Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2017 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 74/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 9. febrúar 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 74/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16100048

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. október 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. október 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Bretlands.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til til efnislegrar meðferðar með vísan til 1. mgr. 45. gr. og 2. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Þann 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 14. júlí 2016. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann 14. júlí 2016, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Bretlandi. Þann 21. júlí 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Bretlandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Ekki barst svar frá breskum stjórnvöldum innan tilskilinna tímamarka. Taldist beiðnin því hafa verið samþykkt og bæri Bretland ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd, sbr. 2. mgr. 25. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Bréf þess efnis var sent til breskra yfirvalda þann 1. september 2016. Bretland staðfesti svo ábyrgð sína með bréfi þann 6. september 2016 á grundvelli 2. mgr. 25. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 18. október 2016 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Bretlands. Kærandi kærði ákvörðunina þann 28. október 2016 til kærunefndar útlendingamála auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hans væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 26. október 2016. Greinargerð kæranda, ásamt fylgigögnum, barst kærunefnd 14. nóvember 2016. Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 8. desember 2016 og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur. Þann 13. janúar 2017 bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir við greinargerð kæranda vegna niðurstöðu áreiðanleikakönnunar lögreglunnar á vegabréfi kæranda sem lá fyrir þann 22. desember 2016 og óskað hafði verið eftir af hálfu kærunefndar þann 9. desember 2016.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Bretlands. Lagt var til grundvallar að Bretland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Bretlands ekki í sér brot gegn 45. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a sömu laga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Bretlands, sbr. d-lið 1. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann mótmæli því að vera sendur til Bretlands þar sem hann hafi þegar fengið lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Þá byggir kærandi á því að hann hafi verið í [...] um nokkurra mánaða skeið árið 2014 eftir að hafa fengið lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Bretlandi sama ár. Hafi kærandi greint talsmanni sínum frá þessu eftir að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið birt honum. Kærandi hafi lagt fram gögn sem sýni fram á að hann hafi verið utan Schengen-svæðisins lengur en í þrjá mánuði eftir að hann sótti um alþjóðlega vernd í Bretlandi. Gögnin séu vegabréf kæranda með stimplum sem sýni fram á komu hans til [...] 18. maí 2014 og för hans úr landinu 26. september 2014. Einnig sé meðfylgjandi kvittun frá spítala í [...] vegna [...] dagana 10.-17. júlí 2014 þar sem kærandi hafi [...]. Kærandi telji því að umsókn hans skuli tekin til efnismeðferðar hér á landi þar sem hann hafi dvalið lengur en þrjá mánuði utan Schengen-svæðisins eftir að hann hafi sótt um alþjóðlega vernd í Bretlandi, sbr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, og ábyrgð breskra stjórnvalda sé því fallin niður.

Í viðbótarathugasemdum með greinargerð kæranda vegna áreiðanleikakönnunar lögreglunnar á vegabréfi kæranda bendir kærandi á að þó svo að gildistími vegabréfs kæranda [...] séu Schengen stimplarnir í vegabréfi kæranda sem og stimplar með [...] frá árinu 2014 ófalsaðir. Ekkert bendi til þess að vegabréfið hafi verið ólöglega gefið út upphaflega. Vegabréfið staðfesti hver kærandi sé og að það hafi verið notað ítrekað til ferðalaga eftir að upphaflegur gildistími þess rann út. Kærandi telji það skipta grundvallarmáli varðandi sannleiksgildi vegabréfs kæranda að rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að Schengen stimplar vegabréfsins séu ófalsaðir sem og stimplar með [...]. Þá vísar kærandi í niðurstöðu rannsóknar lögreglunnar þar sem tekið sé fram að ekki sé útilokað að menn geti notað vegabréf sem [...] og komist upp með það. Með vísan til þessa telji kærandi ljóst að hinir ófölsuðu stimplar á vegabréfi kæranda sýni glögglega að hann hafi verið utan Schengen-svæðisins í meira en þrjá mánuði árið 2014, eftir að niðurstaða lá fyrir í umsókn hans um alþjóðlega vernd hjá breskum stjórnvöldum. Með vísan til framangreinds og til 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar telji kærandi ljóst að ábyrgð breskra yfirvalda á umsókn hans sé fallin niður og að taka eigi umsókn kæranda til efnismeðferðar.

Þá kemur fram í greinargerð kæranda að umsækjendum um alþjóðlega vernd í Bretlandi fari ört fjölgandi og hafi þeim fjölgað mjög á milli áranna 2015 og 2016 en á sama tímabili hafi verndarveitingar hins vegar dregist saman. Þá sé einstaklingum gert afar erfitt fyrir að sækja um alþjóðlega vernd við komuna til landsins. Biðin eftir að verða skráður formlega sem umsækjandi um alþjóðlega vernd í landinu geti verið löng en á meðan njóti einstaklingar ekki aðstoðar eða þjónustu frá hinu opinbera þar sem formleg umsókn um alþjóðlega vernd hafi ekki borist.

Í greinargerð kæranda kemur jafnframt fram að bresk stjórnvöld beiti varðhaldi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í miklum mæli og sérstaklega viðkvæmir einstaklingar séu hnepptir í varðhald þrátt fyrir að stefna ríkisins mæli á móti því. Þessi framkvæmd hafi verið gagnrýnd m.a. af nefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (e. UN Committee against Torture). Þá bendi kærandi á að aðgangur að lögfræðiþjónustu sé verulega takmarkaður. Einnig hafi komið upp tilvik þar sem umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi misskilið hlutverk túlka eða frásögn umsækjenda verið ranglega túlkuð en slíkt geti haft áhrif á niðurstöðu máls umsækjenda um alþjóðlega vernd, sérstaklega í þeim tilfellum þegar enginn talsmaður komi fram fyrir hönd umsækjanda. Þá eigi aðeins þeir umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á fjárstuðningi frá ríkinu sem geti sýnt fram á algjört eignaleysi en sú upphæð sem umsækjendur eigi rétt á nægi ekki fyrir grundvallarþörfum einstaklings. Einnig sé rétturinn til að stunda vinnu ekki virtur af breskum stjórnvöldum þegar komi að umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Kærandi byggir einnig á því að með vísan til 45. gr. þágildandi laga um útlendinga sé óheimilt að endursenda hann til Bretlands. Reglan feli í sér bæði bann við beinni endursendingu einstaklings til ríkis þar sem líf hans og frelsi kann að vera í hættu (e. direct refoulement) og jafnframt endursendingu til þriðja ríkis ef fyrirsjáanlegt er að það muni senda hann áfram í slíka hættu (e. indirect refoulement). Reglan feli þannig hvort tveggja í sér bann við endursendingu vegna aðstæðna í Bretlandi og vegna hættunnar á endursendingu til [...]. Að auki myndi ákvörðun um endursendingu brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Í greinargerð kæranda eru ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar rakin auk þess sem er vísað til d-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002 og lögskýringagagna að baki þeim. Vísað sé til þess að ákvæði 1. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga kveði á um heimild til að synja um efnismeðferð en ekki skyldu og að 2. mgr. ákvæðisins geri kröfu til þess að mat fari fram í hverju tilviki fyrir sig varðandi hvort sérstakar ástæður mæli með því að umsókn verði tekin til efnismeðferðar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að bresk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 2. mgr. 25. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Bretlands er byggt á því að ekki barst svar frá breskum stjórnvöldum innan tilskilinna tímamarka og taldist beiðnin því hafa verið samþykkt. Bretland staðfesti síðar ábyrgð sína á grundvelli 2. mgr. 25. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi byggir á því fyrir kærunefnd að umsókn hans skuli tekin til efnismeðferðar hér á landi þar sem hann hafi dvalið lengur en þrjá mánuði utan Schengen-svæðisins eftir að hann sótti um alþjóðlega vernd í Bretlandi, sbr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í 2. mgr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar segir að skuldbindingarnar sem um getur í 1. mgr. 18. gr. reglugerðarinnar skuli falla niður ef aðildarríkið sem ber ábyrgð getur sannað, þegar það er beðið um að taka aftur við umsækjanda eða öðrum einstaklingi eins og um getur í c- eða d-lið 1. mgr. 18. gr., að viðkomandi einstaklingur hafi yfirgefið yfirráðasvæði aðildarríkjanna um a.m.k. þriggja mánaða skeið, nema hann hafi undir höndum gilt dvalarskjal, gefið út af aðildarríkinu sem ber ábyrgð. Ofangreint ákvæði felur í sér, samkvæmt orðanna hljóðan, möguleika fyrir aðildarríki til þess að sanna að ríkið beri ekki ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd þar sem umsækjandinn hafi yfirgefið yfirráðasvæði aðildarríkja Dyflinnarsamningsins. Í dómi Dómstóls Evrópusambandsins í máli George Karim gegn Migrationverket (mál nr. C-155/15 frá 7. júní 2016) var komist að þeirri niðurstöðu að umsækjandi um alþjóðlega vernd eigi einnig rétt á að koma að vörnum sem lúta að réttri beitingu skilyrða Dyflinnarreglugerðarinnar fyrir endursendingu, að því er varðar hvort 2. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar leiði til þess að líta beri svo á að umsækjandi hafi lagt fram nýja umsókn um aljóðlega vernd eftir dvöl utan yfirráðasvæði aðildarríkja Dyflinnarreglugerðarinnar sem ekki verði framsend til annars ríkis.

Í máli þessu liggur fyrir að bresk stjórnvöld hafa viðurkennt skyldu sína til þess að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli 2. mgr. 25. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. bréf þess efnis dags. 6. september 2016. Kærandi byggði ekki á því að hann hafi farið út fyrir yfirráðasvæði aðildarríkja Dyflinnarsamningsins í þrjá mánuði, sbr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, við málsmeðferðina hjá Útlendingastofnun. Við meðferð málsins hjá kærunefnd hefur kærandi lagt fram gögn sem hann telur sýna fram á að hann hafi dvalið lengur en þrjá mánuði utan yfirráðasvæði aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins eftir að hann sótti um alþjóðlega vernd í Bretlandi. Þau gögn sem kærandi hefur lagt fram eru vegabréf kæranda sem m.a. ber með sér stimpla bæði frá Schengen-svæðinu og stimpla með [...] frá árinu 2014. Stimplar í vegabréfi kæranda sýna að hann var staddur á landamærastöð í [...] þann 18. maí 2014 og þann 26. september 2014. Þá lagði kærandi fram vottorð frá sjúkrahúsi í [...] sem ber með sér að [...] dagana 10.-17. júlí 2014.

Þann 9. desember 2016 fór kærunefndin þess á leit við vegabréfarannsóknarstofu flugstöðvardeildar Lögreglustjórans á Suðurnesjum að rannsaka vegabréf kæranda m.t.t. áreiðanleika skilríkjanna. Niðurstaða lögreglunnar er sú að vegabréfið sé löglega út gefið og persónuupplýsingarnar eru upprunalegar og löglegar og staðfesti því vegabréfið hver kærandi sé. Ljóst sé að vegabréfið hafi verið ógilt samkvæmt stimpli á innri kápusíðu fremst og [...]. Lögreglan tekur fram að vegabréfið virðist þó hafa verið notað ítrekað til ferðalaga eftir að það rann úr gildi þann 20. júní 2007, sbr. Schengen stimplar frá Grikklandi árið 2010 og Kýpur frá árinu 2011 og stimplar með [...] frá árinu 2014. Lögreglan bendir á að ekki sé útilokað að menn geti notað vegabréf sem búið er að [...] og komist upp með það en það velti á árvekni eftirlitsins.

Kærunefnd hefur farið yfir þau gögn sem kærandi hefur lagt fram og er mat kærunefndar að þær upplýsingar sem fram koma í gögnum kæranda gefi heildstæða og trúverðuga mynd af ferðum hans. Stimplar í vegabréfi kæranda gefa til kynna að kærandi hafi í tvígang farið um landamæri [...] á fjögurra mánaða tímabili árið 2014, eftir að hann sótti um alþjóðlega vernd í Bretlandi, en í því sambandi áréttar kærunefnd að niðurstaða lögreglu vegna áreiðanleikakönnunar á vegabréfi kæranda bendir til þess að [...] á vegabréfi kæranda hafi gert honum kleift að framvísa vegabréfinu eftir að það rann úr gildi. Þá bendir skjal frá sjúkrahúsi í [...] til þess að hann hafi dvalið þar árið 2014. Að mati kærunefndar var framburður kæranda í viðtali hjá nefndinni 8. desember 2016 trúverðugur um að hann hafi dvalið í [...] og [...] á árinu 2014 og í samræmi við önnur gögn málsins. Það er mat kærunefndar að kærandi hafi með trúverðugum gögnum sem hann hefur lagt fram sýnt fram á samfellda dvöl utan yfirráðasvæði aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins í að minnsta kosti þrjá mánuði þannig að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi teljist ný í skilningi 2. mgr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Við það mat hefur kærunefnd haft til hliðsjónar möguleika kæranda á að ferðast til yfirráðasvæðis aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins frá [...] og [...] á umræddu tímabili. Kærunefnd telur því að ekki sé lengur fyrir hendi heimild skv. c-lið 1. mgr. 18. gr. laga um útlendinga til þess að krefja Bretland um að taka við kæranda. Ber því að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Anna Tryggvadóttir Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta