Hoppa yfir valmynd
16. mars 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 142/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 16. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 142/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22120010

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 2. desember 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Kúbu (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. nóvember 2022, um að synja kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Þess er aðallega krafist að kæranda verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.      Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 17. maí 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 8. júlí 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 18. nóvember 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var framangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 2. desember 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 14. desember 2022.

III.     Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana og almenns ástands í landinu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og henni skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga og veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra myndi fresta réttaráhrifum ákvarðananna, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi lagt á flótta frá heimaríki sínu vegna ofbeldis sem stjórnvöld í Kúbu hafi beitt hana í kjölfar þátttöku hennar í mótmælum gegn stjórnvöldum. Kærandi hafi einnig greint frá því að henni hafi stöðugt verið hótað vegna starfa sinn sem læknir, en hún hafi ekki viljað taka þátt í yfirhylmingu á dauða sjúklings vegna slæms aðbúnaðar heilbrigðisstarfsfólks í heimaríki. Kærandi hafi óttast að vera beitt ofbeldi og verið hrædd um líf sitt. Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og með trúverðugum gögnum að hún hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir og verði að telja að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hún aftur til heimaríkis. Kærandi gerir athugasemd við röksemdafærslu Útlendingastofnunar og vísar til almennra aðstæðna á Kúbu, enda styðji landaupplýsingar í ákvörðun stofnunarinnar og greinargerð kæranda frásögn hennar um ástæður þess að hún hafi flúið.

Kærandi vísar til þess að Útlendingastofnun hafi fjallað um aðstæður hennar og talið frásögn hennar trúverðuga. Einnig hafi stofnunin ekki talið ástæðu til að draga í efa að kærandi kunni að eiga á hættu að verða fyrir hótunum eða ofbeldi af hálfu yfirvalda, láti hún í ljós stjórnmálaskoðanir sínar opinberlega. Í greinargerð kæranda kemur fram að Útlendingastofnun hafi látið hjá líða að minnast á að aðalástæða þess að kærandi hafi ekki tekið þátt í fleiri mótmælum hafi verið að stjórnvöld hafi tjáð henni að þau vissu að hún hefði tekið þátt í mótmælum og hótað að ef hún myndi gera eitthvað á móti ríkisvaldi á opinberum vettvangi fengi hún ekki leyti til að taka lokaprófin, klára læknisfræðinám sitt og útskrifast.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé rökstutt það mat stofnunarinnar að kærandi uppfylli skilyrði e-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, að stjórnmálaskoðanir hennar feli í sér gagnrýni á stefnu og aðferðir stjórnvalda og að þær séu stjórnvöldum ekki þóknanlegar. Útlendingastofnun telji stjórnmálaskoðanir kennara eða rithöfunda geta verið meira áberandi en þeirra sem gegni minna sýnilegri stöðum. Að mati kæranda sé Útlendingastofnun að gefa til kynna að skoðanir lækna séu ekki jafn mikils virði eins og kennara eða rithöfunda, og þar sem hún hafi verið hrædd við hótanir um að vera meinað að klára nám sitt vegna stjórnmálaskoðana sinna þá hafi hún ekki rétt á alþjóðlegri vernd heldur eigi hún að snúa aftur til heimaríkis og halda skoðunum sínum leyndum, um alla ævi. Að mati kæranda er of mikil sönnunarbyrði lögð á kæranda og vísar hún til niðurstöðu Landsréttar í máli 149/2020 enda megi sönnunarkröfur ekki vera svo ríkar að viðkomandi njóti ekki raunhæfrar verndar gegn alvarlegum mannréttindabrotum. Ljóst sé að ofsóknir og ofbeldi sem kærandi hafi orðið fyrir falli undir skilgreiningar a-, c- og d-liðar 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, d- og e- liðar 3. mgr. 38. gr. sömu laga og a- og c-liðar 4 mgr. 38. gr. Því sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði til að vera veitt alþjóðleg vernd á grundvelli ákvæða 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Til vara krefst kærandi þess að henni verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ljóst sé að stjórnvöld á Kúbu geti ekki tryggt öryggi borgara sinna og aðgang að mat, drykkjarvatni og heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Til stuðnings þrautavarakröfu sinni um að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vísar kærandi til þess að hún óttist um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar vegna aðgerða og aðgerðaleysis stjórnvalda. Kærandi hafi þegar orðið fyrir áreiti og ólíklegt sé að ástandið í Kúbu batni á næstunni. Til að tryggja öryggi hennar sé nauðsynlegt að veita henni dvalarleyfi hér á landi. Með vísan til umfjöllunar að framan og fyrirliggjandi upplýsinga um heimaríki kæranda telur hún að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi í vegi fyrir endursendingu hennar þangað.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála                                          

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað kúbversku vegabréfi. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi kúbverskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Kúbu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2021/22 – Cuba (Amnesty International, 29. mars 2022);
  • Annual Report of the Inter-American Commission on Human Rights 2021 (IACHR, 2022);
  • Brief analysis of conflict-related incidents and protests in selected countries (covering 8 – 14 October 2022) (ACLED, https://acleddata.com/dashboard/#/dashboard);
  • Congressional Research Service: Cuba: U.S. Policy Overview (uppfært 28. desember. 2022);
  • New penal code that came into force on 1 December 2022 tightens restrictions on freedom of expression and assembly (Amnesty International, 2. desember 2022);
  • Country Reports on Human Rights Practices 2021: Cuba (U.S. Department of State, 12. apríl 2022);
  • Cuba – Statistics & Facts (Statista, 18. nóvember 2021);
  • Cuba: Repressive Rules for Doctors Working Abroad (Human Rights Watch, 23. júlí 2020);
  • Factsheets, reforms in Cuba (WOLA Advocacy for Human rights in the Americas, 30. nóvember 2016);
  • Freedom in the World 2022 (Freedom House, 4. júlí 2022);
  • Hospitals in Cuba (https://www.internationalinsurance.com/hospitals/cuba/, sótt 8. mars 2023);
  • IOM (UN Migration);
  • The Health System in Cuba: Origin, Doctrine and Results (Salim Lamrani, Études caribéennes, 7. júlí 2021);
  • The World Factbook – Cuba (CIA, uppfært 27. febrúar 2023);
  • World Report 2023 – Cuba (Human Rights Watch, 12. janúar 2023) og
  • 2021 Country Security Report (U.S. Department of State´s Overseas Security Advisory Council (OSAC), 13. september 2021).

Í framangreindum gögnum kemur fram að Kúba er eyríki í Karabíska hafinu með um 11 milljón íbúa. Árið 1945 gerðist Kúba aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1995 og samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum árið 1980. Kúba er einræðisríki með eins flokka kerfi þar sem kommúnistaflokkurinn er eini löglegi stjórnmálaflokkurinn. Fidel Castro hafi leitt uppreisnarher til sigurs árið 1959 og stjórnað þar til bróðir hans, Raul Castro, hafi tekið við í febrúar 2008. Miguel Díaz-Canel hafi verið handvalinn til að taka við, verið samþykktur sem forseti af þjóðþinginu og tekið við embætti 19. apríl 2018. Þá hafi hann leyst fyrrverandi forseta, Raul Castro, af hólmi sem ritari Kommúnistaflokksins hinn 19. apríl 2021.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytis kemur fram að kosningar í landinu séu hvorki frjálsar né sanngjarnar. Viðskiptabann hafi verið í gildi frá 1961 við Bandaríkin. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafi frá desember 2014 sýnt viðleitni til að koma á diplómatískum samskiptum við kúbversku ríkisstjórnina og hafi bæði ríkin opnað sendiráð í sínum löndum frá júlí 2015. Viðskiptabannið sé enn í gildi og samband Bandaríkjanna og Kúbu stirt.

Efnahagskerfið sé að mestu ríkisrekið þó einkavæðing og erlendar fjárfestingar hafi aukist. Raul Castro hafi byrjað að færa Kúbu í átt að blönduðu hagkerfi með sterkari einkageira og merkja megi breytingar þó þær séu hægfara. Með nýrri stjórnarskrá sem Kúba hafi samþykkt árið 2019 hafi verið stigið skref til umbóta en yfirráð yfir efnahagsmálum hafi haldist hjá ríkinu. Covid-19 heimsfaraldurinn hafi bitnað harkalega á kúbversku efnahagslífi. Ríkisstjórnin hafi lækkað hagvaxtaspá sína fyrir árið 2022 úr 4% í 2%. Þá hafi hæg endurreisn ferðaþjónustunnar haft áhrif á hagkerfi, auk áhrifa vegna innrásar Rússlands í Úkraínu, þ.m.t. á matvæli og eldsneytisverð. Stórfelldur bruni í ágúst 2022 sem hafi skemmt helstu olíugeymslu Kúbu og fellibylurinn Ian, sem hafi valdið miklum skemmdum í vesturhluta Kúbu í lok september 2022 hafi ennfremur haft neikvæð áhrif á efnahag landsins.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2021 kemur fram að innanríkisráðuneytið hefur eftirlit með lögreglu, öryggissveitum og fangelsiskerfinu. Þjóðarbyltingarlögreglan (e. The National Revolutionary Police) sé æðsta löggæslustofnun ríkisins. Sérhæfðar deildir öryggissviðs ráðuneytisins beri ábyrgð á eftirliti og að halda niðri sjálfstæðri stjórnmálastarfsemi. Forysta ríkisins, þar á meðal meðlimir hersins, haldi uppi virkri stjórn á öryggissveitum. Trúverðugar heimildir beri með sér að meðlimir öryggissveitanna hafi framið fjölda ofbeldisverka og að pólitískum föngum hafi fjölgað. Þá sé aðstæður í fangelsum afar bágbornar.

Í sömu skýrslu kemur fram að helstu vandamál á sviði mannréttinda séu ólögleg og handahófskennd morð, þ.m.t. án dóms og laga, mannshvörf, pyndingar, ómannúðleg og vanvirðandi meðferð öryggissveita á pólitískum andófsmönnum, varðhaldsföngum og föngum, erfiðar og lífshættulegar aðstæður í fangelsum, handahófskenndar handtökur og gæsluvarðhald pólitískra fanga og skerðing á sjálfstæði dómstóla. Í skýrslunni kemur fram að handahófskennd eða ólögmæt afskipti af friðhelgi einkalífs viðgangist og stjórnvöld hafi beint hefndaraðgerðum gegn fjölskyldumeðlimum vegna meintra brota einstaklinga. Þá séu í landinu alvarlegar takmarkanir á tjáningar- og fjölmiðlafrelsi þar sem ofbeldi og hótanir um ofbeldi gegn blaðamönnum tíðkist í auknum mæli auk þess sem ritskoðun og meiðyrðalög séu notuð gegn einstaklingum sem gagnrýni forystu stjórnvalda auk þess sem stjórnvöld stundi alvarlegar takmarkanir á netfrelsi. Vanmáttur borgaranna til að hafa áhrif á stjórn ríkisins með friðsamlegum hætti í frjálsum og sanngjörnum kosningum, þ.m.t. alvarlegar og óeðlilegar takmarkanir á stjórnmálaþátttöku auk mikillar spillingar innan stjórnkerfisins. Þrátt fyrir að það sé stefnumál stjórnvalda, þá láta þau hjá líða að rannsaka og lögsækja þá sem fremji ofbeldisverk og refsileysi gerenda sé því enn útbreitt. Ennfremur ríki refsileysi vegna opinberrar spillingar.

Í sömu skýrslu kemur fram að stjórnarskrá Kúbu frá 2019 kveði á um tjáningarfrelsi borgaranna, þ. á m. blaðamanna og annarra fjölmiðlamanna, en með því skilyrði að tjáningin „samrýmist markmiðum sósíalísks samfélags“. Lögin kveði á um fangelsisrefsingu frá þremur mánuðum að 15 ára fangelsi fyrir að gagnrýna stjórnmálamenn eða dreifingu áróðurs gegn stjórnvöldum. Þá hafi stjórnvöld takmarkað tjáningu og aðgengi að samfélagsmiðlum s.s. Facebook, Instagram og Telegram, m.a. á efni sem stjórnvöld telji „viðkvæm“. Kúbversk stjórnvöld haldi áfram að bæla niður og refsa fyrir hvers kyns andóf og opinbera gagnrýni. Tugþúsundir manna hafi streymt út á götur víðs vegar um eyjuna hinn 11. júlí 2021 og hafið friðsamleg mótmæli vegna efnahagsmála, lyfjaskorts, viðbragða stjórnvalda við Covid-19 heimsfaraldrinum, takmarkana á tjáningarfrelsi og banns á rétti fólks til að safnast saman á friðsamlegum samkomum. Ríkisstjórnin hafi brugðist við með harkalegum aðgerðum, þar á meðal víðtæku varðhaldi mótmælenda, aðgerðarsinna og almennra borgara. Í kjölfar mótmælanna hafi hundruð mótmælenda hafi verið sótt til saka og dæmd, þar á meðal 25 ólögráða börn.

Í skýrslu Human Rights Watch frá 2022 komi fram að mótmælin hafi verið þau stærstu og útbreiddustu í áratugi. Þess hafi verið krafist að kúgun stjórnvalda yrði hætt og hafi stjórnvöld verið gagnrýnd fyrir að gera ekkert til að uppfylla grunnþarfir borgaranna. Kúbverjar séu orðnir langþreyttir á efnahagsástandinu í landinu auk þess hefur Covid-19 heimsfaraldurinn gert illt verra en stjórnvöld séu sökuð um að nýta sér ástandið til að brjóta enn frekar á borgurum sínum. Öryggissveitir hafi mætt mótmælendum með táragasi, barsmíðum og handtökum. Forsetinn hafi kallað til „alla byltingarsinna og kommúnista til að takast á við þessi mótmæli“, sem sé tilvísun í 4. gr. stjórnarskrárinnar, sem veiti borgurum rétt til að „berjast með hvaða hætti sem er, þar á meðal með vopnum í bardaga“ gegn hverjum þeim sem „ætlar að kollvarpa pólitísku, félagslegu og efnahagslegu skipulagi sem komið er á með þessari stjórnarskrá“. Í október 2021 hafi yfirvöld hafnað beiðni um að veita leyfi fyrir friðsamlegum mótmælum sem fyrirhuguð hafi verið 15. nóvember og haft uppi hótanir gegn skipuleggjendum. Yfirvöld hafi lýst yfir að fyrirhuguð mótmæli, sem hópur listamanna og andófsmanna hafi skipulagt, væru ólögleg. Seinna í októbermánuði hafi ríkissaksóknari gefið út yfirlýsingu þar sem fólk hafi verið varað við saksókn ef mótmælin færu fram.

Í grein um heilbrigðiskerfið í Kúbu frá 2021 og í frétt á vef Human Rights Watch frá 23. júlí 2020, kemur fram að eftir byltinguna 1959 hafi stjórnvöld á Kúbu einsett sér að veita öllum borgurum alhliða heilbrigðisþjónustu og vandaða ókeypis menntun. Þá kemur fram að heilbrigðiskerfi Kúbu þyki lofsvert á heimsvísu, m.a. vegna þess að það sé ókeypis fyrir alla borgara landsins. Það séu engin einkasjúkrahús eða heilsugæslustöðvar á Kúbu þar sem allir þættir heilbrigðisþjónustunnar séu reknir af stjórnvöldum og miði stefna stjórnvalda einkum að öflugum forvörnum. Heilbrigðisþjónusta hafi verið í forgangi og þyki sjálfsögð mannréttindi allra borgara landsins enda hafi náðst mikill árangur í baráttu við ýmis konar sjúkdóma og sé meðallífaldur 79 ár sem sé á pari við ríkustu lönd heims. Þá eigi þær fjölmörgu heilbrigðisstofnanir sem starfi í landinu að aðlaga sig að þörfum þess hóps sem leiti til þeirra, t.d. ef mikill fjöldi sjúklinga sé með sykursýki eða háan blóðþrýsting þá sé þjónustu við þá hópa efld. Þó hrjái ýmislegt heilbrigðisþjónustuna, m.a. þarfnist innviðir endurskoðunar, flestar byggingar séu í slæmu ástandi og þarfnist viðgerða. Læknar glími einnig við ýmis vandamál, svo sem lyfjaskort og skort á lækningatækjum. Viðskiptabann Bandaríkjanna hafi haft mikil áhrif á aðgang Kúbu að lækningatækjum þar sem búnaður sé fluttur alla leið frá Kína sem getur tekið langan tíma að fá afhentan. Þrátt fyrir að ekki séu starfandi einkarekin sjúkrahús eða heilsugæslustöðvar, þá séu sérhæfðar heilsugæslustöðvar sem séu sérstaklega ætlaðar diplómötum og ferðamönnum. Bestu sjúkrahúsin og læknar sinni ferðamönnum og stjórnmálamönnum og almennir borgarar þurfi að lifa við skerta þjónustu. Þá hafi yfirvöld viðurkennt í janúar 2022 að skortur væri á lyfjum í landinu og að um 88 af þeim 262 lyfjum sem væru talin mikilvægust væru ófáanleg í landinu.

Þá kemur fram í sömu heimildum að stjórnvöld á Kúbu hafi sent tugþúsundir erlendis á hverju ári til að hjálpa til að við að takast á við skammtímakrísur og náttúruhamfarir. Árið 2020 hafi Kúba sent um fjögur þúsund lækna til að hjálpa næstum 40 löndum að bregðast við Covid-19 heimsfaraldrinum sem hafi þeir bæst í hóp þeirra 28 þúsund heilbrigðisstarfsmanna sem þegar hafi verið við vinnu víðsvegar í heiminum. Heimsfaraldurinn varð til þess að þjóðir um allan heim leituðu til Kúbu um aðstoð, en heimildir bera með sér að dekkri hlið sé á mannúðaraðstoð Kúbu. Þannig brjóti stjórnvöld gegn grundvallarréttindum kúbverska lækna, m.a. rétti til friðhelgi einkalífs, tjáningar- og félagafrelsis og rétti þeirra til að ferðast til og frá heimaríki sínu. Árið 2010 hafi ráðuneyti utanríkisviðskipta- og erlendra fjárfestinga sett óljósar reglur þar sem heilbrigðisstarfsfólki sem sent sé til útlanda sé m.a. bannað að hafa tengsl við fólk sem hegði sér ekki í samræmi við gildi kúbversks samfélags, „stofni til kynna við kúbverska andófsmenn eða menn með fjandsamlegar eða andstæðar skoðanir á kúbversku byltingunni“ og „sé hvatamaður lífstíls sem sé andstæður meginreglum sem kúbverskur starfsmaður erlendis verði að tákna“. Að búa með „ósamþykktu fólki“ sé agabrot og starfsfólk verði að upplýsa um öll rómantísk tengsl til nánustu yfirmanna sinna. Viðurlög við brotum á reglunum séu allt frá því að halda eftir launum viðkomandi starfsmanns eða hann kallaður aftur heim til Kúbu. Samkvæmt kúbverskum hegningarlögum getur heilbrigðisstarfsfólk sem yfirgefi vinnu sína, átt yfir höfði sér fangelsisrefsingu í allt að átta ár. Þá takmarki kúbversk lög mjög rétt lækna og annarra Kúbverja til að yfirgefa landið og aðgengi að venjulegum vegabréfum. Kúbverskir heilbrigðisstarfsmenn hafi einnig greint frá því að þeir sem „yfirgefi“ verkefnin geti sætt endurkomubanni til Kúbu í allt að átta ár, þótt það sé ekki skýrt í kúbverskri löggjöf. Þá hindri innflytjendalög að fólk sem lýst hefur verið „óæskilegt“ eða sem hefur „skipulagt, hvatt til, framkvæmt eða tekið þátt í aðgerðum gegn pólitískum, efnahagslegum og félagslegum gildum kúbverska ríkisins“, fái inngöngu í landið. Ferðafrelsi og réttur til að skipta um búsetu og vinnustað sé einnig almennt takmarkaður.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um stöðu mannréttinda í Kúbu kemur fram að stjórnarskráin kveði á um jafnan rétt kvenna og karla. Konur hafi sömu réttindi og skyldur í hjónabandi, við skilnað, við forsjárskyldur og til atvinnu. Lög kveði á um bann við nauðgunum og ,,lostafullri misnotkun“ gegn báðum kynjum. Viðurlög við nauðgun séu að minnsta kosti fjögurra ára fangelsi auk þess sem kynferðisleg áreitni sé refsiverð. Þá hefi nýleg fjölskyldulög í landinu styrkt réttindi kvenna og stúlkna, m.a. með því að efla rétt til barnseigna og leggja bann við heimilisofbeldi og öllum líkamlegum refsingum. Í skýrslum baráttuhópa um kvenréttindi komi hins vegar fram að glæpir gegn konum séu vanskráðir og stjórnvöld rannsaki málin ekki með fullnægjandi hætti.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna og almenns ástands.

Mat á trúverðugleika frásagna kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hennar hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum frá heimaríki kæranda.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að vera fædd og uppalin í […], í […]héraði á Kúbu og hafa búið þar þangað til hún hafi flúið heimaríki sitt. Kærandi hafi tekið þátt í almennum mótmælum 11. júlí 2021. Þegar hún hafi mætt í skólann eftir mótmælin hafi hún verið kölluð til og henni sagt að vitað væri að hún hefði verið að mótmæla og að ef hún yrði vís að því aftur eða öðru andófi, fengi hún ekki að klára læknisfræðinámið og útskrifast. Kærandi hafi ekki tekið þátt í mótmælum eftir þetta. Kærandi kvaðst hafa náð að klára læknisfræðinámið og farið að vinna á heilsugæslu. Hún greindi frá erfiðum aðstæðum, skorti á nauðsynlegum læknisbúnaði og álagi. Þegar hún hafi vitjað manns með Covid hafi hann verið með háan hita og hún hafi óskað eftir sjúkrabíl. Heilsugæslan hafi hins vegar ekki sent sjúkrabíl fyrr en átta dögum seinna en þá hafi maðurinn verið látinn. Í tilkynningu um atvikið hafi hún greint frá því að þetta hafi verið vegna vanrækslu hjá heilsugæslunni og heilbrigðiskerfinu. Í kjölfarið hafi henni verið tjáð að hún hafi ekki mátt segja þetta. Kæranda hafi liðið illa yfir því að geta ekki hjálpað sjúklingum og að henni væri meinað að tjá sig um þetta. Eftir fimm mánuði í starfi hafi atvinnusamningur hennar ekki verið framlengdur og henni tjáð að það ætti að færa hana annað, til þorpsins […], í héraðinu […]. Kærandi hafi ekki samþykkt að hefja störf á nýjum stað og í kjölfarið hafi aðilar komið heim til hennar. Að endingu hafi yfirmaður hennar sagt við hana að það besta væri fyrir hana að fara úr landi, því hún fengi aldrei að vinna þar aftur. Kærandi kvaðst óttast um stöðu sína í landinu, vegna almenns ástands í landinu og þess að hún hafi ekki getað unnið vinnuna sína almennilega vegna ástandsins. Þá kvaðst kærandi hafa fengið símhringingar þar sem hún hafi verið spurð hvort hún styddi núverandi forseta. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn varðandi meintar hótanir eða símhringingar sem hún kveður vera frá stjórnvöldum. Með vísan til heimilda um heimaríki kæranda er það mat kærunefndar að ekki sé ástæða til að draga í efa að hún kunni að hafa sætt mótlæti vegna afstöðu sinnar til aðstæðna í heimaríki.

Kærandi hefur greint frá því að hún hafi einungis tekið þátt í mótmælum einu sinni, hinn 11. júlí 2021, en þá hafi þúsundir manna mótmælt á götum úti og fjöldi fólks verið handtekinn. Gögn bera með sér að efnt hafi verið til fleiri mótmæla síðustu ár í Kúbu vegna almennra aðstæðna, m.a. í borginni […] og að yfirvöld hafi í einhverjum tilvikum handtekið almenna borgara vegna þátttöku þeirra. Þá hafi yfirvöld gripið til ýmissa aðgerða til þess að sporna gegn mótmælum sem og annars konar andstöðu við stjórnvöld. Gögn benda þó til þess að athygli og aðgerðir stjórnvalda til að bæla niður andstöðu beinist einkum að aðgerðarsinnum, lista- og blaðamönnum og öðrum sem fari hátt með stjórnmálaskoðanir sínar og eru áberandi í gagnrýni sinni. Þrátt fyrir viðbrögð stjórnvalda benda heimildir til þess að það starfi fjöldi frjálsra félagasamtaka sem berjist fyrir réttindum í landinu og þá hafi á síðustu árum orðið aukning í sjálfstæðri fjölmiðlaumfjöllun á veraldarvefnum. Er það mat kærunefndar að gögn málsins beri ekki með sér að kærandi hafi verið eða sé undir sérstöku eftirliti af hálfu stjórnvalda, enda gat hún m.a. ferðast án hindrana hingað til lands og þá hefur kærandi ekki sýnt fram á að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimalandi á grundvelli stjórnmálaskoðana sinna og mótmælaþátttöku þar í landi umfram aðra samborgara hennar sem hafi svipaðar skoðanir.

Kærandi er menntaður læknir og í gögnum um heimaríki hennar kemur fram að stjórnvöld hafi afskipti af störfum lækna og þeir séu almennt skyldaðir til að fjalla ekki á gagnrýninn hátt um stjórnvöld í Kúbu. Læknar glími almennt við erfiðar aðstæður í störfum sínum sökum lyfjaskorts og skorts á nútímalegum lækningatækjum sem geri störf þeirra erfið. Kærandi kvað að eftir að hún hafi gagnrýnt viðbrögð heilbrigðiskerfisins í heimaríki hafi hún verið flutt til í starfi en henni hafi ekki hugnast sá flutningur. Þá hafi aðilar komið heim til hennar en kærandi greindi ekki frá því í hvaða tilgangi það hafi verið. Verður ekki talið að atvik þau og meðferð sem kærandi hefur lýst nái því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr., sbr. b-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá verður ekki talið að gögn málsins beri með sér að kærandi eigi á hættu að sæta ofsóknum af öðrum ástæðum er tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærunefnd jafnframt að samlegðaráhrif þeirra atriða sem kærandi hefur vísað til sem hugsanlegar ástæður ofsókna séu ekki þess eðlis eða nái því marki að hún teljist eiga á hættu ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Kærandi vísar til þess að hún sé í hættu vegna almenns ástands og erfiðra efnahagslegra aðstæðna í heimaríki. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að ástandið á Kúbu sé víða ótryggt, sökum náttúruhamfara og efnahagsþrenginga, m.a. í kjölfar Covid-19 heimsfaraldursins, og að fjöldi þeirra sem yfirgefið hafa landið hafi aukist verulega síðustu ár. Það er þó mat kærunefndar að virtum framburði kæranda, gögnum málsins og landaupplýsingum um ástandið á Kúbu að kærandi eigi ekki á hættu meðferð sem brjóti gegn 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, s.s. að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði henni gert að snúa til Kúbu.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður kæranda séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi. 

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi hefur greint frá erfiðum aðstæðum í heimaríki vegna þess að hún hafi mótmælt aðgerðum ríkisstjórnarinnar og aðstæðum í landinu en einnig vegna starfa sinna sem læknir og takmarkana stjórnvalda á frelsi þeirra, m.a. til tjáningar. Kærandi telur m.a. ljóst að hún geti ekki lifað öruggu og eðlilegu lífi fjarri ofbeldi og áreiti stjórnvalda og að ástand mannréttindamála þar í landi sé slæmt og félagslegar aðstæður bágbornar. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi m.a. til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu og þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í athugasemdum kemur jafnframt fram að erfiðar almennar aðstæður geti tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um aðstæður á Kúbu telur kærunefnd að þrátt fyrir erfiðleika í heimaríki kæranda séu almennar aðstæður í heimaríki ekki slíkar að grundvöllur sé til veitingar dvalarleyfis á grundvelli erfiðra almennra aðstæðna.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi sé almennt heilsuhraust, hún sé nýlega útskrifuð úr læknisfræði og hafi verið starfandi læknir þar til hún hafi yfirgefið starf sitt vegna slæms aðbúnaðar og ástands í heilbrigðismálum. Kærandi hefur greint frá því að hún óttist að hún muni ekki geta starfað sem læknir í heimaríki. Kærandi hefur að mati kærunefndar ekki leitt líkur að því að hún geti ekki fengið atvinnu í heimaríki. Hún hafi greint frá því að hún eigi hús í heimaríki og fjölskyldu sem hún haldi sambandi við. Er það mat kærunefndar að kærandi sé fær um að framfleyta sjálfri sér og njóti auk þess stuðnings fjölskyldu í heimaríki. Kærandi hefur greint frá því að hún sé fráskilin en eigi kærasta í heimaríki. Stjórnarskrá Kúbu kveði á um jafnan rétt kvenna og karla. Konur hafi sömu réttindi og skyldur í hjónabandi, við skilnað, við forsjárskyldur, framfærslu heimilis og til atvinnu. Kærunefnd telur því að félagslegar aðstæður kæranda við komu til heimaríkis séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga .

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hún verði ekki send áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar hér að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 17. maí 2022. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hennar um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga sbr. 2. og 5. gr. 106. gr. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hennar hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við góða heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þá getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decision of the Directorate of Immigration affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Sindri M. Stephensen                                                Þorbjörg I. Jónsdóttir


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta