Hoppa yfir valmynd
12. maí 2014 Matvælaráðuneytið

HAMPÁS ehf.kærir ákvörðun Fiskistofu, dags. 17. september 2013, um að við úthlutun byggðakvóta Garðs fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 komi ekki til úthlutunar byggðakvóta til bátsins Ragnars Alfreðs GK-183, (1511).

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru Halldórs Péturssonar f.h. HAMPÁS ehf., Skálareykjavegi 12, 250 Garði, dags. 4. desember 2013, sem barst ráðuneytinu 7. janúar 2014, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 17. september 2013, um að við úthlutun byggðakvóta Garðs fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 komi ekki til úthlutunar byggðakvóta til bátsins Ragnars Alfreðs GK-183, skipaskrárnúmer 1511. Stjórnsýslukæran var framsend til ráðuneytisins af Fiskistofu með bréfi, dags. 6. janúar 2014, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 17. september 2013, um að við úthlutun byggðakvóta Garðs fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 komi ekki til úthlutunar byggðakvóta til bátsins Ragnars Alfreðs (1511) og jafnframt að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til framangreinds báts í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukærunni.

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 7. desember 2012, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 8. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 í nokkrum byggðarlögum, m.a. í Garði en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum og 5. gr. reglugerðar nr. 628/2012, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2012/2013. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 21. desember 2012. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 41 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Garðs sem komu öll í hlut byggðarlagsins Garðs. Úthlutunin var tilkynnt Sveitarfélaginu Garði með bréfi, dags. 19. október 2012.


Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn Ragnar Alfreðs GK-183 (1511) með umsókn til Fiskistofu, dags. 19. desember 2012.


Hinn 7. janúar 2013 tilkynnti Fiskistofa kæranda og öðrum útgerðum í Garði um skiptingu byggðakvóta milli einstakra báta í byggðarlaginu. Kæranda var tilkynnt að 847 þorskígildiskíló hafi komið í hlut bátsins Ragnars Alfreðs GK-183 (1511). Ákvarðanir Fiskistofu voru byggðar á ákvæðum 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, reglugerð nr. 628/2012, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2012/2013 og auglýsingu (III) nr. 1045/2012, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta. Skiptingin kom fram á yfirlitsblaði sem fylgdi ákvörðununum.


Einnig kom fram í ákvörðunum Fiskistofu að áður en úthlutun fari fram skuli vera uppfyllt skilyrði 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012 um að bátarnir hafi á tímabilinu 1. september 2012 til 31. ágúst 2013 landað afla til vinnslu innan byggðarlagsins sem nemi tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þeim var úthlutað.


Þá kom fram í ákvörðunum Fiskistofu að þær væru kæranlegar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindum tilkynningum Fiskistofu um úthlutun eða höfnun umsókna um úthlutun.


Með bréfum, dags. 17. september 2013, tilkynnti Fiskistofa kæranda og öðrum útgerðum í Garði ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra báta í byggðarlaginu eftir að upplýsingar um landanir til vinnslu í byggðarlaginu höfðu borist stofnuninni. Kæranda var tilkynnt að 847 þorskígildiskíló hafi verið ætluð skipinu Ragnari Alfreðs GK-183 (1511). Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012 væri óheimilt að úthluta aflamarki vegna byggðakvóta til skips, sem flutt hefði verið meira aflamark frá en flutt hefði verið til skipsins á fiskveiðiárinu 2012/2013. Gögn Fiskistofu sýni að flutt hafi verið 173.108 þorskígildiskílóum meira af aflamarki frá ofangreindu skipi en flutt hafi verið til þess á fiskveiðiárinu 2012/2013. Af því leiði að ekki komi til úthlutunar byggðakvóta til skipsins vegna fiskveiðiársins 2012/2013.


Þá kom fram í ákvörðun Fiskistofu að hún væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu.

 

Málsrök með stjórnsýslukæru o.fl.

Með stjórnsýslukæru, dags. 4. desember 2013, sem barst ráðuneytinu 7. janúar 2014, er kærð til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 17. september 2013, um að ekki komi til úthlutunar af byggðakvóta Garðs fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til bátsins Ragnars Alfreðs GK-183 (1511).


Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að eins og komi fram í bréfi Fiskistofu, dags. 7. janúar 2013, hafi bátnum Ragnari Alfreðs GK-183 (1511) verið úthlutað 847 þorskígildiskílóum en eins og komi fram í bréfi stofnunarinnar, dags. 17. september 2013, hafi síðar verið flutt meira aflamark frá bátnum Ragnari Alfreðs GK-183 (1511) en hafi verið flutt til bátsins á fiskveiðiárinu 2012/2013. Aflamarkið sem hafi verið flutt frá bátnum Ragnari Alfreðs GK-183 (1511) sem hafi verið í eigu HAMPÁS ehf. hafi verið flutt þann 30. ágúst 2013 til bátsins Sædísar Báru GK-88 (2829), sem sé í eigu H. Pétursson ehf. og bátsins Elínar Kristínar GK-83 (7423) sem sé í eigu HAMPÁS ehf. Sundurliðun á afla þessara báta sé samkvæmt meðfylgjandi skjali. Þar sem H. Pétursson ehf. eigi HAMPÁS ehf. fari kærandi fram á að úthlutun samkvæmt eldri ákvörðun Fiskistofu, dags. 7. janúar 2013 eða 847 þorskígildiskíló verði látin standa óbreytt þar sem allir þessir bátar séu í raun í eigu sama eiganda og aflinn hafi verið unninn í Garði.


Með bréfi, dags. 7. janúar 2014, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.


Í umsögn Fiskistofu, dags. 3. febrúar 2014, sem barst ráðuneytinu sama dag, segir m.a. að Fiskistofa geti ekki fallist á þau sjónarmið sem komi fram í stjórnsýslukærunni enda sé ekkert í reglum sem gefi til kynna slíka túlkun. Eignaraðild að einkahlutafélögum geti verið með margvíslegum hætti og það sem ráði hvort uppfyllt séu skilyrði 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012 sé hvernig aflamarksstaða skipsins hafi verið í lok fiskveiðiársins 2012/2013 en ekki hvernig eignaraðild að skipi sé háttað. Fiskistofa telji því að staðfesta beri framangreinda ákvörðun stofnunarinnar.


Engin gögn fylgdu framangreindri umsögn Fiskistofu.


Einnig bárust ráðuneytinu með tölvubréfum Fiskistofu frá 25. og 29. apríl 2014 tiltekin viðbótargögn í málinu.


Með bréfi, dags. 10. febrúar 2014, sendi ráðuneytið kæranda ljósrit af framangreindri umsögn Fiskistofu, dags. 3. febrúar 2014, og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við hana. Frestur til þess var veittur til og með 28. febrúar 2014.


Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu vegna framangreinds bréfs, dags. 10. febrúar 2014.

 

Rökstuðningur

I. Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar. Í 8. mgr. greinarinnar er Fiskistofu falið að annast úthlutun aflaheimilda sem koma í hlut einstakra fiskiskipa.


Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 628/2012, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2012/2013. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á umræddu fiskveiðiári en þau eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. desember 2011 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. desember 2011. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.


Þá eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að úthlutun aflaheimilda skuli fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur staðfest, eftir því sem við á, og skuli úthlutað hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2011 til 31. ágúst 2012. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur niður úthlutun til þess og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum.


Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum, sem víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum sem ráðherra setur í reglugerð, enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 628/2012.


Í 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 kemur fram að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemi í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað skv. 2. tölul. 1. mgr. greinarinnar og að úthlutun til þeirra skuli ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði sé uppfyllt samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Ráðherra er heimilt að víkja frá þessu skilyrði að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna.


Í 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012 er sambærilegt ákvæði og framangreint ákvæði um að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemi, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerðinni og að úthlutun til þeirra skuli ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði sé uppfyllt. Ráðherra er heimilt að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar að víkja frá þessu skilyrði enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna.


Sett hafa verið sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í Garði fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 með auglýsingu (III) nr. 1045/2012, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, en ákvæði auglýsingarinnar hafa ekki áhrif á niðurstöðu þessa máls.


Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa í Garði fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 628/2012 og auglýsingu (III) nr. 1045/2012.


II. Í 2. málsl. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða er svohljóðandi ákvæði: "Einnig er ráðherra heimilt að setja reglur um að ekki sé heimilt að úthluta aflaheimildum til skipa sem fluttar hafa verið meiri aflaheimildir frá en þær heimildir sem fluttar hafa verið til skipanna á tilteknu fiskveiðiári."Ráðherra hefur ákveðið að þessi heimild skuli koma til framkvæmda við úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárins 2012/2013 og er ákvæði þess efnis í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2012/2013. Í 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar segir m.a.: "Einnig er það skilyrði fyrir úthlutun að ekki hafi verið flutt meira aflamark í þorskígildum talið á fiskveiðiárinu 2012/2013, frá viðkomandi fiskiskipum en flutt hefur verið til þeirra þegar afhending aflamarks á sér stað." Þá segir í 2. málsl. 5. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012: "Hafi skilyrði fyrir úthlutun aflamarks til einstakra fiskiskipa á grundvelli reglugerðar þessarar ekki verið uppfyllt að fullu í lok þess tímabils sem fram kemur í 1. mgr. þessarar greinar, fellur niður réttur til aflamarks í hlutfalli við það sem upp á vantar að skilyrði séu uppfyllt."


Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytinu hafa borist frá Fiskistofu höfðu verið fluttar meiri aflaheimildir frá bátnum Ragnari Alfreðs GK-183 (1511), sem nemur 173.108 þorskígildiskílóum, en fluttar höfðu verið til bátsins á fiskveiðiárinu 2012/2013. Báturinn Ragnar Alfreðs GK-183 (1511) uppfyllti því ekki skilyrði fyrir úthlutun af byggðakvóta Garðs fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 í lok þess tímabils sem kemur fram í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012, þ.e. 31. ágúst 2013, eins og kemur fram í hinni kærðu ákvörðu Fiskistofu, dags. 17. september 2013.


Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður kæranda sem koma fram í stjórnsýslukærunni eða öðrum gögnum málsins geti ekki haft áhrif á niðurstöðu þessa máls.


Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki komi til úthlutunar af byggðakvóta Garðs fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til bátsins Ragnars Alfreðs GK-183 (1511) en samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 17. september 2013.


Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 17. september 2013, um að við úthlutun byggðakvóta Garðs fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 komi ekki til úthlutunar byggðakvóta til bátsins Ragnars Alfreðs GK-183, skipaskrárnúmer 1511.


Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Jóhann Guðmundsson

Sigríður Norðmann


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta