Hoppa yfir valmynd
21. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 29/2011

Miðvikudaginn 21. september 2011

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Hjördís Stefánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. janúar 2011, framsend til úrskurðarnefndar almannatrygginga þann 4. febrúar 2011 af velferðarráðuneytinu, kærir A, ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa fyrir son sinn B.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn dags. 29. október 2010 sótti kærandi um sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa fyrir son sinn til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt úrskurði sýslumannsins í Reykjavík dags. 22. október 2010. Með bréfi dags. 3. desember 2010 synjaði stofnunin umsókn kæranda á þeirri forsendu að drengurinn væri 19 ára á árinu en stofnunin greiði aðeins sérstakt framlag fram að 18 ára aldri.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

 „Undirrituð sótti um, til sýslumannsins í Reykjavík, þann 23. júlí 2009 fjárframlag að fjárhæð kr. X vegna gleraugnakaupa fyrir son minn B sem þá var 17 ára gamall, skv. 60 gr. barnalaga nr. 76/2003. Þann 22. október 2010, eða 15 mánuðum seinna, úrskurðar sýslumaðurinn í Ryekjavík mér í vil, sjá nánar meðfylgjandi afrit af úrskurði sýslumanns. Á þessum tíma er sonur minn, B, orðinn 19 ára gamall.

Ég fór með úrskurðinn til Tryggingastofnunar og sótti um greiðsluna eins og úrskurður sýslumanns kvað á um. Þann 3. desember 2010 barst mér bréf frá Tryggingastofnun þess efnis að mér væri synjað um greiðslu framlagsins þar sem sonur minn væri 19 ára á því ári og með vísan til þess að Tryggingastofnun greiðir einungis meðlag/sértakt framlag fram að 18 ára aldri barns og hefur einungis heimild til að greiða 12 mánuði aftur í tímann.

Ég er eðlilega mjög ósátt með þessa ákvörðun þar sem töf á afgreiðslu er alfarið sýslumannsins í Reykjavík og þykir mér með eindæmum að ég eigi að líða fyrir hana. Mín umsókn uppfyllti öll tímamörk sem sett eru og eingöngu afgreiðsluhraði sýslumanns veldur synjuninni. Mér finnst vert að geta þess að ekkert tafarbréf barst frá sýslumanninum eins og 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga kveður á um. Ef svona vinnulag verður ekki lagað sýnist mér að sýslumaður geti tafið öll mál þannig að á endanum þurfi Tryggingastofnun ekki, með vísan í lög um almannatryggingar, að greiða út framlög sem sýslumaður hefur úrskurðað.

Með vísan til ofanritaðs fer ég hér með fram á að mál mitt verði endurskoðað og leiðrétt þannig að ég fái þessa greiðslu, eins og mér ber.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 17. febrúar 2011. Greinargerð dags. 7. mars 2011 barst frá stofnuninni þar sem segir:

 Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja um milligöngu um greiðslu sérstaks framlags.

Málavextir eru þeir að með umsókn móttekinni hjá Tryggingastofnun þann 29. október 2010 sótti kærandi um greiðslu sérstaks framlags vegna gleraugnakaupa fyrir son sinn B.  Með umsókn fylgdi úrskurður Sýslumannsins í Reykjavík, dags. 22. október 2010, þar sem kom fram að barnsfaðir kæranda, C, skuli greiða kæranda kr. X vegna gleraugnakaupa þann 15. maí 2009 fyrir barn þeirra B.  Með bréfi dags. 3. desember 2010 synjaði Tryggingastofnun kæranda um greiðslu þessa sérstaka framlags þar sem sonur kæranda væri orðinn 19 ára og með vísan til þess að einungis væri heimilt að greiða 12 mánuði aftur í tímann og að einungis væri heimilt að greiða meðlag/sérstakt framlag fram að 18 ára aldri barns.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2006 er Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan marka sem lög um almannatryggingar setja.

Í 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 segir að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum.  Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga.  Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 20. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.  Í 20. gr. laganna segir að greiða skuli með börnum yngri en 18 ára.

Þá segir í 4. mgr. 63. gr. almannatryggingalaga að heimilt sé að greiða meðlag/sérstakt framlag í allt að 12 mánuði aftur í tímann.

Þar sem sonur kæranda varð 19 ára í ágúst 2010 og með vísan til framanritaðs varðandi það að Tryggingastofnun greiðir einungis meðlag/sérstakt framlag fram að 18 ára aldri barns og hefur einungis heimild til að greiða 12 mánuði aftur í tímann hafði Tryggingastofnun ekki heimild til að greiða umrætt sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa, sem sótt var um þann 29. október 2010.  Því var umsókninni synjað.

Þá má benda á að Félags- og tryggingamálaráðuneytið staðfesti í úrskurði sínum dags. 25. maí 2009 synjun á greiðslu sérstaks framlags vegna tannréttinga þar sem kærandi sótt um þegar dóttirin var orðin 21 árs, sjá meðfylgjandi afrit af úrskurði.

Að gefnu tilefni ber að taka það fram að ákvörðun Tryggingastofnunar hefur engin áhrif á skyldu barnsföður kæranda samkvæmt úrskurði Sýslumannsins í Reykjavík dags. 22. október 2010 til að greiða kæranda sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa fyrir son þeirra.  Kærandi getur því sótt þær greiðslur samkvæmt almennum reglum úr hendi barnsföður síns.

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 9. mars 2011 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa fyrir son hennar.

Í kæru var greint frá því að þann 23. júlí 2009 hafi kærandi sótt um fjárframlag vegna gleraugnakaupa fyrir son hennar til sýslumannsins í Reykjavík. Drengurinn hafi þá verið 17 ára gamall. Þann 22. október 2010, eða 15 mánuðum síðar, hafi sýslumaður úrskurðað henni í vil. Á þeim tíma hafi sonur hennar verið orðinn 19 ára. Tryggingastofnun hafi synjað kæranda um greiðslu á grundvelli úrskurðarins þar sem drengurinn væri 19 ára á árinu. Þá greindi kærandi frá því að hún væri ósátt við að þurfa líða fyrir töf á afgreiðslu hjá sýslumanninum í Reykjavík. Umsókn hennar hafi uppfyllt öll tímamörk og eingöngu afgreiðsluhraði sýslumannsins valdi synjuninni. 

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var greint frá því að stofnunin hafi synjað umsókn kæranda þar sem sonur hennar hafi verið orðinn 19 ára og með vísan til þess að einungis væri heimilt að greiða 12 mánuði aftur í tímann en einungis væri heimilt að greiða meðlag/sérstakt framlag fram að 18 ára aldri barns. Stofnunin vísaði til 67. gr. barnalaga nr. 76/2006 þar sem m.a. komi fram að stofnuninni sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt úrskurði sýslumanns innan marka sem lög um almannatryggingar setja. Í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 segi að heimilt sé að greiða meðlag/sérstakt framlag í allt að tólf mánuði aftur í tímann. Þar sem sonur kæranda hafi orðið 19 ára í ágúst 2010 og með vísan til framanritaðs hafi Tryggingastofnun ekki haft heimild til að greiða sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa sem sótt hafi verið um þann 29. október 2010.   

Þann 23. júlí 2009 leitaði kærandi til sýslumannsins í Reykjavík og fór fram á að barnsföður hennar yrði gert að greiða sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa fyrir son þeirra. Kærandi framvísaði reikningi vegna gleraugnakaupanna og er hann dagsettur 15. maí 2009. Drengurinn er fæddur X.

Þann 22. október 2010 lá fyrir úrskurður sýslumannsins í Reykjavík þar sem barnsföður kæranda var gert að greiða sérstakt framlag vegna gleraugnakaupanna. Afgreiðsla hjá sýslumanni tók fimmtán mánuði.

Með umsókn dags. 29. október 2010, móttekin sama dag af Tryggingastofnun ríkisins, fór kærandi fram á milligöngu stofnunarinnar um sérstakt framlag vegna gleraugnakaupanna í samræmi við fyrrnefndan úrskurð sýslumanns. Samkvæmt 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 er heimilt að greiða sérstakt framlag allt að tólf mánuði aftur í tímann talið frá þeim tíma sem stofnuninni barst úrskurður sýslumanns.

Með hliðsjón af því hvernig atvikum er háttað í máli þessu telur úrskurðarnefnd almannatrygginga það ekki réttlætanlegt að kærandi missi rétt til milligöngu Tryggingastofnunar um sérstakt framlag vegna gleraugnakaupanna þar sem enginn óeðlilegur dráttur var í málinu af hálfu kæranda. Kærandi keypti gleraugun 15. maí 2009 og leitaði til sýslumannsins í Reykjavík þann 23. júlí 2009 eða áður en drengurinn hafði náð 18 ára aldri. Þegar úrskurður sýslumanns lá fyrir þann 22. október 2010, fimmtán mánuðum eftir að kærandi hafði óskað afgreiðslu, sótti kærandi um greiðslu sérstaks framlags vegna gleraugnakaupa til Tryggingastofnunar með umsókn dags. 29. október 2010, móttekin sama dag af stofnuninni. Úrskurður sýslumannsins í Reykjavík kveður á um réttarstöðu drengsins sem barn eða áður en hann náði 18 ára aldri burtséð frá því hvort úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp eftir þann tíma. Að því virtu ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags vegna gleraugnakaupanna.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að Tryggingastofnun ríkisins beri að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags vegna gleraugnakaupa fyrir son kæranda.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, vegna sonar síns B, um sérstakt framlag vegna gleraugnakaupa fyrir drenginn er hrundið. Stofnuninni ber að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags vegna gleraugnakaupanna.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta