerfið” virkar þannig að lífeyrisgreiðslur hækka hjá bótaþega þá skerðast á móti tryggingabætur og öfugt. Þessar forsendur Tryggingastofnunar voru því alrangar og óskiljanlegar.

Þá er jafnframt tiltekið í greinargerð Tryggingastofnunar að “...líkleg ástæða þess að tekjuáætlun gerði ráð fyrir þetta miklu lægri lífeyrissjóðstekjum og henni hafi láðst að upplýsa um annan þeirra”. Hér leyfir starfsmaður Tryggingastofnunar enn að láta að því liggja að áætlunin hafi komið frá undirritaðri. Enn er slíkum málflutningi mótmælt. Auk þess eru getgátur starfsmannsins einkennilegar í ljósi þess að undirrituð fékk greiðslur frá Lífeyrissjóði verslunarmanna og var auk þess þegar byrjuð að fá greiðslur frá lífeyrissjóðnum Gildi, en fyrsta greiðsla frá honum var innt af hendi þann 1. nóvember 2008. Hefðu starfsmenn Tryggingastofnunar væntanlega mátt sjá báðar tegundir lífeyrisgreiðslna í staðgreiðslukerfi fyrir bæði í nóvember og desember þegar þeir unnu að hinni meintu tillögu að tekjuáætlun fyrir árið 2009, sem fullyrt er að hafi verið gert í lok nóvember 2008. Þessar getgátur standast því illa skoðun. Auk þess hefði undirrituð hæglega getað upplýst um tilurð greiðslna frá báðum lífeyrissjóðum ef hún hefði verið beðinn um að skila inn undirritaðri tekjuáætlun.

Lokaorð

Að öðru leyti en fram kemur í þessum athugasemdum er vísað um efnislegan rökstuðning fyrir kæru til þeirra röksemda sem fram koma í kæru fyrir Úrskurðarnefnd og í andmælunum til Tryggingastofnunar.

Að lokum vill undirrituð benda úrskurðarnefnd á að full ástæða er til að vekja athygli Ríkisendurskoðunar á að gera þurfi stjórnsýsluendurskoðun á verkferlum Tryggingastofnunar við áætlanagerð og útgreiðslu bóta, sbr. heimild í 9. gr. laga 86/1997, um ríkisendurskoðun. Mál þetta sýnir að starfsaðferðir hjá Tryggingastofnun við gerð áætlana og útgreiðslu bóta eru í algerum ólestri og að starfsmenn stofnunarinnar hafi orðið uppvísir að því að bera fram ósannindi til að styðja málstað stofnunarinnar gagnvart skjóstæðingum sínum. Báðar þessar staðreyndir eru að mati undirritaðrar mjög alvarlegar og því brýnt að tryggt sé að þessi mál séu í föstum og traustum skorðum í framtíðinni.“

 

Athugasemdir kæranda voru kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi dags. 11. apríl 2011. Viðbótargreinargerð dags. 14. júní 2011 barst frá stofnuninni þar sem eftirfarandi kom fram:

 „Í þessum viðbótargögnum er eins og í kæru að finna ýmsar fullyrðingar um, að kærandi hafi ekki skilað inn tekjuáætlun fyrir árið 2009 og að Tryggingastofnun hafi farið út fyrir heimildir sínar.

Eins og fram kom í fyrri greinargerð Tryggingastofnunar er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra.  Að sama skapi er bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum og öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur. 

Kærandi heldur því fram að hún hafi ekki skilað inn neinni tekjuáætlun fyrir árið 2009 og tekjuáætlunin hafi ekki verið lögð fram í málinu þrátt fyrir að komið hafi fram í fyrri greinargerð Tryggingastofnunar að tekjuáætlunin liggi fyrir hjá stofnuninni og afrit af henni hafi fylgt með fyrri greinargerð stofnunarinnar. 

Tekjuáætlun fyrir árið 2009 dags. 8. desember 2008 og móttekin 8. janúar 2009, undirrituð af kæranda, liggur hjá Tryggingastofnun og fylgdi afrit af henni með greinargerð stofnunarinnar.  Þá fylgdi með kærunni afrit af greiðsluáætlun dags. 21. janúar 2009 sem stofnunin sendi kæranda í framhaldi af því að tekjuáætlunin barst en þar kemur fram hvaða tekjur útreikningur á bótagreiðslum kæranda fyrir árið 2009 miðast við. 

Á þeim tíma sem bótagreiðslur kæranda fyrir árið 2009 voru reiknaðar út í janúar 2009 var ómögulegt fyrir Tryggingastofnun að vita um lífeyrissjóðsgreiðslur kæranda á annan hátt en með tekjuáætlun frá kæranda.  Síðasta skattframtal sem lá fyrir var skattframtal 2008 sem varðaði tekjur ársins 2007 (þ.á.m. launatekjur og því ekki í neinu samræmi við tekjur ársins 2009), í staðgreiðsluskrá ársins 2008 voru ekki skráðar neinar lífeyrissjóðstekjur (eins og kemur fram í gögnum sem fylgdu fyrri greinargerð Tryggingastofnunar) og fyrstu lífeyrissjóðstekjur kæranda voru ekki skráðar í staðgreiðsluskrá ársins 2009 fyrr en í febrúar 2009, þ.e. í næsta mánuði eftir að bótagreiðslur kæranda voru reiknaðar út. 

Með fullyrðingum kæranda um, að útgreiðslur Tryggingastofnunar hafi verið andstæðar lögum en hún sjálf í góðri trú er kærandi ekki aðeins að halda því fram að Tryggingastofnun hafi ranglega greitt henni út bætur án þess að hún hefði skilað inn tekjuáætlun fyrir árið 2009 heldur er hún einnig með öllu að líta framhjá því, að í framhaldi af því að tekjuáætlunin barst voru bætur hennar reiknaðar út, henni var send greiðsluáætlun og hún fékk síðan greiddar mánaðarlega bætur til samræmis við þær fjárhæðir sem komu fram í greiðsluáætluninni. 

Fullyrðingar kæranda um að Tryggingastofnun hafi greitt henni út bætur á röngum forsendum og að hún hafi verið í góðri trú standast þannig augljóslega ekki.“

 

Viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var kynnt kæranda með bréfi dags. 20. júní 2011. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar endurgreiðslukröfu Tryggingastofnunar ríkisins á hendur kæranda vegna ofgreiddra bóta árið 2009.

Í kæru færði kærandi rök fyrir því að skilyrði 2. mgr. 55. gr. laga um almannatrygginga væri ekki uppfyllt þar sem hún hafi hvorki samþykkt né séð þá tekjuáætlun sem sé grundvöllur endurgreiðslukröfu Tryggingastofnunar ríkisins. Þá bar kærandi einnig fyrir sig þau rök að réttur “grundvöllur við útreikning bóta” hafi verið síðasta skattframtal hennar. Ekki sé unnt að halda því fram að kærandi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjubreytingu þar sem hún hafi aldrei samþykkt þá tekjuáætlun sem stofnunin lagði til grundvallar bótagreiðslna. Hún hafi ekki haft neina ástæðu til að ætla annað en að hinar lögmætu forsendur greiðslna ættu enn við, þ.e. að miðað væri við tekjur samkvæmt skattframtali fyrra árs. Þá vísar kærandi til þess að endurútreikningur bóta sé mjög íþyngjandi stjórnvaldsaðgerð og því verði að gera ríkar kröfur til þess að lagaskilyrði fyrir slíkum aðgerðum sé uppfyllt. Heimild Tryggingastofnunar til endurútreiknings beri að túlka þröngt samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar. Gera verði lágmarkskröfu til stofnunarinnar að grunnforsendur bótagreiðslna séu réttar og samþykktar af bótaþegum. Önnur lagatúlkun fari gegn viðurkenndum lögskýringarsjónarmiðum í stjórnsýslurétti og meginreglu 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Í lokaorðum kærunnar ítrekaði kærandi að hún hafi aldrei fengið tekjuáætlun í hendurnar og þaðan af síður undirritað hana.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að þann 20. nóvember 2008 hafi kæranda verið send tillaga að tekjuáætlun vegna ársins 2009. Þar sem hún hafi verið að byrja á lífeyrisgreiðslum og tekjuáætlun fyrir árið 2008 hafði ekki verið afgreidd hafi tillaga stofnunarinnar ekki gert ráð fyrir neinum tekjum. Tekjuáætlunin hafi verið undirrituð af kæranda þann 8. desember 2008 og hafi áætlunin gert ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum að fjárhæð X kr. 

Ágreiningur málsins lýtur að útreikningi Tryggingastofnunar ríkisins á bótagreiðslum til kæranda á árinu 2009. Málatilbúnaður kæranda byggir í megindráttum á því að útreikningur bótanna hafi verið framkvæmdur með ólögmætum hætti þar sem kærandi hafi ekki undirritað tekjuáætlun þá sem bótagreiðslur ársins 2009 grundvölluðust á. Í málinu liggur fyrir tekjuáætlun dags. 20. nóvember 2008 og var hún undirrituð af kæranda þann 8. desember 2008. Tryggingastofnun ríkisins byggði útreikning bótagreiðslna ársins 2009 á þeirri tekjuáætlun.

Kærandi hefur notið tekjutengdra bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Í kæru vísar kærandi til þess að hvergi í lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 komi fram að bótaþegi skuli skila inn tekjuáætlun sem sé svo grundvöllur bótagreiðslna. Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar, er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun ríkisins allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er stofnuninni heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og bótaþega hjá skattyfirvöldum o.fl. Ennfremur er umsækjanda og bótaþega skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur. Þar af leiðandi ber kærandi lögbundna skyldu til að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum ársins sem kunna að hafa áhrif á bótagreiðslur enda fara tekjutengdar bótagreiðslur fram á grundvelli upplýsinga um tekjur viðkomandi bótaþega. Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga er ekki unnt að túlka nefnt ákvæði 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar með öðrum hætti en að sú ábyrgð sé lögð á bótaþega að sjá til þess að áætlun um tekjur bótaþega á ársgrundvelli byggist á réttum forsendum.

Kærandi telur að skilyrði 2. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar hafi ekki verið uppfyllt við bótaútreikning Tryggingastofnunar. Tilvísað ákvæði hljóðar svo:

 „Ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögum þessum eru ofgreiddar af Tryggingastofnun eða umboðum hennar skal það sem er ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna [eða aðrar breyttar aðstæður],sbr. 52. gr.

Kærandi vísar sérstaklega til skilyrða í 2. málsl. tilvitnaðs lagaákvæðis og rökstyður það með þeim hætti að það hafi legið fyrir hvaða tekjur undirrituð hafði samkvæmt skattframtali ársins 2009 vegna tekjuársins 2008. Kærandi telur að réttur grundvöllur við útreikning bótanna hafi verið skattframtal ársins 2009. Þá greindi kærandi frá því mati sínu að ofgreiðslan hafi ekki stafað af því að hún hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjubreytingu eða breyttar aðstæður. Þar sem hún hafi aldrei samþykkt tekjuáætlun stofnunarinnar hafi hún ekki haft ástæðu til að ætla annað en að hinar lögmætu forsendur greiðslna ættu enn við, þ.e. að miðað væri við skattframtal ársins 2009. Engar breytingar hafi orðið á hinum lögmætu forsendum og því vandséð að hún hefði getað tilkynnt eða hefði átt að tilkynna breytingar.

Tryggingastofnun ríkisins sendir bótaþegum tillögu að tekjuáætlun og byggir sú tillaga á forskráðum upplýsingum byggðum á skattframtali fyrra árs, staðgreiðsluskrá RSK og eftir atvikum síðustu gildandi tekjuáætlun. Ekki er unnt að halda því fram að réttur grundvöllur við útreikning bótagreiðslna Tryggingastofnunar séu eingöngu fyrri skattframtöl bótaþega. Líkt og að framan greinir er það á ábyrgð bótaþega að upplýsa Tryggingastofnun um þær tekjur sem áhrif geta haft á bótaútreikning. Breytingar geta orðið á tekjum bótaþega milli ára og er það á þeirra ábyrgð að upplýsa Tryggingastofnun um slíkt. Tekjuáætlun Tryggingastofnunar er aðeins tillaga sem bótaþegar geta síðan gert athugasemdir við. Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að þar sem upplýsingar um lífeyrissjóðstekjur sé ekki að finna í staðgreiðsluskrá RSK fyrr en frá og með janúar 2009 hafði starfsfólk stofnunarinnar, á þeim tíma sem tekjuáætlunin var unnin, ekki aðgang að neinum gögnum sem hefðu gefið ástæðu til að gera athugasemd við þær tekjur sem kærandi tilkynnti á tekjuáætlun. Tryggingastofnun ríkisins hafði beint þeim tilmælum til kæranda að yfirfara tekjuáætlun dags. 20. nóvember 2008 og leiðrétta hana eftir atvikum. Tekjuáætlunin var undirrituð af kæranda þann 8. desember 2008 og samkvæmt henni var gert ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum að fjárhæð X kr. Þá telur kærandi að greiðsluáætlun dags. 21. janúar 2009 sem Tryggingastofnun sendi kæranda hafi ekki nokkra þýðingu í máinu. Í umræddri greiðsluáætlun koma fram upplýsingar um það við hvaða tekjuforsendur bótaútreikningur ársins 2009 tók mið af og voru þar aðeins tilgreindar lífeyrissjóðstekjur að fjárhæð X kr. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að kærandi hafi gert nokkrar athugasemdir við það.

Að framangreindu virtu hefði kæranda mátt vera kunnugt um við hvaða tekjuforsendur Tryggingastofnun tók mið af við útreikning bótagreiðslna ársins 2009. Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga verður ekki séð að bótaútreikningur Tryggingastofnunar hafi farið gegn réttmætum væntingum kæranda og ennfremur gegn ákvæði 2. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun sendi kæranda tillögu að tekjuáætlun sem var á ábyrgð kæranda að leiðrétta, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar almannatrygginga að Tryggingastofnun ríkisins hafi framkvæmt bótaútreikning ársins 2009 með réttum hætti miðað við fyrirliggjandi forsendur. Kærandi verður að bera hallann af því að hafa ekki tilkynnt stofnuninni um tekjur umfram það sem fram kom í tekjuáætlun fyrir árið 2009 undirritaðri af kæranda þann 8. desember 2008.

Þá vísar úrskurðarnefndin frá þeirri málsástæðu kæranda að bótaútreikningurinn fari gegn viðurkenndum lögskýringarsjónarmiðum í stjórnsýslurétti á þeirri forsendu að hún hafi aldrei staðfest tekjuáætlun fyrir árið 2009. Í málinu liggur fyrir tekjuáætlun fyrir árið 2009 undirrituð af kæranda. Þá tekur úrskurðarnefndin ekki afstöðu til þess hvort slík tilhögun fari gegn ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands enda eru slík ágreiningsefni komin út fyrir úrskurðarvald nefndarinnar sem hefur verið markað í 7. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Samkvæmt tilvísuðu lagaákvæði hefur úrskurðarvald úrskurðarnefndar almannatrygginga verið takmarkað við ágreining sem lýtur að grundvelli, skilyrðum eða upphæð bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Fyrir liggur að tekjur kæranda voru vanáætlaðar í tekjuáætlun fyrir árið 2009. Upplýsingar í tekjuáætlun eru á ábyrgð bótaþega og greiðast tekjutengdar bætur eftir upplýsingum hennar, sbr. framangreint. Í 55. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um skyldu Tryggingastofnunar ríkisins til þess að innheimta ofgreiddar bætur. Í 2. mgr. sömu greinar kemur meðal annars fram að ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögunum séu ofgreiddar af Tryggingastofnun skuli það sem sé ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi öðlist síðar rétt til.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur yfirfarið endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins sem byggðist á framtöldum tekjum kæranda árið 2009. Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að endurreikningurinn beri réttilega með sér að kæranda hafi verið ofgreiddar bætur árið 2009 og hefur nefndin ekki athugasemdir við að endurgreiðslukrafa Tryggingastofnunar ríkisins á hendur kæranda nemi X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Samkvæmt gögnum málsins voru tekjur vanáætlaðar í þeirri tekjuáætlun sem bætur voru greiddar samkvæmt og af þeim sökum voru bæturnar ofgreiddar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að staðfesta beri ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að endurkrefja kæranda um X kr. vegna ofgreiddra bóta árið 2009. Bent skal á að kærandi hefur þann kost að leggja inn beiðni um niðurfellingu endurgreiðslukröfunnar til Tryggingastofnunar ríkisins á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, telji hún skilyrði ákvæðisins uppfyllt.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að krefja A, um endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2009 er staðfest.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta