Hoppa yfir valmynd
6. maí 2019 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór fundaði með Lavrov

Guðlaugur Þór og Sergei Lavrov á fundi þeirra í Rovaniemi í dag - myndUtanríkisráðuneytið

Tvíhliða samskipti Íslands og Rússlands, málefni norðurslóða og öryggismál í Evrópu voru meðal umræðuefna á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í Rovaniemi í Finnlandi í dag.

Fundurinn var haldinn í aðdraganda utanríkisráðherrafundar Norðurskautsráðsins sem hefst á morgun. Þá mun Ísland mun taka við formennsku í ráðinu til tveggja ára og Rússland þar eftir. Auk málefna Norðurskautsráðsins ræddu ráðherrarnir tvíhliða samskipti ríkjanna, þ.m.t. innflutningsbann Rússlands á íslenskum sjávarafurðum. Viðskiptatækifæri á öðrum sviðum, líkt og sölu á þekkingu og búnaði til rússneskra sjávarútvegs- og matvælafyrirtækja sem hefur farið vaxandi, voru einnig til umræðu.

Utanríkisráðherra tók upp mannréttindamál og stöðuna innan Evrópuráðsins þar sem uppi er ágreiningur við Rússland. Hvatti Guðlaugur Þór Rússland til áframhaldandi þátttöku í Evrópuráðinu, enda myndi brotthvarf þaðan fela í sér bakslag í mannréttindamálum í Rússlandi. Þá voru öryggismál í Evrópu rædd, þ.m.t. staðan í Úkraínu.

"Samskipti Rússlands og vestrænna ríkja hafa verið stirð, meðal annars í kjölfar átaka í Úkraínu og vegna stöðu mála í Sýrlandi og efnavopnaárásar á Bretlandi. Ísland mun ávallt standa vörð um alþjóðalög og virðingu fyrir mannréttindum og sýna samstöðu með nágrannaríkjum og vinaþjóðum þegar á sameiginleg gildi okkar reynir. Það er jafnframt mikilvægt viðhalda samtali og freista þess að draga úr spennu, og sannarlega eiga Rússland og Ísland sameiginlegra hagsmuna að gæta á norðurslóðum og langa sögu viðskiptatengsla. Því var mikilvægt að eiga orðastað við utanríkisráðherra Rússland um málefni sem við erum ýmist sammála eða ósammála um - og freista þess að horfa fram á veginn í samskiptum ríkjanna," sagði Guðlaugur Þór að loknum fundi.

 

  • Guðlaugur Þór og Sergei Lavrov á fundi þeirra í Rovaniemi í dag - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta