Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2017 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 121/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. febrúar 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 121/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16090015

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 6. september 2016 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. ágúst 2016, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Til vara krefst kærandi að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. þágildandi laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Hinn 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 17. desember 2015 hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi kom þrisvar í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 13. maí 2016, 19. maí 2016 og 26. maí 2016 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 29. ágúst 2016, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 6. september 2016. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 12. október 2016 ásamt fylgigögnum. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 2. febrúar 2017 ásamt talsmanni sínum og túlki.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 44. gr. þágildandi laga um útlendinga. Þá verði kæranda ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. j sömu laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 45. gr. sömu laga stæðu endursendingu til heimalands ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli 3. mgr. 90. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga sbr. IX. kafla reglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað að kæra myndi fresta réttaráhrifum með vísan til 1. mgr. 32. gr. þágildandi laga um útlendinga.

III. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann verði fyrir ofsóknum í heimalandi sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna, stjórnmálastarfs sem hann hafi unnið og aðgerða sem hann hafi verið þátttakandi í gegn yfirvöldum í [...]. Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi lagt fram fjölda gagna sem styðji frásögn hans. Þá komi fram að þær ofsóknir sem yfirvöld hafi þegar beitt kæranda feli í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum. Kærandi óttist frekari ofsóknir af hálfu stjórnvalda verði hann sendur aftur til [...].

Í greinargerð er gerð grein fyrir aðstæðum og ástandi í [...] og er m.a. gerð grein fyrir stjórnskipun landsins og löggjöf þess. Þá kveður kærandi að í gildi séu lagaákvæði sem takmarki tjáningarfrelsi, rétt til friðsælla mótmæla og félagafrelsi. Handahófskennt varðhald og eftirlit með borgurum sé ólöglegt að nafninu til en þessi lagaákvæði séu sniðgengin af stjórnvöldum og löggæslu- og öryggisveitum landsins. Þá sé spilling mjög algeng meðal opinberra starfsmanna samkvæmt rannsóknum og mælingum frjálsra félagasamtaka. Einnig hafi alþjóðleg frjáls félagasamtök birt opinbera lista með nöfnum pólitískra fanga og þar með sannað að stjórnvöld hneppi andstæðinga sína kerfisbundið í varðhald án dóms og laga.

Af hálfu kæranda er fjallað um hvað felist í ofsóknum skv. 44. gr. a þágildandi laga um útlendinga og staðhæft að það teljist óumdeilt að ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana, líkt og kærandi hafi þurft að sæta, falli þar undir. Af frásögn kæranda og framlögðum gögnum megi sjá að stjórnmálaskoðanir hans og andstaða við ríkjandi yfirvöld megi vera yfirvöldum í [...] kunn og að þær feli í sér gagnrýni á stefnu þeirra og aðferðir og séu yfirvöldum þ.a.l. ekki þóknanlegar. Samkvæmt e-lið 44. gr. a þágildandi laga um útlendinga sé það ekki skilyrði að kærandi hafi aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar til þess að um ofsóknir sé að ræða. Kærandi áréttar þó að í hans tilfelli sé það svo að hann hafi tjáð skoðanir sínar opinberlega. Þá hafi kærandi orðið fyrir ofsóknum af hálfu yfirvalda í [...] og óttist frekari ofsóknir verði honum gert að snúa til baka til heimaríkis síns. Kærandi hafi lagt fram gögn sem styðji við frásögn hans af óttanum. Einnig beri heimildir með sér að yfirvöld í [...] séu þekkt fyrir að beita andstæðinga sína alvarlegu ofbeldi og mannréttindabrotum og megi af þeim sökum telja ótta kæranda ástæðuríkan. Með vísan til framangreinds krefjist kærandi þess að honum verði veitt staða flóttamanns skv. 1. mgr. 44. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002 og eigi því rétt á vernd skv. 1. mgr. 46. gr. sömu laga.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er gerð sú krafa til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 44. gr. þágildandi útlendingalaga. Kröfunni til stuðnings er í greinargerð kæranda m.a. vísað til lögskýringagagna að baki ákvæðinu, frásagnar kæranda og hættu hans á að lenda í ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði honum gert að snúa aftur til [...].

Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að breytingarlögum nr. 115/2010 segi um ákvæði 45. gr. þágildandi laga um útlendinga að það komi sjálfstætt til skoðunar. Að hluta til komi sömu verndarsjónarmið fram og eigi við um 2. mgr. 44. gr. sömu laga en þó sé talið að í 45. gr. geti falist víðtækari vernd en í 2. mgr. 44. gr. Varakrafa kæranda sé því sett fram með vísan til 45. gr. laga um útlendinga og samsvarandi grundvallarreglu þjóðaréttar um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement).

Varðandi þrautavarakröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga er í greinargerð kæranda vísað til athugasemda í frumvarpi til laga nr. 115/2010 um breytingu á lögum um útlendinga nr. 96/2002. Þar komi meðal annars fram að veita verði stjórnvöldum svigrúm við mat á því hvenær rétt sé að veita dvalarleyfi samkvæmt greininni og að heildarmat á öllum þáttum máls verði að fara fram. Í greinargerðinni komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé í málum skv. VII. kafla laganna, s.s. almennra aðstæðna í heimalandi umsækjanda um alþjóðlega vernd, þar á meðal hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð.

Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið varðandi aðstæður kæranda í [...], telji kærandi að skilyrði 12. gr. f þágildandi útlendingalaga séu uppfyllt og verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu kæranda beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í greinargerð er einnig gerð athugasemd við málsmeðferð Útlendingastofnunar en kærandi telur m.a. að stofnunin hafi brotið gegn rannsóknar- og rökstuðningsreglu stjórnsýslulaga. Í greinargerð er jafnframt óskað eftir því að kæranda verði boðið til viðtals í því skyni að kærunefnd Útlendingamála geti lagt sjálfstætt mat á aðstæður kæranda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 121. gr. laganna, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum að því leyti sem hún hefur enn lagastoð, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað [...] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé [...] ríkisborgari.

Mat á því hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljast einstaklingar vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu ef þeir, vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða þeir geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Sem dæmi um einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu nefnir ákvæðið fylgdarlaus börn, fatlað fólk, fólk með geðraskanir eða geðfötlun, aldrað fólk, þungaðar konur, einstæða foreldra með ung börn, fórnarlömb mansals, alvarlega veika einstaklinga og einstaklinga sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.

Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að viðvarandi vandi sé í [...] stjórnkerfinu vegna samþjöppunar valds í höndum forseta landsins. Framkvæmd kosninga í [...] hafi margsinnis verið fordæmd af alþjóðasamfélaginu og að forsetakosningar [...] og alþingiskosningar [...] hafi til að mynda ekki verið taldar uppfylla alþjóðlega mælikvarða. Frelsi fjölmiðla í landinu sé takmarkað [...]. Tjáningarfrelsi eru settar verulegar skorður í landinu, sérstaklega varðandi tjáningu á andstöðu við stjórnvöld. Stjórnvöld hafi afskipti af fólki sem mótmæli stjórnvöldum og beiti stjórnsýsluviðurlögum og háum sektum ef mótmæli hafi ekki verið samþykkt fyrirfram af stjórnvöldum. Dæmi eru um að pólitískir andstæðingar forsetans og blaðamenn sæti áreiti af hálfu yfirvalda, t.a.m. handtökum, takmörkun á ferðafrelsi og ýmiss konar málsóknum. Í skýrslu fulltrúa Sameinuðu þjóðanna um málefni [...] kemur fram að stjórnvöld beiti, á vafasömum grunni, kerfisbundnum handtökum og varðhaldi með það að markmiði að áreita og ógna stjórnarandstæðingum og aðgerðasinnum. Um er að ræða nýleg dæmi sem áttu sér stað eftir forsetakosningarnar árið [...].

Talsverð spilling sé innan löggæslu- og réttarkerfisins þar sem stjórnarskrárvarin réttindi séu ekki ávallt virt í framkvæmd og sjálfstæði dómstóla sé háð ákveðnum takmörkunum vegna pólitísks þrýstings. Þá kemur fram að á undanförnum árum hafi verið stigin ákveðin framfaraskref í átt að auknum mannréttindum [...]. Jafnframt hafi verið sett á fót landsáætlun um aðgerðir til þess að berjast gegn spillingu innan stjórnkerfisins, m.a. með endurskoðun á löggjöf landsins.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi byggir kröfu sína á að hann þurfi vernd hér á landi á grundvelli þess að hann sé ofsóttur af stjórnvöldum í heimalandi sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna, stjórnmálastarfs sem hann hafi unnið og aðgerða sem hann hafi verið þáttakandi í gegn yfirvöldum í [...].

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga geta ofsóknir m.a. falist í:

a. andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi,

b. löggjöf og aðgerðum stjórnvalda, lögreglu og dómstóla sem fela í sér mismunun að efni eða vegna þess hvernig þær eru framkvæmdar,

c. saksókn eða refsingu sem er óhófleg eða mismunar einstaklingum á ómálefnalegum grundvelli,

d. synjun um notkun réttarúrræða sem leiðir til óhóflegrar og mismunandi refsingar,

e. saksókn eða refsingu fyrir að neita að gegna herþjónustu í átökum þar sem þátttaka í slíkri herþjónustu mundi fela í sér glæpi eða athafnir skv. b-lið 2. mgr. 40. gr.

Í 3. mgr. 38. gr. eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar en þar segir:

a. kynþáttur vísar einkum til hópa sem deila húðlit eða öðrum sameiginlegum líffræðilegum einkennum og þjóðfélagshópa af tilteknum uppruna og ber að túlka í víðri merkingu,

b. trúarbrögð vísa einkum til trúarskoðana og annarra lífsskoðana, þ.m.t. guðleysis, og tjáningar þeirra, þátttöku í hvers konar trúarsamkomum, opinberum eða ekki, eða ákvörðunar um að taka ekki þátt í þeim, aðgerða sem byggjast á trúarskoðunum og frelsis til að skipta um trú,

c. þjóðerni tekur ekki aðeins til ríkisborgararéttar eða ríkisfangsleysis heldur geta fallið þar undir þeir sem tilheyra tilteknum kynþætti eða tilteknum hópi fólks sem talar sama tungumál eða hefur sameiginlega menningarlega sjálfsmynd, sameiginlegan uppruna, landfræðilega eða pólitískt, eða hópi sem er skilgreindur út frá tengslum við hóp fólks á landsvæði annars ríkis,

d. þjóðfélagshópur vísar einkum til hóps fólks sem umfram það að sæta ofsóknum hefur áþekkan uppruna, bakgrunn, venjur og félagslega stöðu eða hefur sameiginleg einkenni eða lífsskoðanir, svo sem kyngervi, sem eru svo mikilvæg fyrir sjálfsmynd þess að ekki ætti að gera kröfu til að þeim verði breytt, eða hóps fólks sem er álitinn frábrugðinn öðrum í samfélaginu; þá skulu fyrrverandi fórnarlömb mansals teljast meðlimir tiltekins þjóðfélagshóps,

e. stjórnmálaskoðanir vísa einkum til skoðana á stefnumótun og aðferðum stjórnvalda sem kunna að beita ofsóknum án tillits til þess hvort viðkomandi hefur aðhafst eitthvað til að tjá skoðanir sínar.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Geneva 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussels 2013).

Kærandi kveðst verða fyrir ofsóknum í [...] vegna stjórnmálaskoðana sinna, stjórnmálastarfs og gagnrýni sinnar á stjórnvöld þar í landi. Kærandi kveðst hafa verið virkur í andstöðu við [...] stjórnvöld, með einhverjum hléum, í rúman áratug. Hann hafi hvoru tveggja tekið þátt í og skipulagt mótmæli gegn yfirvöldum. Vegna stjórnmálaþátttöku sinnar hafi hann orðið fyrir ofbeldi og áreiti af hálfu yfirvalda. Áreiti stjórnvalda hafi meðal annars falist í handahófskenndum handtökum, gæsluvarðhaldi, eftirliti lögreglu, röskun á starfsemi fyrirtækis fjölskyldu kæranda, yfirheyrslum og höfðun dómsmála á hendur kæranda að ósekju. Þá hafi kærandi haft eftirlit með forsetakosningum í heimaríki sínu [...]. [...]. Þá hafi kærandi tekið þátt í stórum mótmælum eftir kosningarnar [...] og hafi í kjölfarið verið barinn af lögreglu ásamt öðrum mótmælendum [...]. Kærandi hafi eftir það tekið þátt í mörgum mótmælum og hafi þurft að sæta handahófskenndum handtökum og öðru áreiti af hálfu stjórnvalda vegna þeirrar þátttöku. Í aðdraganda og kjölfar forsetakosninga í [...] kveðst kærandi hafa skipulagt mótmæli í gegnum veraldarvefinn auk þess að hafa haldið úti hópum á vefnum þar sem yfirvöld hafi verið gagnrýnd. Kærandi hafi tekið þátt í mótmælunum sem hafi verið töluvert fámennari en við hafi verið búist og hafi margir þátttakendur verið handteknir eða flúið land í kjölfar þeirra. Kærandi hafi fengið upplýsingar frá kunningja sínum í lögreglunni um að kærandi ætti á hættu að vera handtekinn og því hafi hann flúið land ásamt eiginkonu sinni og barni. [...].

Kærandi hefur lýst ástæðum flótta í viðtölum hjá stjórnvöldum, bæði Útlendingastofnun og hjá kærunefnd útlendingamála. Hann hefur jafnframt lagt fram nokkuð magn af gögnum. Kærunefndin telur að frásögn kæranda hafi verið stöðug frá upphafi málsmeðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum varðandi stjórnmálaskoðanir hans og vilja hans til að tjá þær. Frásögn hans fær jafnframt stoð í gögnum sem kærandi hefur lagt fram, svo sem myndbandsupptökum sem sýni þátttöku kæranda í andófi gegn stjórnvöldum. Þá er frásögnin samrýmanleg þeim gögnum sem kærunefndin hefur farið yfir og varða aðstæður í heimaríki kæranda, svo sem takmarkanir [...] yfirvalda á tjáningarfrelsi og viðbrögð yfirvalda við gagnrýni á stjórnvöld. Þá telji kærunefndin að gögnin sýni fram á að þeir sem taki þátt í opinberri gagnrýni á stjórnvöld geti átt á hættu ofsóknir í [...]. Þótt gögn sem kærandi hefur lagt fram varði einkum þátttöku hans í opinberri gagnrýni á stjórnvöld í tengslum við forsetakosningarnar árið [...] telur kærunefnd að frásögn kæranda að öðru leyti sé nægilega trúverðug til að lagt verði til grundvallar sú frásögn hans að hann hafi jafnframt tekið þátt í andófi gegn stjórnvöldum í aðdraganda flótta hans hingað til lands og hafi orðið fyrir og eigi á hættu áreiti stjórnvalda vegna þess. Kærunefndin telur, með hliðsjón af framburði kæranda sem fær stuðning í gögnum málsins, að kærandi hafi á nægilega skýran hátt sýnt fram á að hann hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur vegna stjórnmálaskoðana og þátttöku í gagnrýni á stjórnvöld í heimalandi sínu, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd hefur við það mat haft til hliðsjónar að það áreiti sem kærandi eigi á hættu að verða fyrir samansafni af endurteknum athöfnum sem líklegar eru til að gera líf kæranda óbærilegt í heimaríki.

Þó svo að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi sýnt fram á ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum á því landsvæði sem hann býr, er heimilt að synja umsókn um alþjóðlega vernd ef umsækjandi getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns en hann flúði frá, viðkomandi getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um slíkan innri flutning, Guidelines on International Protection: “Internal Flight or Relocation Alternative“ within the Context of Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees (UNHCR, 23. júlí 2003) er almennt ekki hægt að ætlast til þess að einstaklingur flytji sig um set innan síns heimalands til að draga úr hættu á ofsóknum þegar aðilinn sem valdur er að ofsóknum er á vegum stjórnvalda. Í athugasemdum við 4. mgr. 37. gr. frumvarps til laga um útlendinga koma fram sambærileg sjónarmið. Kærunefnd telur því að flutningur innan [...] sé ekki raunhæf lausn á máli kæranda þar sem það séu aðgerðir og afstaða stjórnvalda sem valdi því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir. Því sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu stöðu flóttamanns.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna.

Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa og þrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga nr. 80/2016.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to grant the appellant refugee status on the basis of Art. 37, paragraph 1, of the Act on Foreigners.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta