Ráðherra veitti Espiflöt og Garði landbúnaðarverðlaunin 2020
Kristján Þór Júlíusson, ráðherra landbúnaðarmála, veitti Garðyrkjustöðinni Espiflöt í Biskupstungum og Garði í Eyjafirði landbúnaðarverðlaunin 2020 á nýyfirstöðnu Búnaðarþingi. Hugmyndin að baki verðlaununum er að veita bændum og býlum sem á einn eða annan máta vekja athygli og eru til fyrirmyndar í íslenskum landbúnaði, viðurkenningar og hvatningarverðlaun. Ráðherra landbúnaðarmála hefur veitt verðlaunin frá árinu 1997.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
„Það er mér mikill heiður að veita verðlaunin á Búnaðarþingi. Í báðum tilfellum er um að ræða metnaðarfulla og nýjungagjarna bændur sem hafa byggt upp glæsileg starfsemi sem er til fyrirmynda í verðmætasköpun fyrir íslenskan landbúnað.“
Garðyrkjustöðin Espiflöt í Biskupstungum
Fram undir 1965 var eingöngu ræktað grænmeti á Espiflöt en á árunum 1965-1977 var þar blönduð ræktun blóma og grænmetis. Síðar tók stöðin að sérhæfa sig í ræktun afskorinna blóma og er í dag einn stærsti einstaki framleiðandi blóma hér á landi, með mikið úrval tegunda og litaafbrigða. Blóm eru ræktuð undir fullri vaxtarlýsingu þannig að framleiðslan er mjög jöfn yfir allt árið. Á Espiflöt er áhersla lögð á vistvæna nálgun í öllum þáttum framleiðslunnar. Síðastliðin 17 ár hafa nær eingöngu verið notaðar lífrænar varnir til að halda niðri meindýrum. Á Espiflöt hefur einnig verið unnið að því markmiði að hreinsa og endurnýta allt vatn sem fer í gegnum stöðuna.
Á Espiflöt hefur metnaður verið lagður í að framleiða blóm af bestu gæðum og í góðu úrvali. Litið er til framþróunar og að tileinka sér tæknilegar nýjungar sem miða að vinna að framangreindum markmiðum. Þar hefur verið byggð upp glæsileg starfsemi sem er til fyrirmyndar í íslenskum landbúnaði.
Garður í Eyjafirði
Garður hefur verið í stöðugri uppbyggingu frá því að þar hófst búskapur og hefur meðal annars verið boðið upp á landbúnaðarverktöku fyrir bændur í Eyjafirði. Auk þess hefur töluverð kornrækt verið stunduð á bænum í fjölda ára og snemma var byrjað á kartöflurækt.
Árið 2007 tóku þau í notkun nýtt og glæsilegt lausagöngufjós. Það er 2100 fm. að stærð og búið mikilli tækni. Um leið og fjósið var reist vakti það mikla athygli bæði fyrir að vera stærsta fjósbygging landsins og sú tæknivæddasta. Í dag eru í fjósinu 150 mjólkurkýr, kálfar og geldneyti telur 300 nautgripi. Aðstaða í fjósinu er til fyrirmyndar og má nefna að dýralæknakostnaður hefur lækkað umtalsvert, dýrunum líður vel og vinnuaðstæður eru góðar.
Árið 2011 var opnað kaffihús sem heitir Kaffi Kú í á fjósaloftinu. Kaffi Kú tekur 60 manns í sæti og þar er hægt að fylgjast með 300 kúm og hálfum í afslöppuðu umhverfi þar sem kýrnar liggja á dýnum, fara í nudd og láta mjólka sig þegar þær vilja. Gefst gestum þannig tækifæri til að kynna sér störf bóndans og hvernig mjólkurframleiðslan fer fram í fullkomlega sjálfvirku fjósi. Árið 2019 heimsótti 30.000 gestir Kaffi Kú.
Á Garði er rekin fyrirmyndarstarfsemi þar sem tækniþróun hefur verið nýtt í því augnamiði auka verðmætasköpun og bæta velferð dýra. Þá hafa bændur á Garði gefið almenningi gott tækifæri til að kynnast betur íslenskum landbúnaði.