Forsætisráðherra á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í dag ávarp á leiðtogafundi forsætisráðherra Norðurlandanna á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Á leiðtogafundinum var rætt um hvaða lærdóma Norðurlöndin geti dregið af heimsfaraldri kórónaveiru og hvernig norrænt samstarf verði eflt í framtíðinni.
Í ávarpinu ræddi Katrín samstarf norrænu ríkjanna í faraldrinum sem að mörgu leyti hafi verið þétt. Ísland hafi t.d. notið ómetanlegs stuðnings í formi aðgengis að bóluefnum og lækningavörum. Hins vegar hafi faraldurinn líka afhjúpað ákveðna veikleika í norrænu samstarfi sem hafi m.a. birst í lokun landamæra.
„Það er alveg ljóst að COVID-19 farsóttin mun ekki verða síðasta áskorunin af þessu tagi sem Norðurlöndin þurfa að bregðast við. Þá skiptir öllu að geta talað saman og miðlað upplýsingum hratt og örugglega,“ sagði Katrín.
Katrín tók einnig þátt í N8 fundi norrænu forsætisráðherranna. Á fundinum samþykktu ráðherrarnir yfirlýsingu um aukið norrænt samstarf á sviði birgðaöryggis og viðbragðs. Ráðherrarnir ræddu þar að auki um sjálfbæra orkunýtingu og orkuöryggi á Norðurlöndunum.
Þá átti Katrín tvíhliða fundi annars vegar með Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og hins vegar með Múte B. Egede, formanni landsstjórnar Grænlands. Þeir Støre og Egede tóku báðir við embættum sínum á árinu og voru þetta því fyrstu tvíhliða fundir Katrínar með þeim.
Katrín Jakobsdóttir og Múte B. Egede
Katrín Jakobsdóttir og Jonas Gahr Støre