Athugasemd frá ráðuneytinu: Persónuvernd hefur aldrei mælt gegn lyfjagagnagrunni
A T H U G A S E M D
heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins
vegna fréttar í Fréttablaðinu í dag, 6. desember, undir fyrirsögninni;
"Persónuvernd mælir gegn lyfjagagnagrunni"
Þetta er ekki rétt.
Persónuvernd hefur aldrei mælt gegn lyfjagagnagrunni.
Persónuvernd hefur hins vegar í bréfi til ráðuneytisins, dags. 18. nóvember s.l. gert efnislegar tillögur og athugasemdir við frumvarp heilbrigðisráðherra um lyfjagagnagrunna. Ráðherra hefur í viðtali við fjölmiðla lýst því yfir að hann hafi lagt umrætt frumvarp fyrir ríkisstjórnina og þingflokkana með þeim fyrirvara að athugasemdir ættu eftir að berast frá Persónuvernd og að hann telji eðlilegt að Heilbrigðisnefnd taki tillit til framkominna athugasemda Persónuverndar í umfjöllun sinni um frumvarpið.
Fréttinni fylgir viðtal við Sigrúnu Jóhannesdóttur, forstjóra Persónuverndar þar sem hún segir m.a. að ekki séu nægileg rök sem mæli með því að Tryggingastofnun fái yfirsýn yfir alla lyfjanotkun allra landsmanna. Hún telur á hinn bóginn að réttlæta megi að Tryggingastofnun fái upplýsingar um þau lyf sem stofnunin greiðir að hluta til.
Hér er um misskilning að ræða því að vorið 2000 samþykkti alþingi nýtt ákvæði í 24. gr. lyfjalaga sem tekur af allan vafa um heimild Tryggingastofnunar til að fá upplýsingar á rafrænu formi og að þær upplýsingar nái til allra afgreiddra lyfja. Það er einnig nauðsynlegt að gagnagrunnurinn nái til annarra lyfja en þeirra sem eru niðurgreidd af almannatryggingum þar sem í þeim flokki eru all mörg eftirritunarskyld lyf.
Til að forðast enn frekari misskilning skal tekið fram að upplýsingar um persónur í persónugreinanlegum lyfjagagnagrunni eru dulkóðaðar og einungis afkóðaðar ef rökstuddur grunur liggur fyrir um misferli.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
6. desember 2002
6. desember 2002